fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Tímavélin: Fastur í átta klukkutíma í strompi á Kaplaskjólsvegi – „Ég er ekki meiddur en mér líður illa“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 1. janúar 2024 17:00

Pilturinn var furðurólegur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að festast í þröngu rými klukkutímum saman í óþægilegri stellingu er ótti sem margir hafa. Það er nákvæmlega það sem gerðist fyrir tvítugan Reykvíking undir lok árs 1977. Betur fór en á horfðist þegar pilturinn féll niður um stromp og sat þar með hendur fastar yfir höfuð í nærri átta klukkutíma.

„Við heyrðum einhvern hrópa á hjálp en vissum ekki hvaðan hrópin komu,“ sagði Guðrún Eggertsdóttir, íbúi að Kaplaskjólsvegi 63 í Vesturbæ Reykjavíkur við blaðamann Dagblaðsins þann 27. desember árið 1977.

Ónefndur tvítugur piltur hafði þá fallið niður um strompinn um nóttina og sat fastur inni í veggnum. Fallið var fjórar hæðir, eða nærri 10 metrar.

Guðrún og Helga heyrðu ópin. Dagblaðið 28. desember 1977.

Guðrún og önnur kona, Helga Óskarsdóttir, gerðu lögreglunni viðvart um piltinn klukkan 13:40. Björgunaraðgerðir voru að hefjast þegar blaðamaður og ljósmyndari Dagblaðsins mættu á svæðið.

Alveg pikkfastur

„Ég er búinn að vera hérna síðan á annan í jólum,“ sagði pilturinn við blaðamanninn. Hann var blessunarlega ómeiddur en dasaður af loftleysi. Sögðu lögreglumenn piltinn sýna furðulega rósemi.

Dagblaðið 28. desember 1977

Innanmál strompsins var aðeins 25 sinnum 26 sentimetrar. Var pilturinn því klemmdur með hendur fyrir ofan höfuðið, algerlega pikkfastur.

„Ég er ekki meiddur en mér líður illa, það er svo lítið loft hérna. Eru þeir ekki að koma með loft?“ spurði pilturinn. Var honum þá bannað að tala meira til þess að ganga ekki á loftbyrgðirnar. Súrefni var svo dælt inn um sótlúguna að neðanverðu.

Boruðu gat

Eina leiðin til að koma piltinum út úr strompinum var að bora gat á veginn og ná honum út um það. Fengnir voru menn frá Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar með höggbora og svo var fundinn staðurinn þar sem pilturinn hlyti að vera.

Það reyndist rétt. Strax við fyrstu borun kom bak piltsins í ljós. Urðu iðnaðarmennirnir að fara mjög varlega til þess að bora ekki í piltinn eða valda honum neinum skaða. Járnabindingar töfðu fyrir boruninni en hún gekk þó glettilega vel. Járnin voru klippt í sundur. Alls tók um einn klukkutíma að bora nægilega stórt gat til þess að hægt væri að koma piltinum út.

Ætlaði inn um þakglugga

Var pilturinn loks dreginn út um gatið og þótti furðulega hress þrátt fyrir reynsluna. Fékk hann fyrst vatn að drekka og var svo fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús til aðhlynningar.

Pilturinn, sem var ekki íbúi í húsinu, hafði verið að drekka áfengi nóttina áður. Prílaði hann upp á þak í gegnum þakglugga og ætlaði niður um annan glugga. Strompurinn stóð í um metershæð á þakinu og náði hann einhvern veginn að falla niður um hann.

Ekki einsdæmi

Merkilegt nokk þá er þetta ekki í eina skiptið sem Íslendingur hefur fallið niður um stromp. Í mars árið 2003 greindi Morgunblaðið frá því að ungur Reykvíkingur hefði fallið ofan í stromp á heimili sínu við Laugaveg klukkan 7 um morguninn og setið fastur á 4 til 5 metra dýpi.

Hann hafði týnt húslyklinum ætlaði að nota strompinn sem inngönguleið. Hann sat fastur og orgaði á hjálp.

Björgunin tók klukkutíma. Dagblaðið 28. desember 1977

„Ég var far­inn að missa mátt í hönd­un­um og mátti ekki miklu muna með björg­un­ina,“ sagði pilturinn.

Nágranni heyrði ópin og gerði lögreglu viðvart. Í þetta skipti gátu slökkviliðsmenn togað piltinn upp um strompinn með kaðallykkju undir handarkrikana.

„Eng­inn vissi af mér þarna og ég vissi ekki hvernig þetta myndi enda. Ég var al­veg eins og litli sót­ar­inn þegar mér var bjargað upp, í rif­inni skyrtu og sótsvört­um galla­bux­um. Augu, nef og munn­ur voru full af sóti og ég var bika­svart­ur,“ sagði pilturinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta