fbpx
Mánudagur 15.apríl 2024
Fókus

„Ég trúi því að þetta átti ekkert að gerast fyrr en þetta gerðist“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 10. desember 2023 09:00

Elísa Gróa/Aðsendar myndir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Spennandi tímar eru fram undan hjá fegurðardrottningunni Elísu Gróu Steinþórsdóttur. Hún er ólétt af sínu fyrsta barni og tók á dögunum við nýju hlutverki innan Ungfrú Ísland og er nú aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Hún hefur mikla ástríðu fyrir veröld fegurðarsamkeppna og hefur sjálf keppt átta sinnum, fimm sinnum hérlendis og þrisvar sinnum erlendis.

„Ég er rúmlega hálfnuð með meðgönguna og á von á strák í apríl. Þetta er allt voðalega spennandi og það eru mörg ný hlutverk sem ég er að taka við,“ segir hún brosmild.

„Manuela Ósk Harðardóttir er eigandi og framkvæmdastjóri keppninnar, en ég er núna orðin aðstoðarframkvæmdarstjóri. Ég vann keppnina Miss Universe Iceland 2021 og var ráðin eiginlega strax eftir það sem starfsmaður hjá keppninni sem sýningastjóri/danshöfundur. Ég mun gegna því hlutverki áfram meðfram nýju stöðunni. Við erum með rosalega gott teymi hjá keppninni.“

Elísa Gróa og Manuela Ósk. Mynd/Arnór Trausti

Alltaf elskað glimmer og glamúr

Frá barnsaldri hefur Elísa Gróa haft áhuga á öllu því sem tengist fegurðarsamkeppnum.

„Ég byrjaði að keppa fyrir átta árum og hef bara alltaf haft svo mikinn áhuga á þessum keppnum. Síðan ég var lítil hef ég haft áhuga á sviðslistum, kjólum, ferðalögum, dansi, tískusýningum, góðgerðamálum og öllu þessu glimmeri og glamúr sem er í kringum þessar keppnir. Þetta kemur eiginlega allt saman í einu í þessum fegurðarsamkeppnaheimi,“ segir hún.

„Ég hef keppt átta sinnum, fimm sinnum hérna heima og þrisvar í útlöndum. Ég hef bæði mikla reynslu og gríðarlegan áhuga á þess, þannig ég er rosalega ánægð að fara í þetta nýja hlutverk. Gaman að prófa líka að vera á bak við tjöldin. Mig langaði ekkert að fara úr þessum bransa þó ég væri hætt að keppa, þannig þetta er rosalega spennandi.“

„Það sem gerist, gerist“

Elísa Gróa keppti fyrst árið 2015. „Þá keppti ég í það sem við köllum „gamla“ Ungfrú Ísland, sem var fyrir mörgum árum. Það var ekki fyrr en 2016 sem Manuela Ósk byrjaði með Miss Universe Iceland,“ segir hún.

Elísa útskýrir muninn á „gamla“ Ungfrú Ísland, „nýja“ Ungfrú Ísland og Miss Universe Iceland. Áður fyrr var Ungfrú Ísland og Miss Universe Iceland sitthvor keppnin. Ungfrú Ísland sendi vinningshafa í Ungfrú Heimur og Miss Universe Iceland sendi vinningshafa í Miss Universe eða Ungfrú Alheimur. Manuela tók síðan við vörumerkinu Ungfrú Ísland fyrr á árinu.

Ungfrú Ísland teymið.

Sjá einnig: Spennuþrungið andrúmsloft á Hótel Múla er keppendur mættu í dómaraviðtöl

„Ungfrú Alheimur er stærri keppni og ég hafði alltaf miklu meiri áhuga á þeirri keppni. Þannig ég keppti þegar fyrsta keppnin var hér á landi árið 2016, lenti í fjórða sæti og hugsaði bara: „Vá, ég verð að gera þetta aftur.“ Mér fannst þetta svo gaman. Ári eftir fór ég upp um eitt sæti, lenti í þriðja sæti. Svo var ég smá efins hvort ég ætti að taka mér pásu eða ekki, því það er rosalega mikill undirbúningur sem fer í þetta. Keppti síðan aftur árið 2018 og þá lenti ég í topp átta, komst ekki hærra en ári áður. Og þá hugsaði ég að ég þyrfti meiri tíma. En ég hafði svo gríðarlegan áhuga á þessu þannig árið 2021 sagði ég við sjálfa mig: „Ókei, ég reyni einu sinni enn og ef ég vinn ekki núna þá átti þetta ekki að gerast.““

Elísa fór í síðustu keppnina með það í huga að „það sem gerist, gerist“ og hún sæi ekki eftir neinu. Það ár vann hún.

Jákvæðar breytingar

„Ég trúi því að þetta átti ekkert að gerast fyrr en þetta gerðist. Ég var 27 ára þegar ég vann og fór út að keppa í Miss Universe. Á þeim tíma var 28 ára aldurstakmark að keppa, þannig ég var talin þannig séð vera „gömul“ eða „á síðasta séns.“ Þannig ég var mjög ánægð að ná þessu. En nú er allt búið að breytast,“ segir Elísa.

„Það hafa orðið svo miklar jákvæðar breytingar í ár. Núna mega allar konur, átján ára og eldri, keppa. Það er rosalega gaman að vera partur af þessum nýju breytingum, að koma inn sem aðstoðarframkvæmdastjóri þegar allt þetta er að gerast. Í ár var líka breytt fleiri reglum, nú máttu vera gift, skilin, eiga börn eða vera ólétt. Við hjá Ungfrú Ísland teyminu erum mjög ánægð með þessar breytingar og það er gaman að segja frá því að í ár var í fyrsta skipti tveggja barna móðir meðal keppenda og annar keppandi var ólétt.“

Elísa Gróa. Aðsend mynd.

Breyttir tímar og minni fordómar

Aðspurð hvort henni finnst viðhorf samfélagsins hér á landi til fegurðarsamkeppna hafa breyst í takt við breytta tíma innan bransans svarar Elísa játandi.

„Já, mér finnst það algjörlega. Það voru miklu meiri fordómar í samfélaginu fyrir þessum keppnum, fannst mér, fyrir nokkrum árum. Mér fannst ég oft þurfa að verja það sem ég hafði áhuga á og reyna að sýna fólki að þetta er ekki eins og þetta var á níunda og tíunda áratugnum. Þessi heimur er búinn að breytast og það er svo rosalega jákvætt. Mér finnst viðmótið hafa breyst, sérstaklega hérna á Íslandi. Í mörgum löndum er þetta þjóðarsportið og það er svo mikill og stór aðdáendahópur, eins og er í kringum íþróttir, og það þarf ekkert að verja þennan bransa kannski annars staðar eins og hefur þurft hér, en mér finnst áhuginn hér á landi hafa aukist og breyst til hins betra.“

Ungfrú Ísland er byrjað að taka á móti umsóknum. Hægt er að sækja um á MissUniverseIceland.com.

„Svo byrjar ferlið næsta vor, æfingar og undirbúningur er yfir sumarið og keppnin er yfirleitt í lok sumars,“ segir Elísa.

Fylgstu með Elísu Gróu á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Caitlyn Jenner birti svakaleg skilaboð eftir fráfall O.J. Simpson

Caitlyn Jenner birti svakaleg skilaboð eftir fráfall O.J. Simpson
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kelsey svaraði algengustu spurningunni um hjónaband hennar og Hafþórs – „Hann beygir sig“

Kelsey svaraði algengustu spurningunni um hjónaband hennar og Hafþórs – „Hann beygir sig“