fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Draumar morgundagsins nóg fyrir mig

Fókus
Laugardaginn 1. apríl 2023 11:30

Hjörtur Jóhann Jónsson Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjörtur Jóhann Jónsson fer með aðalhlutverk í íslensku hryllingsmyndinni Óráð sem frumsýnd var í gær. Hjörtur áttaði sig seint á því að hann ætlaði að verða leikari en elskar vinnuna sína sem hann ræðir hér af einlægni ásamt lífinu og tilverunni í viðtali við Birnu Dröfn Jónasdóttur.

„Ég ætlaði aldrei að verða leikari, mér datt það ekki í hug,“ segir leikarinn Hjörtur Jóhann Jónsson sem fer með aðalhlutverki í kvikmyndinni Óráð sem frumsýnd var í gær.

„Mamma mín og pabbi eru bæði leikarar og allir í kringum mig eru í listum en foreldrar mínir voru alls ekki að ýta mér út í þetta, það var frekar í hina áttina. Þau sögðu mér að ef ég hefði ástríðu fyrir og elskaði eitthvað annað þá ætti ég að einbeita mér að því,“ segir hann og brosir.

Hjörtur ólst upp í Vesturbænum og var í leikfélaginu Ofleik þegar hann gekk í Hagaskóla, svo fór hann í leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð en áttaði sig ekki á því að hann vildi verða leikari fyrr en hann tók þátt í Stúdentaleikhúsinu. Síðan hefur hann leikið í um 700 leiksýningum og fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta.

„Mér fannst alltaf alveg ótrúlega gaman að leika þegar ég var yngri en ég sá þetta aldrei fyrir mér sem það fag sem ég myndi starfa við,“ segir hann. „Ég fór í heimspeki í Háskólanum en fannst eiginleg skemmtilegra að ræða heimspeki á kaffistofunni en að mæta í tímana svo ég skráði mig landfræði þar sem ég hafði svo mikinn áhuga á útivist og fjallgöngum. En svo fannst mér það svo leiðinlegt líka að ég fór aftur í heimspeki,“ bætir Hjörtur við og hlær.

Þegar Hjörtur fór í Stúdentaleikhúsið segist hann hafa fundið einhverja nýja tengingu við leiklistina. „Þarna var þetta á öðru „leveli“ en ég var vanur og ég gat notað heimspekina og margt annað sem ég kunni og þekkti í leiklistina,“ segir Hjörtur.

Í Stúdentaleikhúsinu kynntist svo Hjörtur Kolbeini Arnbjörnssyni leikara og saman ákváðu þeir að sækja um í leiklistarskólann. „Við fórum í hálfgert leiklistar „bootcamp. Það var sund á hverjum morgni og svo æfðum við mónóloga og alls konar leikrit allan daginn. Þetta skilaði sér og við komumst báðir inn.“

Hjörtur Jóhann Jónsson
Mynd: Anton Brink

Árin í Hagaskóla

Á þeim tíma sem Hjörtur var að alast upp í Vesturbænum var mikil ókyrrð í Hagaskóla og erfitt var að halda aga í skólanum. Unglingar mættu með sprengur í skólann og svo fór að lögregla þurfti að hafa eftirlit með nemendum. Hjörtur tók ekki þátt í óaganum en segir að á meðan á ástandinu stóð hafi hann ekki átta sig á alvarleika þess. „Manni fannst þetta bara eitthvað flipp en þegar ég hugsa til baka þá er þetta grafalvarlegt mál. Þetta eru 13, 14 og 15 ára krakkar að fara með sprengjur í skólann, það er galið,“ segir hann.

„Það var svo margt í gangi á þessum tíma og þetta var mjög harður heimur fyrir marga. Ég var bara svona mitt á milli hópa. Ekki mjög kúl og ekki heldur alveg neðstur í goggunarröðinni svo ég held að ég hafi haft það ágætt þarna,“ segir Hjörtur en rifjar þó upp sögu þegar það átti að berja hann í skólanum.

„Ég tók aldrei þátt í slagsmálum eða neinu svoleiðis en þetta var í alvörunni af því að ég hafði keypt mér rauðann FUBU galla og strákur í tíunda bekk átti alveg eins galla. Hann varð alveg brjálaður og það spurðist út að hann ætlaði að berja mig. Ég var skíthræddur en svo sagði einhver honum að Helga Braga væri systir mín og þá hætti hann við. Svo hún bjargaði mér þarna,“ segir Hjörtur en leikkonan Helga Braga Jónsdóttir er systir hans.

„Svo var það einhvern veginn þannig á þessum tíma að maður var ekkert að segja frá eða ræða neitt, ég held að ég hafi ekki einu sinni sagt henni frá þessu fyrr en löngu seinna,“ segir hann.

„Ég var einmitt að rifja það upp um daginn að þegar ég var lítill, þá lenti ég í einelti í skólanum. Það var vægt miðað við það hvernig einelti getur verið en það var alveg ömurlegt og ég sagði ekki einu sinni mömmu minni og pabba frá því, þau komu af fjöllum þegar þau komust að þessu.“

Hjörtur á þriggja ára dóttur og sjö ára son og segist hann segir leggja sig allan fram við að kenna þeim að tjá tilfinningar sínar og segja frá. „Það getur bara valdið kvíða og ýmsum vandræðum ef maður tjáir sig ekki,“ segir hann.

Hefur þú glímt við kvíða eftir þetta?

„Nei ég hef í rauninni aldrei gert það og tel það mikla blessum þar sem kvíði er svo algengur. Ég hef oft upplifað eðlilegan kvíða og ég hef einu sinni upplifað það að fá óeðlilegan kvíða, það var hræðileg tilfinning. Kvíði er mjög algengur en hann er læknanlegur og það er mikilvægt að muna það. Svo er alveg eðlilegt að verða kvíðinn en ekki að vera kvíðinn. “ segir Hjörtur.

Brynja Björnsdóttir, eiginkona Hjartar greindist með Ms-sjúkdóminn og við greininguna segist Hjörtur hafa fundið fyrir miklum og óeðlilegum kvíða. „Ég missti alveg stjórn á rökhugsuninni og fékk kvíða gagnvart allskonar öðrum hlutum. Kvíðinn greip bara í eitthvað, ég fékk það til dæmis á heilann eftir að ég hafði séð umfjöllun um dreng sem var að kljást við erfiðan sjúkdóm og að sonur minn væri með þennan sjúkdóm, ég bara gat ekki hætt að hugsa það.
Ég hélt að ég væri ónýtur, að það væri komið eitthvað skarð í múrinn af því að ég hafði aldrei verið með kvíða. En svo fattaði ég að þetta væri ekki eðlilegt og að ég þyrfti aðstoð og ég fékk hana og þetta varð í lagi. En ég fann að ég gat ekki gert þetta einn, ég fékk aðstoð til að vinda ofan af þessu.“

Hjörtur Jóhann Jónsson
Mynd: Anton Brink

Fjórar frumsýningar

Þegar við Hjörtur hittumst á kaffihúsi voru þrír dagar í frumsýningu Óráðs. Þrátt fyrir að stutt sé liði á árið var það fjórða frumsýning Hjartar á árinu. „Þetta er búið að vera ótrúlega mikið og ótrúlega gaman,“ segir Hjörtur sem einnig fór með aðalhlutverk í Macbeth í Borgarleikhúsinu, hlutverk Runólfs í Napóleonskjölunum ásamt hlutverki í frönsku kvikmyndinni Grand Marin.
Þá hefur hann einnig farið með hlutverk Bubba Morthens í sýningunni Níu líf. „Þetta er eru allt svo ólík verkefni og vinnuumhverfið er svo ólíkt, en á báðum vígstöðvum er maður að segja sögur og rannsaka mannlífið og manneskjuna, maður kynnist svo mikið af fólki náið í hverju verkefni og ég elska að gera bæði leikhús og bíó,“ segir Hjörtur.

Sýningin Níu líf hefur notið afar mikilla vinsælda hér á landi og segir Hjörtur mikilvægt að leggja sig allan fram í hverri einustu sýningu. „Það er auðvitað mjög sérstakt að sýna sömu sýninguna svona oft eins og Níu líf, þetta er komið upp í rúmlega 170 sýningar. Ég og hópurinn allur í sýningunni leggjum okkur öll fram við að sýningin haldist góð, að sama orkan sé í sýningu 170 og var í sýningu eitt eða sýningu 20. Þessi sýning er rosalega mikið sjóv og það er mikil stemning en í grunnin er sýningin sagan af lífi Bubba, lífi manns sem varð fyrir áföllum og sigraðist á þeim. Það er mikilvægt að hjartað og orkan haldist í þannig sýningu ,“ segir Hjörtur.

Kvikmyndin Óráð er ólík mörgu sem Hjörtur hefur gert áður en um er að ræða íslenska hrollvekju af bestu gerð. „Það er eitthvað alveg sérstakt við hrollvekjur og þær eiga sér alveg sér sæti í kvikmyndaflórunni, það er alveg einstakt. Það eru heilu kvikmyndahátíðirnar sem eru bara tileinkaðar hrollvekjum og fólk elskar þetta. Þessi mynd byrjar bara hjá venjulegri fjölskyldu í Reykjavík og svo fara undarlegir hlutir að gerast, ótrúlega spennandi.“

Spurður að því hvað sé fram undan segist Hjörtur ekki þekktur fyrir að skipuleggja sig langt fram í tímann. „Ég hugsa vanalega ekki langt fram í tímann, draumar morgundagsins eru nóg fyrir mig. Ég elska að leika og ég elska að vera fjölskyldufaðir og hlakka bara til næstu verkefna,“ segir Hjörtur að lokum.

Höfundur: Birna Dröfn Jónasdóttir

Hjörtur Jóhann Jónsson
Mynd: Anton Brink
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Alda vann til verðlauna annað árið í röð

Alda vann til verðlauna annað árið í röð