fbpx
Fimmtudagur 29.febrúar 2024
Fókus

Stefanía tók á meðvirkninni með aðstoð 12 spora kerfisins – „Gjörbreytti lífi mínu að öllu leyti“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 30. nóvember 2023 19:59

Stefanía Svavarsdóttir er gestur vikunnar í Fókus.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarkonan Stefanía Svavarsdóttir er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV.

video
play-sharp-fill

Söngkonan Stefanía Svavarsdóttir hefur verið í sviðsljósinu síðan hún var fimmtán ára gömul og tróð upp með Stuðmönnum. Það ævintýri hófst með sigri hennar í Söngvakeppni Samfés og varð til þess að hún kom fram með hljómsveitinni í nokkur ár. Hún hefur síðan þá sinnt mörgum verkefnum. Ef aðeins er horft til síðasta árs má telja upp Adele heiðurstónleika og síðar Tinu Turner, hún tók þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins með lagið „Hjartað mitt“ og söng á ABBA sýningu í Eldborg með fleiri íslenskum stórstjörnum.

Stefanía hefur verið söngfugl frá barnsaldri. „Þetta kom í ljós frekar snemma. Ég var alltaf syngjandi,“ segir hún.

„Þegar ég var sjö ára uppgötvaði ég Celine Dion og var bara inni í herbergi að syngja lög eftir hana. Ég fór í söngskóla Siggu og Maríu þegar ég var níu ára, fór þaðan yfir í Borgarleikhúsið í sönglist, þannig ég var alltaf á einhverjum sönglistar- og leiklistarnámskeiðum.“

Tók stökkið

Árið 2015 ákvað Stefanía að taka stökkið og hætta í vinnunni og einbeita sér alfarið að tónlistinni. Hún viðurkennir að það hafi verið smá ógnvekjandi en hún hafi ákveðið að láta slag standa.

„Það var svolítið skref út fyrir þægindarammann en það var svo mikið að gera hjá mér, ég var í vinnu og var líka að syngja og ég var farin að vera í 200 prósent vinnu. Ég þurfti ekki lengur þessa föstu vinnu miðað við tekjurnar sem ég var að fá,“ segir hún.

„En svo er alltaf þetta óöryggi, því maður veit aldrei hvaða gigg koma inn og hvort það verður mikið að gera eða lítið að gera. En ég ákvað að sleppa tökunum og treysta alheiminum fyrir því, og það hefur gengið upp síðan.“

Meðvirknin stórt vandamál

Árið 2020 skall á heimsfaraldur og allt í einu var engin verkefni að fá. Á sama tíma og hún var að upplifa þetta gífurlega atvinnuóöryggi var mikið í gangi í einkalífi hennar. Hún og barnsfaðir hennar hættu saman stuttu eftir að hún komst að því að hún varð óvænt ólétt af þeirra öðru barni, fyrir áttu þau dreng sem þá var 18 mánaða gamall.

Stefanía var því að fara í gegnum faraldurinn einstæð, ólétt og atvinnulaus. Hún segir að þetta hafi verið mjög krefjandi tími en hún hafi stundað mikla sjálfsvinnu og sjálfsrækt sem varð til þess að hún kom sterkari út úr þessu fyrir vikið. Hún leitaði sér fyrst aðstoðar við meðvirkni árið 2016 og hélt því áfram í gegnum faraldurinn.

„Ég fór og tók á meðvirkninni minni. Það var stórt vandamál í lífi mínu. Ég fór og tók á henni með hjálp 12 spora kerfisins sem gjörbreytti lífi mínu að öllu leyti. Ég fékk nýja sýn á lífið,“ segir hún.

„Eftir að ég fór í þessa sjálfsvinnu bæði sit ég miklu sterkari í sjálfri mér og hef ekki jafn miklar áhyggjur af áliti annarra, af því ég sit svo vel í mér. Af því að ég er búin að taka til í mínu drasli og reyni allajafna að gera mitt besta, koma vel fram, vera heiðarleg, vera auðmjúk gagnvart sjálfri mér og öðru fólki. Þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Ef ég er sátt við mig og mína hegðun og það sem ég geri, þá skiptir engu máli hvað öðrum finnst um það.“

„Lífið gæti ekki verið betra“

„Það kemst enginn í gegnum þetta líf án þess að fá erfið verkefni eða þurfa að díla við einhverja erfiðleika, það sem skiptir máli er viðhorfið þitt gagnvart þessum verkefnum. Er maður fórnarlamb og „æi, af hverju ég?“ Eða: „Ókei, þetta er verkefni og ég tek það einn dag í einu að fara í gegnum það og það mun styrkja mig og hjálpa mér að þroskast.“ Það breytti rosalega miklu fyrir mig, sérstaklega í Covid, því þetta var virkilega súrt á köflum. En ég hugsaði allan tímann: „Það er eitthvað alveg geggjað fram undan. Það er verið að undirbúa mig fyrir eitthvað alveg geggjað.““

Vissulega var það raunin og er Stefanía ótrúlega hamingjusöm í dag.

„Ef ég ber mig saman þá og nú, í Covid var ég atvinnulaus, blönk og með lítið barn, allt þetta. Í dag á ég dásamlegan kærasta, ég á mína eigin íbúð sem ég keypti sjálf, það er nóg að gera, ég á yndislega fjölskyldu og vini, lífið gæti ekki verið betra,“ segir hún.

Horfðu á þáttinn hér að ofan.

Fylgstu með Stefaníu á Instagram og smelltu hér til að hlusta á tónlistina hennar á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Sumar stelpur sem voru andstyggilegar hafa reynt að adda mér á Facebook og ég hef orðið mjög hissa“

„Sumar stelpur sem voru andstyggilegar hafa reynt að adda mér á Facebook og ég hef orðið mjög hissa“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Trítaðu þína konu“

Vikan á Instagram – „Trítaðu þína konu“
Hide picture