Sjá einnig: Stóra eftirsjá Al Pacino – Diane Keaton var ástin í lífi hans
Keaton lést úr lungnabólgu laugardaginn 11. október síðastliðinn, 79 ára að aldri. Hún lék kærustu Pacino í trílógíunni Guðfaðirinn, The Godfather. Fyrsta kvikmyndin kom út árið 1972 en þau byrjuðu saman árið 1974. Þau hættu saman árið 1990 eftir að Keaton setti honum úrslitakosti og hann neitaði að skuldbinda sig og giftast.
Heimildarmaður Daily Mail sagði fyrr í vikunni að Pacino, 85 ára, sjái eftir ákvörðun sinni.
„Ég veit að hann mun alltaf sjá eftir því að hafa ekki gripið tækifærið þegar hann gat. Í mörg ár eftir sambandsslitin sagði hann: „Ef þessu er ætlað að verða þá er aldrei of seint að láta reyna á það.“ En því miður er það orðið of seint núna,“ sagði heimildarmaðurinn.
„Al viðurkennir að Diane var ástin í lífi hans, hann lýsti henni alltaf sem „ótrúlegri konu.““
Leikarinn hefur nú rofið þögnina um andlát Keaton.
„Ég er miður mína vegna fráfalls Diane Keaton,“ sagði hann við Deadline.
„Ég var í áfalli fyrst þegar ég heyrði fréttirnar. Diane var félagi minn, vinur minn, einhver sem færði mér hamingju og hafði, oftar en einu sinni, áhrif á hvaða stefnu líf mitt myndi taka. Þó það séu þrjátíu ár liðin síðan við vorum saman þá eru minningarnar skýrar og enn meira nú eftir að hún lést, það er bæði sársaukafullt og fallegt.“
Pacino fór fögrum orðum um Keaton og það sem hún gerði fyrir aðra. „Hún var ótrúleg og mögnuð,“ sagði hann.
„Ég mun aldrei gleyma henni. Hún gat flogið og hún mun alltaf gera það í hjarta mínu.“