fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Fókus

Öll helstu skotin í einum umtalaðasta South Park- þætti fyrr og síðar

Fókus
Sunnudaginn 27. júlí 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýjasti þáttur gamanþáttanna South Park hefur valdið töluverðu fjaðrafoki og þykir marka töluverð tímamót. Þættirnir hafa verið gagnrýndir undanfarin ár fyrir að halda töluvert aftur af sér af ótta við öfgafullan pólitískan rétttrúnað en aðdáendur túlka nýjasta þáttinn sem skilaboð um að sá tími sé á enda og að South Park eins og við þekktum í gamla daga séu snúnir aftur.

Þarna má finna beitta pólitíska og samfélagslega gagnrýni þar sem sviðsljósinu er varpað á þær vendingar sem hafa orðið í bandarísku samfélagi undanfarna mánuði. Leikur því forsetinn, Donald Trump, eðlilega stórt hlutverk. South Park sakar forsetann ítrekað um að vera með agnarsmáan getnaðarlim en fyrst og fremst beinist gagnrýnin að sátt sem Trump gerði nýlega við streymisveituna Paramount sem margir hafa kallað illa dulbúna mútugreiðslu.

Hér verður farið yfir öll helstu skotin í þessum umtalaða þætti. Því má beina höskuldarviðvörun til þeirra sem ekki hafa séð þáttinn þar sem fátt mun koma á óvart eftir yfirferðina hér að neðan.

Stærsta skotmarkið

Stærsta skotmark þáttarins er Paramount sem höfundar South Park, Trey Parker og Matt Stone gerðu 1,5 milljarða dollara streymissamning við örfáum dögum áður en þátturinn fór í loftið.

Paramount hefur í nokkurn tíma stefnt á samruna við afþreyingarfyrirtækið Skydance en fyrir því þarf samþykki stjórnvalda. Staðið hefur á þessu samþykki og ekki hjálpaði til að Trump stóð í málaferlum við dótturfélag streymisveitunnar, fjölmiðilinn CBS.

Málaferlin má rekja til viðtals fréttaskýringarþáttarins 60 mínútna við forsetaframbjóðandann Kamala Harris. Trump hélt því fram að viðtalið hefði verið klippt til að Harris kæmi betur út og þannig hafi CBS í raun reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar.

Lögspekingar töldu góðar líkur á því að Paramount hefði betur í dómsal og kom það því nokkuð á óvart þegar fyrirtækið tilkynnti að það hefði náð sáttum við Trump og samþykkt að greiða 16 milljónir dala til forsetabóksafns Trump ásamt afsökunarbeiðni. Eins hefur CBS nú rekið vinsæla spjallþáttastjórnandann Stephen Colbert sem hafði verið forsetanum þyrnir í augum.

Andstæðingar samkomulagsins hafa lýst því sem mútum til að greiða fyrir samrunanum við Skydance.

Höfundar South Park eru greinilega ekki sáttir við þessi málalok en í þættinum ákveður Trump að stefna fjallabænum sem líkt og Paramount endar með því að lúffa því bærinn vill ekki enda í sömu sporum og Colbert – slaufað af forsetanum.

Slaufun NPR

Ein aðalpersóna þáttanna, hinn alræmdi Eric Cartman, vaknar í upphafi þáttar við vondan draum. Forsetinn hefur slaufað uppáhalds útvarpsstöð hans, ríkismiðlinum NPR. Cartman hafði gaman af þáttunum því hann naut þess að hlusta á vinstrimenn væla.

„Þetta er fyndnasti þáttur í heimi þar sem lesbíur og gyðingar kvarta undan hlutum.“

Þarna er verið að skjóta á aðgerðir Trump gegn fjölmiðlum en hann hefur meðal annars skorið niður fjárframlög til NPR og PBS.

Jesú

Skólastjóri grunnskólans í South Park er í tilvistarkreppu. Hann hefur undanfarin ár verið þekktur sem rétttrúnaðarskólastjórinn, en nú í forsetatíð Trump er ekkert rými lengur fyrir pólitískan rétttrúnað. Hann hefur því hallað sér í aðra átt og býður Jesú Krist velkominn í skólann, eitthvað sem foreldrum barnanna hugnast illa í ljósi skýrrar afstöðu stjórnarskránnar um aðskilnað ríkis og kirkju.

Jesú er sýnilegur í skólanum en gerir þó fátt annað en að standa á göngununum svo börnin sjá hann.

Þarna er verið að skjóta á ríkisstjórnina sem og íhaldsamari ríki Bandaríkjanna. Meðal annars hefur skólum víða verið gert að hafa boðorðin sýnileg í kennslustofum og Trump hefur sjálfur látið prenta sínar eigin biblíur sem hann hefur svo selt til grunnskóla. Trump hefur eins stofnað sérstaka trúardeild innan Hvíta hússins og heitið því að berjast gegn fordómum gegn kristnum.

Woke

Tilvistarkreppa Cartman heldur áfram. Hann hefur í gegnum árin gert það að persónuleika sínum að hæðast að woke-inu, en hvað getur hann gert þegar það er ekkert woke lengur? Hann hreinlega missir lífsviljann.

„Það er dautt og farið. Þú mátt segja að einhver sé vangefinn núna. Öllum er sama. Allir hata gyðinga og öllum finnst í lagi að nota níðyrði í garð homma. Þetta er hræðilegt því nú veit ég ekki hvað ég á að gera.“

Trump fór mikinn í kosningabaráttu sinni og hét því að uppræta woke-ið ógurlega sem hann og stuðningsmenn hans kalla heilavírus.

Nokkrir íbúar South Park segjast hafa kosið Trump en þeir séu þó ekki ánægðir með störf hans.

„Já ég kaus hann, en það eina sem ég hef séð hann gera er að handtaka fólk og stefna því,“ segir einn.

„Ég kaus hann til að losna við allt þetta woke-drasl. En nú er þessi vangefni faggi bara að fylla sína eigin vasa,“ segir annar.

Þarna er verið að skjóta á forsetann fyrir ítrekaðar hótanir hans til andstæðinga um málaferli og jafnvel handtökur. Skemmst er að minnast þess að undanfarna daga hefur hann hótað því að handtaka fyrrum forsetann Barack Obama, spjallþáttadrottninguna Oprah og tónlistarkonuna Beyonce.

Seinna í þættinum segir einn íbúinn að vissulega hafi woke gengið of langt en svarið sé ekki að færa sig of langt í hina áttina.

Einræðisherra

Á árum áður lék fyrrum einræðisherrann Saddam Hussein stórt hlutverk í South Park. Nú hefur Trump tekið við keflinu og er teiknaður og talsettur alveg eins og Hussein forðum. Trump á meira að segja sömu hjásvæfu – sjálfan skrattann.

Þetta er skot á meinta einræðistilburði forsetans. Enda kemur forsætisráðherra Kanada í Hvíta húsið og segir:

„Herra forseti, hvað meinarðu með þessum nýju tollum á Kanada? Hvað ertu? Einhvers konar einræðisherra frá Mið-Austurlöndum?

Listaverkin

South Park sýnir fjölda listaverka hanga á veggjum Hvíta hússins. Eitt er enn í vinnslu en forsetinn bregst ókvæða við þegar hann sér að málarinn hefur málað hann með lítið typpi. Hann hótar því að lögsækja listamanninn.

Þarna er skotið á mál sem kom upp í mars þegar forsetinn heimtaði að málverk af honum í ráðhúsi Colarado yrði tekið niður.

Eins má sjá annað málverk sem sýnir Trump á skriðdreka með orrustuflugvélar í bakgrunni. Þetta er mjög hetjuleg mynd sem er líklega skot á mynd sem nú hangir í Hvíta húsinu sem var tekin af forsetanum, eftir banatilræði gegn honum í júlí í fyrra.

Á öðru málverki má sjá forsetann pissa í pissuskál og ef vel er að gáð má sjá að einhver hefur skrifað „Jeff“ á vegginn fyrir ofan hann. Þetta er líklega vísun í Epstein-hneykslið.

Satan

Satan neitar að sænga hjá Trump og segir að hann hafi ekkert verið að vinna undanfarið heldur bara að birta grínmyndir og þrollast á samfélagsmiðlum. Þetta er skot á samfélagsmiðlanotkun forsetans sem birtir ítrekað svokölluð jörm (e. memes) og harðorðar færslur þar sem hann hæðist að óvinum sínum.

Eins segist Satan hafa fengið skilaboð frá vinkonu sinni um að Trump sé á Epstein-listanum.

Forsetinn spyr hvort fólk sé enn að spá í Epstein-listanum sem er vísun til færslu sem Trump birti á samfélagsmiðlum þar sem hann furðaði sig á reiðinni út af Epstein enda væri sá maður löngu dauður og allir ættu að hætta að spá í hann.

60 mínútur

South Park hæðist líka af samkomulagi Paramount við Trump með því að sýna þáttastjórnendur 60 mínútna taugaveiklaða þegar þeir fjalla um mótmælin í South Park. Þau taka ítrekað fram að þó að þau séu að flytja frétt þá sé forsetinn frábær og þau ekki sammála íbúum South Park.

Jesú aftur

Í lok þáttarins kemur Jesú á mótmælin og reynir að stilla til friðar. Hann hvíslar þó að bæjarbúum að þeim sé hollast að semja við Trump. Jesús sjálfur hafi ekki nokkurn áhuga á því að hanga í grunnskólum en hann hafi neyðst til þess út af samningi Paramount við forsetann.

Sáttin

Bæjarbúar, líkt og Paramount, lúffa fyrir forsetanum. Þau þurfa ekki að greiða 5 milljarða dala eins og forsetinn fór fram á heldur bara 3,5 milljónir en í staðinn þurfa þau að framleiða jákvæðar auglýsingar í garð forsetans.

Síðan sýndi South Park fyrstu auglýsinguna af 50, en samkvæmt samningi höfunda þáttanna við Paramount þurfa þeir að framleiða 50 þætti næstu fimm árin. Auglýsingin sýnir þó að þrátt fyrir samkomulagið sé hægt að skjóta á forsetann. Auglýsingin er í kjarnann jákvæð en þar er forsetinn engu að síður niðurlægður með því að fækka fötum og afhjúpa lítinn getnaðarlim.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Borat-stjarnan opinberar breytt útlit – „Þetta er ekki gervigreind“

Borat-stjarnan opinberar breytt útlit – „Þetta er ekki gervigreind“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Var ástfangin af Al Pacino sem sagði hana of unga

Var ástfangin af Al Pacino sem sagði hana of unga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stórstjarnan segist vilja hörku í kynlífinu – Heldur áfram að hrauna yfir fyrrverandi

Stórstjarnan segist vilja hörku í kynlífinu – Heldur áfram að hrauna yfir fyrrverandi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Coldplayhneykslið – Segir framhjáhaldarann mögulega geta höfðað mál gegn sveitinni

Coldplayhneykslið – Segir framhjáhaldarann mögulega geta höfðað mál gegn sveitinni
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Ekki sópa þeim tilfinningum undir teppi“

„Ekki sópa þeim tilfinningum undir teppi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Orðrómur frá Hollywood – Eru ljóshærða kynbomban og djúpraddaði hjartaknúsarinn að draga sig saman á gamalsaldri?

Orðrómur frá Hollywood – Eru ljóshærða kynbomban og djúpraddaði hjartaknúsarinn að draga sig saman á gamalsaldri?