Eiginmaður kvikmyndaframleiðandans og milljarðamæringsins David Geffen, David Armstrong, sakar Geffen um að hafa „groom-að“ sig og neytt Armstrong til að gangast undir fjölda fegrunaraðgerða, auk þess að greiða þúsundir dala fyrir vændiskaup. Kemur þetta fram í kröfu Armstrong vegna skilnaðar þeirra.
Armstrong, sem einnig gengur undir nafninu Donovan Michaels, heldur því fram að hann hafi kynnt Geffan á vefsíðunni SeekingArrangements.com. Vefsíðu sem Armstrong segir ríka menn líkt og Geffen nota til að „versla þá sem eru viðkvæmir“, samkvæmt dómsskjölum sem PageSix greinir frá.
Í skjölunum sem Armstrong lagði fram á þriðjudag, segir hann að Geffen hafi greitt honum 10.000 dali fyrir að stunda kynlíf fyrsta kvöldið sem þau hittust. Segir hann að eftir þetta kvöld hafi Geffen, sem neitar harðlega öllum ásökunum, byrjað að meðhöndla hann „eins og lifandi félagslega tilraun, verðlaunapening til að sýna ríkum vinum sínum, undir yfirskini góðvildar.“
„Þetta var sjúkur leikur. Michaels varð að leikmun í dyggðaleikhúsi Geffens, stillt upp sem sönnun fyrir meintri óeigingirni Geffens, en notaður í einkalífinu sem kynferðisleg vara,“ segir í málsókninni.
Armstrong, sem ólst upp í fósturforeldrakerfinu, heldur því fram að Geffen hafi að lokum játað ást sína á honum og sagt honum að samband þeirra væri einlægt og til framtíðar. Þeir giftu sig í mars árið 2023, án þess að undirrita kaupmála. Segir Armstrong að hann hafi haldið sig loksins hafa fundið einhvern sem léti sig varða áföll hans að alast upp sem fósturbarn. 50 ár skilja þá að, Armstrong er 32 ára, en Geffen 82 ára.
Armstrong heldur því fram í skilnaðarkröfu sinni að Geffen hafi notað nýtt sér sorgarsögu Armstrongs, ekki til að veita honum stuðning, heldur til að „grooma“ hann, þar sem Geffen spilaði sig sem bjargvætt hans, riddarinn á hvíta hestinum og leið Armstrongs til að öðlast nýtt og betra líf.“
Armstrong heldur því fram að hann hafi ferðast með Geffen um allan heim sem launaður kynlífsverkamaður, oft í einkasnekkju Geffen. Hann heldur því einnig fram að Geffen hafi oft ráðið kynlífsverkamenn, bæði karla og konur, á meðan þeir voru í kynferðislega opnu hjónabandi.
Að auki fullyrðir Armstrong að Geffen hafi gagnrýnt alla þætti útlits síns og haft stöðugt eftirlit með Armstrong hvað varðar líkamshirðu hans og útlit. Geffen hafi látið Armstrong gangast undir sársaukafullar leysimeðferðir og tannlækningar. Segir Armstrong að Geffen hafi útvegað honum fíkniefni, þar á meðal kókaíni og kannabis, og gert kröfur um að Armstrong umgengist þekkta A-lista vini Geffen. Armstrong segist hafa farið í meðferð til að verða edrú og fylgt 12-spora áætlun AA-samtakanna.
Armstrong segir að þegar hann hafi sagt Geffen að hann vildi sjálfstæði og skapa sér sjálfsmynd sem hann væri stoltur af hafi Geffen slitið sambandinu og krafist skilnaðar.
Geffen sótti um skilnað í maí og krafðist þess að Armstrong flytti þegar í stað út af heimili þeirra, með þeim afleiðingum að Armstrong varð í raun heimilislaus.
„Auk þess að vísa Michaels af heimili þeirra, þá afnam Geffen einnig fjárhagslegan stuðning sem Michaels hafði áður, sem gerði það ómögulegt fyrir hann að tryggja sér viðeigandi búsetu og sjá fyrir daglegum nauðsynjum sínum,“ segir í málsókn Armstrong.
Armstrong krefst skaðabóta, heimilis sem Geffen getur ekki krafist að fá til baka og „nægilegs fjárhagslegs stuðnings sem nauðsynlegur er til að greiða Armstrong sanngjarnan almennan framfærslukostnað það sem eftir er ævinnar.“
Lögmaður Geffen, Patty Glaser, neitaði ásökunum Armstrongs.
„Það var enginn samningur, skriflegur, munnlegur eða óbeinn,“ segir hún í yfirlýsingu til Page Six. „Við munum verjast kröftuglega þessari fölsku, aumkunarverðu málsókn.“