Ljóðskáldið og söngkonan Hlín Leifsdóttir hefur undanfarin ár gert það gott í Grikklandi. Er þess skemmst að minnast er hún söng á afmælishátíð UNESCO til heiðurs söngkonunni Maria Callas.
Að undanförnu hafa staðið yfir hátíðahöld í Grikklandi í tengslum við 200 ára afmæli sjálfstæðis Grikkja, en 25. mars er þjóðhátíðardagur Grikkja. Árið 2022 var 200 ára afmælis sjálfstæðisyfirlýsingarinnar minnst, en sjálfstæðisferlið tók mörg ár og miklar blóðsúthellingar. Einn af þekktustu baráttumönnum fyrir sjálfstæði Grikkja er enska skáldið Byron lávarður, en Byron barðist fyrir Grikki og lét lífið í Grikklandi árið 1824.
Nú minnast Grikkir 200 ára ártíðar Byrons lávarðar og leiðtogans Markos Botsaris, sem lést í bardaga við Tyrki um svipað leyti. Listahátið með fjölmörgum listamönnum frá ýmsum héruðum Grikklands hefur staðið yfir undanfarið en Hlín opnaði hátíðina með einsöng, er hún flutti lag sem var samið til heiðurs Byron. Lagið er eftir gríska tónskáldið Panagiotis Karousos við gríska þýðingu ástarljóðsins Maid of Athens, sem Byron samdi til grískrar unnustu sinnar og grísku þjóðarinnar.
Hlín var eini erlendi listamaðurinn sem kom fram á hátíðinni.
Hlín hefur að undanförnu sungið einsöng opinberlega í Grikklandi, við mjög góðar undirtektir. Hún hefur sungið við ýmis tækifæri, meðal annars fyrir UNESCO í tengslum við alþjóða kvennadaginn, 8. mars.