Ungfrú Ísland TEEN fer fram í fyrsta sinn þann 21. október í Gamla Bíó. Viðburðurinn er fyrir stúlkur á aldrinum 16 til 19 ára sem vilja efla sig, öðlast aukið sjálfstraust og kynnast öðrum metnaðarfullum og skapandi jafnöldrum í uppbyggilegu og nærandi umhverfi.
Keppnin er hugsuð sem styrkjandi og valdeflandi upplifun þar sem áhersla er lögð á sjálfstraust, tjáningu og samstöðu kvenna. Keppendur fá einnig að taka þátt í ýmsum spennandi verkefnum, eins og myndatökum, viðtölum og viðburðum.
Ólíkt keppninni Ungfrú Ísland verður ekkert sundfataatriði í Ungfrú Ísland TEEN. Þess í stað stíga stúlkurnar á svið í fatnaði frá íslenska tískumerkinu Define The Line, úr smiðju Línu Birgittu Sigurðardóttur, sem hefur verið áberandi í íslensku tískusenunni undanfarin ár.
„Við höfum lengi unnið að því að þróa keppnisform sem endurspeglar þá sýn sem við höfum fyrir Ungfrú Ísland í dag – og Ungfrú Ísland TEEN er eðlilegt framhald,“ segir Manuela Ósk Harðardóttir, framkvæmdastjóri Ungfrú Ísland.
„Við viljum sjá framtíðarleiðtoga, konur sem hafa sýn, raddir sem þora að heyrast og hugrekki til að vera þær sjálfar. Við viljum líka gefa ungum konum tækifæri á að fara í gegnum þetta þroskandi ferli, þróa samskiptahæfni og framkomu og öðlast dýrmæta reynslu sem nýtist þeim langt út fyrir viðburðinn sjálfan.“
Skipuleggjendur leggja mikla áherslu á að bjóða upp á jákvæð tækifæri fyrir ungar konur á mótunarárum. „Aldurinn 16-19 ára er oft tími þar sem sjálfsmyndin er að mótast og framtíðin að taka á sig mynd. Það skiptir gríðarlega miklu máli að grípa þær á þessum tímapunkti og gefa þeim rými til að öðlast trú á eigin styrk og getu,“ segir Manuela Ósk.
Aðstoðarframkvæmdastjóri keppninnar, Elísa Gróa Steinþórsdóttir, tekur undir þessi orð og bætir við: „Við viljum skapa samfélag þar sem ungar stelpur geta verið þær sjálfar, lært af hvor annarri og fundið styrk og stuðning. Keppnin snýst um margt fleira en sviðsframkomu – það er lögð rík áhersla á samskipti, sjálfsmynd, samfélagslega ábyrgð og framtíðarsýn.”
„Þetta á fyrst og fremst að vera skemmtileg og gefandi reynsla,“ segir Elísa Gróa. „Það er mikilvægt að öllum líði vel, og upplifi að þær hafi eitthvað einstakt fram að færa
„Þetta er frábær leið fyrir ungar stelpur að koma út úr skelinni, prófa eitthvað nýtt og byggja upp sjálfstraust,“ segir Ísabella Þorvaldsdóttir, sýningarstjóri verkefnisins. „Við leggjum mikla áherslu á að þetta sé bæði öruggt og skemmtilegt – það er lykilatriði.“
Helena O’Connor, Ungfrú Ísland 2025, segist hlakka mikið til að fá „litla systur“ í hópinn. „Ég man hvað það skipti mig miklu máli að finna stuðning og systraþel innan Ungfrú Ísland. Nú fáum við tækifæri til að styðja við ungar stelpur í upphafi síns ferils. Ég hlakka ótrúlega til að sjá þær vaxa og blómstra – og vonandi gefa þeim það sama og ég fékk.“
Umsóknarfrestur rennur út 10. júlí
Stúlkur á aldrinum 16–19 ára geta nú sent inn umsókn um þátttöku á heimasíðu Ungfrú Ísland. Umsóknarfrestur er til og með 10.júlí 2025, og verður valið úr hópi umsækjenda í lokakeppnina sem fram fer í Gamla Bíó 21. október.
Keppnin er haldin með stuðningi íslenskra fyrirtækja og fagfólks sem hefur það að markmiði að efla ungar konur á ábyrgan og hvetjandi hátt.