Í þættinum fara þau hjónin um víðan völl en óhætt er að segja að margt hafi drifið á daga þeirra á undanförnum árum og áratugum raunar. Auk þess að stofna World Class áttu þau Ingólfskaffi og Þjóðleikhúskjallarann um nokkuð langt skeið.
Á meðan Dísa sinnti börnunum fór Bjössi úr World Class klukkan sjö á kvöldin og á skemmtistaðina þar sem hann vann til lokunar. „Þetta var gríðarleg vinna,“ segir hann meðal annars.
Björn fer ekki í grafgötur með það að bankahrunið hafi verið erfiðasti kaflinn á hans ferli.
„Við keyptum þrettán stöðvar í Danmörku en áttum reyndar bara 24,5 prósent á móti fyrrverandi félaga mínum í Straumi,“ segir hann og heldur áfram: „Síðan fór þetta allt til helvítis í hruninu og hefði sennilega ekki einu sinni þurft hrunið til.“
Björn segir að þau hjónin hafi verið búin að ræða það að flytja úr landi ef allt færi á versta veg. Þá hafi fjölmiðlaumfjöllun reynst erfið en mikið var fjallað um riftunarmál sem þrotabú Þreks ehf. höfðaði á sínum tíma.
Guðmundur Birkir Pálmason, Gummi Kíró, spurði Björn hvaða áhrif öll þessi mál hefðu haft á hann og hvort hann hafi misst svefn einhverju sinni. Björn svaraði því hreinskilnislega:
„Í sex mánuði á meðan versti kaflinn var – ég veit að Dísa er ekkert hrifin af því að ég segi þetta – þá svaf ég ekki án þess að drekka hálfan lítra af vodka eða taka svefntöflur. Í sex mánuði.“
Björn reyndi alltaf að bera höfuðið hátt.
„Svo þurfti maður að taka Dagblaðið og vera á forsíðunni þar út af einhverjum dómsmálum sem skiptastjóri höfðaði gegn okkur – og tapaði reyndar öllum. Svo þurfti maður að mæta niður í stöð. Ég hugsaði alltaf það sama: „Upp með kassann og hökuna.“ – Ég lét aldrei á neinu bera.“
Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan: