„Hugmyndin kviknaði eiginlega bara út frá spurningunni – hvað myndi gerast ef einhver gengi inn í Héraðsdóm Reykjavíkur með afsagaða haglabyssu innan klæða og héldi dómsal fullum af fólki í heljargreipum. Út frá þessu fræi óx svo restin af bókinni,“
segir rithöfundurinn Kári Valtýsson um hvaðan hugmyndin að nýjustu bók hans Hyldýpi spratt.
Bókin hefst á slóðum og í aðstæðum sem líklega eru langflestum Íslendingum framandi nema með lestri fréttamiðla, á átakasvæðum Súdan.
„Ég hafði það fyrir stafni að fjalla um málefni sem hafa einmitt ratað í fréttir undanfarin ár. Glæpir á Íslandi hafa harðnað, skipulögð glæpastarfsemi er orðin staðreynd og svo hafa mörg brottvísanamál einnig ratað í fjölmiðla. Mig langaði að fjalla um þetta allt á einhvern spennandi hátt og lét þá aðalpersónuna Dögg vera lækni án landamæra í Súdan á árunum 2004-2005 þegar hryllilegar óeirðir ríktu þar í landi, líkt og raunar í dag. Mig langaði að tengja saman söguna í Súdan inn í samtímann á Íslandi og geri það í gegnum aðra söguþræði bókarinnar sem gerast í nútímanum.“
Hyldýpi er fjórða bók Kára, og sú fyrsta sem bókaforlagið Drápa gefur út. Útgáfuhóf var haldið nýlega og bókin náði á vinsældalista. Aðspurður um hvernig bókinni hafi verið tekið svarar Kári:
„Mjög vel. Það var fullt hús í útgáfuhófinu og svo hefur bókin verið á vinsældalista Eymundsson og er þar enn að mér skilst. Það er bara mjög ánægjulegt og ég get ekki annað en verið sáttur.“
Um söguþráð bókarinnar segir:
Dögg Marteinsdóttir er ungur læknir sem starfar hjá Læknum án landamæra í Súdan. Hún og Sarah, sem er ungur og frakkur læknir frá Brooklyn í New York, verða nánar vinkonur meðan þær takast á við hörmungarnar í flóttamannabúðunum þar sem þær starfa. Dögg fellir hug til yfirlæknis á svæðinu sem heitir Omar Mohammed. Dag einn fara Omar, Sarah og Dögg í sendiför til borgarinnar Nyala en sú för hefur hræðilegar afleiðingar í för með sér.
Kristján er nýbúinn að stofna eigin lögfræðistofu í Reykjavík en verkefnin láta á sér standa. Mitt í hringiðu afkomuótta og kvíðakasta fær hann í hendurnar tvö athyglisverð mál. Annars vegar mál fylgdarlauss barns frá Súdan og hins vegar líkamsárásarmál ungs Pólverja sem heitir Pawel Nowak en sá á vægast sagt vafasama fortíð.
Pawel á von á barni með ungri íslenskri kærustu. Eitt örlagaríkt kvöld eltir fortíð Pawels hann uppi og áður en hann veit af hafa meðlimir harðsvíraðra glæpasamtaka hann undir smásjánni. Uppgjör við fortíðina dregur dilk á eftir sér og Pawel dregst inn í atburðarás sem hann ræður engan veginn við.
Líf þessara þriggja ólíku einstaklinga eiga eftir að tvinnast saman. Með afdrifaríkum hætti.
Kári er fæddur árið 1985 og ólst upp í höfuðstað Norðurlands Akureyri, en hefur búið í Reykjavík síðan hann var tvítugur. Hann er giftur og eiga hjónin þrjú börn.
Kári er lögfræðingur að mennt og rekur eigin lögmannsstofu, en lögfræðin var þó ekki fyrsta val þegar kom að háskólanámi.
„Ég byrjaði í heimspeki eftir að ég lauk menntaskóla og var þar í eitt ár en fann mig ekki alveg í náminu. Námið var samt alveg áhugavert en ég sá ekki neinn vinkil á því hvernig ég ætti að vinna við þetta. Lögfræði hafði alltaf verið eitthvað sem blundaði í mér og því var það rökrétt næsta skref, að prófa það nám. Námið var ótrúlega áhugavert og það er öllum hollt að læra að þekkja beinagrind kerfisins sem við köllum samfélag, það er eiginlega lögfræði. Ég fann strax að mig langaði að vera lögmaður og vera í málflutningi. Fór því þá leið þar sem áhuginn var í þá áttina.“
Aðspurður um hvort starf lögmannsins sé gaman og gefandi, eða krefjandi, eða allt í bland, svarar Kári:
„Auðvitað eru hæðir og lægðir í þessu. En þegar maður finnur fyrir leiða í starfi eða hverju sem er raunar þá þarf bara að fara í naflaskoðun og kanna valkostina. Ég ákvað til dæmis að segja upp öruggu starfi og stofna lögmannsstofu sem ég hef nú rekið í tvö ár. Ég sé ekki eftir því. Fékk gleðina aftur fyrir starfinu og drifið sem var svolítið horfið. Þetta starf, lögmannsstarfið, er yfirleitt frekar gefandi. Þú ert raunverulega að aðstoða fólk í erfiðum aðstæðum og ert þeirra stoð og stytta þegar vindar blása. Það er mjög gefandi að sigla málum í góðan farveg og sjá umbjóðendur sjá úrlausn mála sinna. Það besta við er þegar erfið mál klárast á farsælan hátt.“
Og það erfiðasta?
„Lögmannsstarfið getur verið slítandi og málin stundum gengið nærri manni sé eðli þeirra þannig. Stundum koma vinnutarnir þar sem lítið annað en vinna kemst að. Það getur verið tollandi á fjölskylduna og mann sjálfan. Það er lykilatriði að reyna að skipuleggja sig vel en svo geta dómstólar hreinlega sett mál á dagskrá beint ofan í skipulagið og þá fer allt í köku. En þetta er auðvitað lúxusvandamál, það er verra ef ekkert er að gera.“
Rithöfundurinn blundaði einnig í Kára sem byrjaði fyrir löngu síðan að skrifa.
„Ég var að vinna á næturvöktum á sambýli á Akureyri og hafði lítið að gera yfir nóttina. Ég hef alltaf lesið mikið og datt þarna í hug í eitt skiptið að byrja bara að skrifa. Vita hvort ég gæti kannski skrifað bók. Og ég gat það. En hún var mjög léleg. Henti henni því án þess að nokkur læsi yfir. Svo skrifaði ég nokkrar í viðbót sem voru lélegar og enginn las. Eftir að hafa gert þetta ansi oft þá fóru skrifin að taka á sig sæmilega mynd og ég fór að þora að lofa öðrum að lesa yfir. Það endaði svo á því að fyrsta bókin mín kom út árið 2018.“
En hvernig fer ungur og/eða óþekktur rithöfundur að því að koma sér á framfæri?
„Það er erfitt að komast að hjá útgefanda. Eðlilega. Það er áhætta að gefa út bók. Kostnaður og vinna sem svo skilar sér kannski ekkert ef bókin selst ekki. Útgefendur eru því gjarnir á að hafna manni. Þannig var það hjá mér. Fékk fjöldann allan af neitunum þar til Hefnd, fyrsta bókin mín fékk útgáfu. Henni hafði meira að segja verið hafnað af nokkrum útgáfum en svo vildu tvær útgáfur gefa hana út. Seinni bókin, Heift, var framhald af Hefnd svo það var mun auðveldara að koma henni út. Þriðja bókin, Kverkatak var hins vegar eiginlega þyngst í vöfum. Sendi hana út um allt en án árangurs. Tók það sem ábendingu og endurskrifaði hana alla og þá gekk það upp. Nýjasta bókin, Hyldýpi var svo tiltölulega áfallalaus, sendi hana á Drápu og þau spáðu aðeins í þetta en stukku svo til.“
Hefnd kom út árið 2018, Heift árið 2019 og Kverkatak árið 2022. Og eins áður sagði, Hyldýpi sú nýjasta nýkomin út. Bækurnar eru orðnar fjórar á átta árum og sú fimmta komin af stað.
„Já, er byrjaður á næstu. Alltaf eitthvað í gangi.“
En hvaðan koma hugmyndirnar?
„Hugmyndirnar koma bara. Það er erfitt að útskýra það. Oft er þetta spurning um að segja hvað ef… og vinna með það. Ég reyni yfirleitt að hafa það þannig að venjulegt fólk lendir í óvenjulegum eða jafnvel hryllilegum aðstæðum og finna svo út úr því hvernig það leysist.“
Fyrir einstakling í fullri vinnu með fjölskyldu er mögulega erfitt að finna tíma og koma sér að verki við bókaskrif, en Kári er með ákveðið vinnulag:
„Ég er iðulega með einhvers konar beinagrind eða „blueprint“ af bók sem ég fylgi að einhverju leyti en hef það fyrir reglu að ef einhver persóna í bókinni kemur mér á óvart eða einhver atburður sem ég skrifa kemur á óvart, og er ekki í flúkti við beinagrindina, þá elti ég slíkar hugmyndir. Ef ég get komið mér á óvart við skrifin þá kem ég lesandanum á óvart. Beinagrindin er því eiginlega bara til viðmiðunar en alls ekki eitthvað sem ég fylgi og raunar breytist bókin mjög mikið frá upphaflegri hugmynd meðan á skrifum stendur. Svo endurskrifa ég alltaf fyrsta uppkast algjörlega og svo aftur og aftur þar til þetta er orðið gott.“
Má segja að vinnulagið endurspeglist í kostum og göllum Kára sem hann er beðinn að lýsa:
„Kosturinn er að ég er mjög ákveðinn og fylginn sjálfum mér… gallinn er eiginlega það sama og kosturinn…Þetta getur unnið gegn manni.“
Aðspurður um hvort bókaskrifin sé í blóðinu neitar Kári. „Nei engir ættingjar sem eru rithöfundar, en nokkrir í kringum mann, vinir og kunningjar sem eru vissulega rithöfundar. Atli Sigþórsson (Kött grá Pjé) og Skúli Sigurðsson.“ Má nefna að Drápa gefur einnig út bækur Skúla.
Það mætti ætla að Kári hefði næg verkefni til að fylla dagana, en áhugamálin eru mörg.
„Skrifa, lesa, spila á gítar, langhlaup og samvera með vinum og fjölskyldu.“
Kári les mikið og segja það haldast í hendur við rithöfundastarfið.
„Ég held að tvær grunnstoðir þess að vera rithöfundur sé að skrifa mikið og lesa mikið. Þetta er raunar mantra sem Stephen King orðaði í bók sinni On Writing. Ég reyni því að lesa eins mikið og ég get en viðurkenni það að rekstur lögmannsstofu og mín eigin skrif þvælast svolítið fyrir þessu. En jú, ég les alltaf eitthvað.
Ég reyni að lesa sem mest úrval af bókum, allt frá ævisögum til hrollvekjubókmennta. Hef samt mest gaman af spennubókum. Uppáháldsbækurnar eru mýmargar en ef ég þarf að velja nokkrar myndi ég nefna The Shining eftir Stephen King, Síðasta freisting Krists eftir Nikos Kazantzakis, Meistarinn og Margaríta eftir Mikhail Bulgakov og svo finnst mér Jussi Adler Olsen skrifa rosalegar spennusögur.“