

Það er öllum hollt að líta í eigin barm. Það ákváðu félagarnir í samsæris-hlaðvarpinu Álhattinum að gera í sérstökum jólaþætti þar sem þeir beindu spjótunum að sínum eigin manni – Guðjóni Heiðari Valgarðssyni.
Guðjón er maður sem áður var bendlaður við stjórnleysingja og mótmæli. Undanfarin misseri hefur hann þó vakið athygli á hinum ýmsu samsæriskenningum og er nú frekar uppnefndur sem Trumpisti en anarkisti. Er eitthvað grunsamlegt við þennan viðsnúning? Er hann kannski sjálfur útsendari þeirra skuggaafla sem hann varar aðra við? Þessum spurningum er velt upp í þessum óvenjulega þætti.
Við gefum Álhöttum orðið:
„Guðjón Heiðar Valgarðsson, borgarstjóra Samsæríu og Álhatt allra álhatta, þarf vart sérstaka kynningu meðal áhugafólks um samsæri. Í hugum margra er hann orðinn eins konar samnefnari fyrir samsæri og opinber fulltrúi íslenskra samsærissinna. Maðurinn sem stendur á horninu með gjallarhornið í hendi og reynir að vara grunlausan almenning við öllu því skuggalega sem gerist bak við tjöldin.
Hann hefur talað um 11. september, Íraksstríðið, innrásina í Lýbíu, fall Gaddafis, peningakerfið, hlýnun jarðar, covid og óteljandi önnur hitamál sem flestir almennir borgarar kjósa algerlega að hundsa. Allt í nafni þess sem hann kallar réttlæti og sannleiksleit. Hann var meðal þeirra fyrstu hérlendis sem gagnrýndu samkomutakmarkanir og sóttvarnaraðgerðir í Covidinu. Hann var með Epstein-málið á vörunum áður en almenningur vissi hver sá maður yfir höfuð væri.
Hann stóð fremstur í broddi fylkingar í búsáhaldabyltingunni, beitti RÚV þrýstingi til að sýna Zeitgeist Addendum, sem þeir svo gerðu og kastaði snjóbolta í Jón Ásgeir eins og frægt er orðið. Sumum fannst hann táknmynd mótmælanda og anarkista. Aðrir sáu bara ruglaðan gaur með mikinn hávaða. Enn aðrir litu á hann sem athyglissjúkan trúð. Svo líður tíminn og eitthvað breytist. Sami maður og var áður flokkaður í hóp róttækra stjórnleysingja, þá frekar vinstra megin línunnar, sem barðist gegn NATO, nýfrjálshyggju og alþjóðlegum valdablokkum er í dag farinn að dásama Donald Trump og Miðflokkinn, auk þess sem hann kallar aðgerðir í loftslagsmálum plott leynilegrar valdaklíku til að ná heimsyfirráðum. Hvað gerðist eiginlega?
Er Guðjón einfaldlega enn eitt skólabókadæmið um gamla síendurtekna sögu, um ungan róttækan vinstri mann mann sem eldist, þroskast og mýkist í sumu, harðnar í öðru og færist hægt og rólega frá róttæku vinstri yfir í íhaldssamt hægri? Er það bara það að svokallaðar samsæriskenningar Trump og Miðflokksins eigi við rök að styðjast og hann sé ennþá, eins og áður bara í einlægri leit að sannleikanum, tilbúinn að standa upp fyrir málstöðum sem almenningur sér sem óvinsæla eða skammarlega? Eða er eitthvað mun vafasamara og óhugnanlegra í gangi?
Sumir álhattar hafa lengi spurt sig að því hvort Alex Jones sé í raun útsendari hulduaflanna. Trúður sem fær á einhvern undarlegan hátt endalausa athygli og pláss í fjölmiðlum og fær linnulaust að ræða tæpitungulaust um samsæri, en einhvern veginn á þann hátt að allt sem hann segir verði fáránlegt, öfgafullt og auðvelt að afskrifa. Stjórnuð andstaða sem ætlað er að afvegaleiða hina sannleiksleitandi og stýra þeim í enn annað box þar sem hulduöflin vilja hafa þann hóp.
Getur verið að Guðjón gegni svipuðu hlutverki hér á landi? Er hann kannski ekki borgarstjóri Samsæríu, heldur bæjarstjórinn á Psyopnesi? Maður sem nær trausti álhatta með því að tala þeirra máli í mörg ár en tekur svo harða afstöðu með núverandi valdastétt? Eða er sú pólitíska hreyfing sem nú hefur tekið völd í Bandaríkjunum og vex ásmegin í Evrópu, raunverulega andstaðan við þau öfl sem Guðjón hefur alla tíð barist á móti?
Ef Guðjón er strengjabrúða, hverjir toga þá í spottana? Var snjóboltaárásin á sínum tíma eitt stórt sjónarspil sviðsett fyrir fjölmiðla og Jón Ásgeir mögulega með í ráðum? Er djúpríkið að fjármagna Guðjón og halda honum uppi? Plötuiðnaðurinn? Meginstraumsmiðlarnir? Bankarnir? ESB, WHO og alþjóðlegar stofnanir? Eða snýst þetta bara um eigið egó, athyglisþörf og mikilmennskubrjálæði? Er einhver að stýra Guðjóni á bakvið tjöldin eða er hann sjálfur að spinna psyop á allt samfélagið með því að gera álhatta að samheiti yfir ruglumbull, tóma tjöru og vitleysu. Eða erum við einfaldlega að horfa á mann sem hefur alltaf verið eins og hinar meintu nýju skoðanir ekki kúvending heldur einfaldlega ný birtingarmynd eða önnur hlið á sama gamla peningnum?
Hvernig stendur á að fjölskylda hans eru öll að því er virðist á öndverðum meiði í pólitík? Alexandra Briem, pírati og trans kona sem er nú formaður borgarráðs er eldri systir hans. Viktor Orri Valgarðsson, doktor í stjórnmálafræði, fyrrum varaþingmaður pírata og annálaður and-álhattur, er yngri bróðir hans. Pabbi hans er Valgarður Guðjónsson, vissulega eitt sinn tengdur við anarkisma í gegnum pönkið og Fræbbblana en var síðar umsjónarmaður með kosningakerfi og hugbúnaði við útsendingar RÚV og Stöðvar 2 í sjónvarpsútsendingum Alþingiskosninga. Nú er hann einn háværasti andstæðingur Trump á Íslandi. Er öll fjölskyldan kannski bara ræktuð úr jarðvegi CIA með mótun samfélagsins í huga?
Í þessum þætti af Álhattinum velta þeir félagar Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór því upp hvort Guðjón sé raunverulegur Álhattur eða undirförull og útsmoginn leppur hulduaflanna (e.psyop). Hvort hann sé ósérhlífinn sannleiksleitandi, sem sannleiksleitin leiddi á þessar óvæntu slóðir eða hvort hann sé búinn að hafa okkur öll að háði og spotti, í einhverju stærra leikriti, þar sem hann gefur sig út fyrir að vera „borgarstjóri Samsæríu“ en handritið er í raun skrifað annars staðar á bak við tjöldin af Skuggavaldinu. Í þessum jólaþætti af Álhattinum eru hlustendur og álhattar skildir eftir með þá veigamiklu spurningu til að taka með sér inn í hátíðarnar. Hvort það geti verið að Guðjón Heiðar okkar sé raunverulega okkar maður í baráttunni gegn skuggavaldinu eða hugsjónalaus og skoðanalaus strengjabrúða þeirra? Þetta og svo margt margt fleira áhugavert, undarlegt og skemmtilegt í þessum nýjasta þætti af Álhattinum þar sem þeirri spurningu er velt fyrir sér hvort að Guðjón Heiðar sé í raun leiksoppur og leppur hulduaflanna (e.Psyop)“