Sykursýkislyfið Ozempic nýtur mikilla vinsælda í dag, þó ekki í þeim tilgangi sem því var ætlað heldur til þyngdarstjórnunar. Sérfræðingar eru nú farnir að óttast að vinsældirnar séu of miklar en þeim hefur fjölgað töluvert sem taka inn lyfið án þess að þurfa á því að halda.
Insider greinir frá því að lyfið geti valdið átröskun eða gert átröskun verri. Miðillinn ræddi við heilbrigðisstarfsmenn sem vinna í sérstökum átröskunarteymum og allir höfðu tekið eftir fjölgun tilfella þar sem einstaklingar á þyngdarstjórnunarlyfjum leita sér aðstoðar vegna átröskunar.
Miðillinn ræddi við hina 32 ára gömlu Rose sem býr í Idaho. Hún hefur árum saman glímt við lotugræðgi. Fyrir nokkrum árum greindist hún með sykursýki og óskaði þá eftir því að vera sett á Ozempic. Átröskunarteymið hennar varð hins vegar ekki lukkulegt enda grunaði þau að Rose myndi fá bakslag í baráttu sína við röskunina.
Hún byrjaði að taka inn lyfið og matarlist hennar hvarf. Hún þurfti nú að minna sjálfa sig á að borða og pína ofan í sig mat. Það gekk þó ekki vel. Læknarnir vildu að hún fengi að minnsta kosti 1.500 hitaeiningar úr fæðu sinni á dag. Rose náði ekki einu sinni upp í þúsund. Hitaeiningunum fækkaði sífellt og samhliða stundaði Rose líkamsrækt og tók inn hægða- og þvaglosandi lyf. Hún er búin að missa rúmlega 20 kíló en hefur þurft að leita læknisaðstoðar út af ofþornun og steinefnaskorti. Hún segist halda því leyndu fyrir sérfræðilæknum sínum að hún sé að taka inn lyfið til að léttast. Sjúkratryggingar hennar eru hættar að niðurgreiða lyfið og þarf hún því að borga rúmlega 100 þúsund fyrir mánaðarskammtinn. Þegar læknirinn hennar hætti að skrifa upp á lyfið íhugaði hún að leita á svartan markað á netinu. Insider bendir á hversu hættulegt það er að versla svona lyf í gegnum netið enda ekkert sem tryggir að þau séu ófölsuð. Fjöldi einstaklinga um allan heim hefur þurft að leita læknisaðstoðar vegna falsaðra þyngdarstjórnunarlyfja.
Novo Nordisk, framleiðandi Ozempic, segir í yfirlýsingu til Insider að fyrirtækið leggi áherslu á að fræða lækna um hvernig þeir eigi að ávísa lyfjunum og til hverra. Átraskanir séu alvarlegur sjúkdómur en Novo Nordisk treystir heilbrigðisstarfsfólki til að meta þarfir sjúklinga sinna og ákveða hvaða lyf henta þeim.
Sálfræðingurinn Deb Burgard er sérfræðingur í átröskunum og er ekki hrifin af þyngdarstjórnunarlyfjum. Lyfin séu í raun að líkja eftir átröskun en eini munurinn sé að samkvæmt framleiðendum sé það réttlætanlegt þegar um feitt fólk er að ræða. Lyfið sé í raun að svelta líkamann án þess að fólk finni fyrir því, en líkamanum sé slétt sama hvort sveltið sé blessað af lækni eða ekki.
„Fyrir líkamann okkar er það algjör hörmung að vera sveltur, alveg sama af hverju það stafar“
Rose segist þó ekki af baki dottin. Hún veit að hún er að leika sér að eldinum en hún treystir sér ekki til að hætta. „Mér finnst ganga betur núna en oft áður en tilhugsunin um að þurfa að léttast eða að þurfa Ozampci mun aldrei fara.“
Independent hefur eins fjallað um tengsl þyngdarstjórnunarlyfja og átröskunar. Þar lýsti einn læknir því hvernig sjúklingar eru farnir að ljúga að honum um þyngd sína til að komast á lyfið. „Þeim finnst þau knúin til að léttast út af átröskunarhugsunum, þrátt fyrir að vera í heilbrigðri líkamsþyngd eða jafnvel of létt. Þeir vita að þetta er hættulegt en þau geta ekki hundsað hvað það er auðvelt að komast í þessi lyf.“
Sumir læknar eru þó að öðru máli og hafa bent á að mögulega verði hægt að ávísa þyngdarstjórnunarlyfjum til einstaklinga sem glíma við lotugræðgi.