Þór Guðnason einkaþjálfari og yogakennari segist ítrekað sjá kraftaverk gerast hjá fólki eftir athafnir með plöntur og hugvíkkandi efni. Þór, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist hafa farið um allan heim til að laga sjálfan sig eftir áraraðir af vanlíðan. Eftir að hann fann raunverulegt frelsi segist honum stundum líða eins og hann lifi í ævintýri. Stærsta viðurkenningin sé samþykki fjölskyldunnar á því sem hann gerir:
,,Fjölskyldan mín hefur verið að stíga inn í minn heim, sem er stærsta viðurkenning sem ég get fengið fyrir það sem ég er að gera. Mér fannst ég lengi vera svarti sauðurinn í fjölskyldunni og leið lengi eins og ég væri Palli einn í heiminum og að ég væri stórskrytinn. En núna hefur fjölskyldan verið að stíga hægt og rólega inn í minn heim og þiggja aðstoð frá mér. Ég hef auðvitað þekkt þetta fólk lengi og finnst frábært að sjá þau taka þessi skref. Ég upplifi mikla vitundarvakningu í fjölskyldunni minni og í raun gæti ég ekki fengið meiri viðurkenningu en að fólkið næst mér sé að leita ráða hjá mér og þiggja aðstoð. Það er eitt að fá fólk sem maður er að hitta í fyrsta sinn í athafnir, en að sjá fólk sem maður hefur þekkt alla ævi taka þessi skref finnst mér stórkostlegt og mér finnst ég stundum lifa í ævintýri. Ég fæ að ferðast um allan heim til að vinna með fólki og svo fæ ég líka að ferðast í aðrar víddir og það eru stórkostlegir hlutir að gerast.“
Þór segist hafa farið í gegnum löng tímabil af mikilli vanlíðan, erfiðleikum og skömm og á þeim tímabilum hafi verið erfitt að vinna við að aðstoða annað fólk á saman tíma:
„Ég hef unnið við að hjálpa fólki við að bæta heilsu sína í meira en þrjátíu ár og sótt mér þekkingu um allan heim. Það væri beinlínis rangt af mér að halda því leyndu hvað hefur hjálpað mér sjálfum einna mest. Ég þekki það sjálfur að þjást langtímum saman og skammast mín fyrir mína eigin vanlíðan, ekki síst af því að ég var sjálfur sérfræðingur í heilsu. Ég hef farið um allan heim til að reyna að laga sjálfan mig, komast að kjarnanum og finna gleði og hamingju. Ég fór í Himalayja fjöllin, frumskógana í Perú, til Indlands, í kuldameðferðir með Wim Hof og svo framvegis og framvegis. En þrátt fyrir alla þessa leit upplifði ég samt tímabil af miklu þunglyndi og þjáningu. Auðvitað skilaði öll þessi vinna miklu, en ég þurfti einfaldlega öflugri verkfæri og í mínu tilviki voru það hugvíkkandi efni og plöntukennarar. Á endanum komst ég að því að ég hafði allan þennan tíma verið að reyna að endurheimta sjálfan mig og ná að losna undan alls kyns áföllum. Ég var með mikið af sárum á sálinni, gömul áföll og fleira, sem ég hef loksins náð að sjá almennilega og fengið tækifæri til að laga sjálfan mig. Ég er loksins búinn að upplifa alvöru frelsi.“
Þór þurfti að hugsa sig vandlega um áður en hann ákvað að tala opinskátt um þessi mál á opinberum vettvangi:
,,Ég vil og ætla að taka fulla ábyrgð á því sem ég geri og vil ekki fela það. Ég vil bera ábyrgð á öllu sem hefur átt sér stað í mínu lífi og ef eitthvað hefði verið öðruvísi sæti ég ekki í þessum stól. Ég er kominn á þann stað núna að ég verð að vera heill í öllu því sem ég geri. Ef einhver vill loka mig inni fyrir að tala um þetta opinberlega verður það bara að vera þannig. Staðan er einfaldlega sú að það er fólk í öllum stéttum samfélagsins að nota plöntur og hugvíkkandi efni og við þurfum að geta rætt þessa hluti opinskátt og af fullri alvöru. Ég er ekki endilega hlynntur lögleiðingu á þessum efnum, en það verður að afglæpavæða þessi efni. Fólk hlýtur að mega velja það sjálft hvort það notar plöntur og efni úr nátturunni til að laga sig eða lyf frá lyfjafyrirtækjum og það kemur ríkisstjórninni í raun akkúrat ekkert við. Það eru í raun mannréttindi að fá að velja þessa hluti sjálfur án þess að ríkið sé að skipta sér af því,“ segir Þór, sem tekur það skýrt fram að hann beri mikla virðingu fyrir heilbrigisstarfsfólki, en það vinni inni í kerfi sem oft á tíðum hefur mjög takmarkaðar lausnir:
,,Ég veit að heilbrigðisstarfsfólkið okkar er upp til hópa frábært fólk sem er allt af vilja gert, en kerfið er úr sér gengið og býður oft ekki upp á neinar alvöru lausnir. Ég hef ekki tölu á öllu því fólki sem hefur komið til mín að biðja um hjálp af því að það fann engar lausnir inni í kerfinu. Það eina sem var í boði voru bara lyf og meiri lyf og mjög margir eru búnir að fá algjörlega nóg af þessu. Fólk er ekki að fá þá þjónustu sem það taldi sig eiga að fá eftir að hafa borgað hér skatta í áraraðir.“
Þór undirstrikar í þættinum þá einlægu skoðun sína að það þurfi að líta þessi efni alvarlegum augum og meðhöndla þau af virðingu:
,,Þetta eru gríðarlega öflug hjálpartæki sem fólk um allan heim hefur notað í árþúsundir til að tengjast náttúrunni og sjálfu sér, en við verðum að nálgast þau af mikilli virðingu. Það segir sig eiginlega sjálft að það þarf að gera þetta í algjörlega réttum aðstæðum undir réttri handleiðslu. Ég mæli ekki með þessu fyrir neinn, nema fólk sé búið að kynna sér málið mjög vel og viti hvað það er að gera. En fyrir mér er það hreinlega siðferðislega rétt að hjálpa fólki að tengjast náttúrunni aftur og þess vegna tala ég um þetta opinskátt, þó að mörg af þessum efnum séu ennþá ólögleg.“
Hægt er að nálgast viðtalið við Þór og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is