Það skapaðist lífleg umræða um hegðun bíógesta á Íslandi á Reddit eftir að einn spurði netverja: „Hef ég bara verið óheppinn eða er fólk alveg hætt að kunna að haga sér í bíósal?“
„Ég hef mjög lítið farið í bíó síðustu árin, að hluta til vegna pakksins sem eyðileggur upplifunina fyrir manni,“ sagði aðilinn og sagði að annað hvort sé fólk að tala endalaust við hvort annað eða endalaust í símanum, eða jafnvel bæði.
Færslan hefur vakið þó nokkra athygli en netverjar deila ólíkum upplifunum. Sumir taka undir með þeim sem skrifaði upphafsinnleggið á meðan aðrir segjast ekki kannast við þessar lýsingar.
„Fór á Eldana fyrr í vikunni og þar sat einhver náungi aftast sem var greinilega að skrolla í símanum. Það hefði ekki verið vandamál nema stundum komu vídjó á og það var aldeilis stillt á hæsta mögulega hljóðstyrk hjá kauða. Hef annars ekki mikið lent í veseni með svona og ég fer alveg ágætlega oft í bíó,“ segir einn.
„Ég hef farið aveg ágætlega oft í bíó síðustu ár (ca. 1 sinni í mánuði að meðaltali) og fólk hefur alla jafna alveg kunnað að haga sér. Kannski varst þú bara óheppinn eða kannski fer það líka eftir hvaða bíóhús/sýningartíma þú velur, ég reyni að fara helst í Laugarásbíó og vel yfirleitt síðustu sýningun,“ segir annar.
„Hef ekki upplifað dónaskap í bíósal til þessa í einhver ár,“ segir einn.
Einhverjir segja þetta misjafnt eftir kvikmyndahúsum og nefnir einn sérstaklega að „Kringlubíó virðist verst að þessu leyti.“
Annar segir það ekki skipta máli. „Tek eftir þessu líka, sama í hvaða bíó ég fer. Mér fannst ég taka eftir þessu fyrst eftir að bíóin opnuðu aftur eftir covid. Fólk er endalaust í símanum eða að spjalla við næsta mann.“