Tónlistarmaðurinn Dr. Gunni, Gunnar Lárus Hjálmarsson, segir að andúð Gylfa Ægissonar heitins á samkynhneigðum hafi komið honum í opna skjöldu þegar Gylfi hóf þá umræðu, sérstaklega í ljósi þess að hann hafi áður tjáð honum að hann hefði lúskrað á mönnum sem öbbuðust upp á samkynhneigða vini hans.
Gunnar rifjar upp að hann hafi orðið að aflýsa samstarfi við Gylfa vegna það hefði „brostið á með hinu undarlegasta hommahatursrugli í Gylfa og ég sá ekki annað í stöðunni en að skipta Gylfa út fyrir Sóla Hólm að herma eftir Gylfa.“
Gunnar kveður Gylfa með hlýjum orðum en pistillinn er eftirfarandi:
„Gylfi Ægisson hefur nú safnast til feðra sinna. Held að leiðir okkar hafi fyrst legið saman þegar ég keypti mynd af honum 2008. Það brall kom í Séð og heyrt. Tók viðtal við hann fyrir Fréttablaðið skömmu síðar og hann greindi frá uppruna meistaraverksins Í sól og sumaryl. Þegar ég sá hann á förnum vegi kveiknaði hjá nér lagið Brjálað stuðlag sem ég fékk hann til að syngja með valinkunnum hópi poppara. Áður en lagið kom út á plötu hafði brostið á með hinu undarlegasta hommahatursrugli í Gylfa og ég sá ekki annað í stöðunni en að skipta Gylfa út fyrir Sóla Hólm að herma eftir Gylfa. Sá fyrir mér hrap í væntanlegri plötusölu að sleppa Gylfa lausum. Eitthvað fjölmiðlahavarí varð af þessu og hápunkturinn náttúrlega þegar Hraðfréttamenn og Gylfi mættu til mín og úr varð fyndið skets sen ég finn ekki á Youtube. Þar er hins vegar lagið með Gylfa í fyrsta kommenti.
Það var mjög hressandi að hitta Gylfa. Alltaf sprell og sögur. Man að hann talaði oft um að hafa buffað þennan eða hinn og oft einhverja svola sem voru að abbast upp á samkynhneigða vini hans. Þess vegna kom þetta raus um hommaheilaþvott og typpasleikjóa svo á óvart þegar það byrjaði. Held að meistarinn hafi bara eitthvað verið að misskilja samtímann.
Hvíl í friði góði karl.“