Bresk kona hefur vakið mikla athygli og skipt netverjum í tvær fylkingar eftir að hún sýndi „sniðuga“ aðferð til að hafa sem mestan ávinning af morgunverðarhlaðborðum á hótelum erlendis.
Nicola Lewis, skipulagsráðgjafi og áhrifavaldur frá Essex á Englandi, deilir reglulega ferðaráðum og sparnaðarbrögðum með rúmlega 210 þúsund fylgjendum sínum á Instagram-síðunni.
Í myndbandi sem hún birti á dögunum sýndi hún hvernig ferðalangar í „all-inclusive“ eða hálfu fæði geta útbúið sér hádegisverð beint af hlaðborðinu á morgnana – án þess að borga aukalega. Nicola útskýrði hvernig hún pakkar samlokum og snarli í lítil box eða plastpoka áður en hún yfirgefur morgunverðarsalinn.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Sumir fögnuðu hugmyndinni og sögðu hana skynsama og praktíska, sérstaklega fyrir fjölskyldur sem vilja spara. Aðrir kölluðu hana ósiðlega og sögðu þetta brjóta gegn reglum flestra hótela, þar sem morgunverðurinn væri aðeins ætlaður til neyslu á staðnum.
Nicola hefur svarað gagnrýninni með því að benda á að flestir hótelgestir borði hvort sem er ekki allan matinn sem boðið er upp á, og þetta sé einfaldlega leið til að draga úr matarsóun og kostnaði.
Sitt sýnist hins vegar hverjum en myndbandið hefur hlotið mikla dreifingu.
View this post on Instagram