Óskarsverðlaunahátíðin fer fram í kvöld (nótt að okkar tíma) í Dolby Theatre í Hollywood. Sara Gunnarsdóttir leikstjóri og listakona er tilnefnd í flokknum besta teiknaða stuttmyndin fyrir leikstjórn myndarinnar My Year of Dicks.
Sara klippir einnig myndina en hún vann hana ásamt höfundinum Pamelu Ribbon, en myndin byggir á bók hennar, Notes to Boys: And Other Things I Shouldn’t Share in Public. Myndin kom út á síðasta ári og fjallar um Pam sem þráir það eitt að missa meydóminn og leitar ákaft að „hinum eina sanna.“
Sara er fædd og uppalin í Reykjavík og er með BFA-gráðu frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur á síðustu árum einbeitt sér að gerð teiknimynda, tónlistarmyndbanda og öðrum kvikmynda- og sjónvarpstengdum verkefnum. Hún kom meðal annars að gerð HBO heimildarþáttanna The Case Against Adnan Syed sem hlutu Emmy tilnefningu.
Sara og Ribbon verða viðstaddar Óskarsverðlaunahátíðina ásamt mönnum sínum. Þær fengu einnig möguleika á að kaupa fimm miða hvor og buðu því framleiðanda sínum og manni hennar og nokkrum öðrum úr teymi myndarinnar. Sara valdi hönnuðinn Ýr Þrastardóttir, sem hannar undir merki Another Creation, til að sauma á sig svartan silkikjól.
Sara gæti í nótt bæst í hóp þeirra íslendinga sem hlotið hafa styttuna góðu, en erlendum miðlum ber ekki saman um hvort My Year of Dicks muni hljóta verðlaunin. New York Times og Vanity Fair spá myndinni Óskarsverðlaunum, en Variety og Deadline spá hins vegar því að The Boy, the Mole, the Fox and the Horse hljóti verðlaunin.
Myndirnar fimm sem keppa um verðlaunin eru afar ólíkar og mislangar.
My Year of Dicks er 24 mínútur að lengd og má horfa á hér í fullri lengd:
The Boy, the Mole, the Fox and the Horse (Strákurinn, moldvarpan, refurinn og hesturinn) er byggð á bók Charlie Mackesy. Sagan er þroskasaga fyrir allar kynslóðir sem segir sögu af vináttu forvitins stráks, moldvörpu sem er gráðug og full af lífi, refs sem harðneskjan hefur gert tortrygginn og hests sem er vitur og ljúfur. Myndin er óður til sakleysis og góðmennsku og flytur lífsspeki sem snert hefur hjörtu meira en milljón lesenda. Bókin hefur setið 170 vikur á metsölulista New York Times og kom í fyrra út í íslenskri þýðingu. Myndin er 34 mínútur að lengd og má horfa á á Apple+.
Hin kanadíska The Flying Sailor (Fljúgandi sjómaðurinn) byggir á raunverulegum atburði, sprengingu í Halifax árið 1917. Þegar nærliggjandi skip springur er sjómaður sendur í óvænta sjóferð. Myndin fjallar um upplifun hans og sannkallaða háskaferð. Myndin er átta mínútur að lengd og má horfa á hér:
Hin portúgalska Ice Merchants (Íssölumennirnir) fjallar um feðga sem hoppa á hverjum degi í fallhlíf frá klettheimili sínu og selja ís í þorpinu. Móðir drengsins er látin, en andi hennar vakir enn yfir þeim og má meðal annars hjá að kaffibollinn hennar er enn ósnertur á eldhúsborðinu. Einn heitan dag er enginn ís til að selja, snjór fellur á hús feðgana og brýtur það frá klettinum. Fallhlífalausir grípur faðirinn son sinn og hoppar með von um að bjargast. Myndin er 14 mínútur að lengd.
Hin kanadíska An Ostrich Told Me the World Is Fake and I Think I Believe It (Strútur sagði mér að veröldin sé plat og ég held ég trúi því) fjallar um skrifstofumanninn Neil sem mistekst að selja brauðrist úr klefanum sínum, í kjölfarið hótar yfirmaður hans honum uppsögn. Neil byrjar að sjá ofskynjanir og fer að gruna að heimur hans sé falsheimur. Eftir að hafa blundað í vinnunni hittir hann strút sem staðfestir að heimurinn sé „svindl“ og skorar á Neil að skoða umhverfi sitt betur. Þegar hann rannsakar geymslu í nágrenninu, dettur Neil út fyrir stop-motion hreyfimyndasettið, þar sem skaparinn myndarinnar finnur hann. Í ljós kemur að ekki er allt sem sýnist og Neil og vinnufélagar hans eru aðeins persónur í stop-motion auglýsingu sem auglýsir uppfærð skrifstofuhúsgögn, með strút sem lukkudýr fyrirtækisins. Myndin er 11 mínútur að lengd og má horfa á hér: