fbpx
Fimmtudagur 23.júní 2022
Fókus

Dullarfull eftirmál slyssins sem dró James Dean til dauða – Kenningar um að bölvun hafi legið á bílnum

Fókus
Miðvikudaginn 22. júní 2022 22:13

James Dean á bílnum sem hann lést í, Porsche Spydernum Little Bastard. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikarinn James Dean átti stuttan en stórkostlegan tíma í sviðsljósinu sem lauk skyndilega þegar hann lést í hörmulegu bílslysi þann 30. september 1955. Enn í dag þykir margt varðandi andlát hans bæði ruglingslegt og truflandi.

James Dean var ein af þessum stjörnum þar sem persónuleiki hans gerði hann mun frægari en nokkur af þeim kvikmyndum sem hann lék í, og hann lifði heldur ekki til að sjá allar myndirnar sínar frumsýndar.

Frægð James var á gríðarlegri uppleið þegar hann lést.  Hann var aðeins 24 ára gamall þegar hann dó, og þrátt fyrir að hann hafi látist svona skelfilega ungur varð það ekki síst til þess að stimpla hann inn til framtíðar sem hálfgerðan dýrling í menningarsögunni.

Ástríða fyrir kappakstri

James Byron Dean fæddist í Indianafylki Bandaríkjanna þann 8. febrúar 1931 þar sem hann bjó í nokkur ár þar til faðir hans þurfti að flytja til Kaliforníu vegna vinnu. Móðir hans lést þegar hann var aðeins níu ára gamall.

James var alltaf einstaklega listrænn og hæfileikarnir skinu fljótt í gegn. Hanan spilaði á fiðlu, dansaði steppdans og bjó til skúlptúra. Í yfirlýsingu til skólastjórans síns í gagnfræðaskóla tjáði James sig um nokkuð sem hann átti síðar eftir að vera þekktur fyrir, nefnilega gríðarlegan áhuga á mótorhjólum:

„Áhugamálið mitt, og það sem ég eyði mestu frítíma mínum í, eru mótorhjól. Ég skil bæði hvernig mekanisminn í þeim virkar og ég elska að aka á þeim. Ég hef þegar tekið þátt í nokkrum keppnum og gengið vel.“

Seinna skráði James sig í Kaliforníuháskóla en hætti þar vegna uppástungu leiklistarkennara þar um að hann ætti að reyna að leika í New York.

James Dean elskaði kappakstur. Mynd/Getty

Eftir að hafa varið nokkrum árum í að leika lítil hlutverk og í auglýsingum ákvað James árið 1951 að flytja til New York og nema leiklist hjá hinum þekkta leikstjóra Lee Strasberg. Á næstu árum þróaði hann sinn einstaka leikstíl, sem á þeim tíma þótti óhefðbundinn, og landaði fjölda hlutverka í sjónvarpsþáttum og Broadwayleikritum.

Stóra tækifærið kom árið 1955 þegar hann fékk hlutverk í myndinni East of Eden sem gerð var eftir skáldsögu John Steinbeck. Það vakti víða athygli hvernig hann fór frumlegar leiðir til að túlka eirðarleysi ungdómsins og þarna voru hans fyrstu skref til heimsfrægðar tekin.

Dauði James Dean

Þrátt fyrir að hafa fengið mörg góð hlutverk í framhaldinu þá gleymdi James aldrei hinni ástríðunni sinni – kappakstri. Sama ár og East of Eden var frumsýnd keppti James bæði í Palm Springs kappakstrinum og Santa Barbara kappastrinum. Hann hafði líka fest kaup á glænýrri Porche Spyder bifreið sem hann kallaði „Little Bastard“ og hafði áætlað að keppa á honum í Salinas kappakstrinum í Kaliforníu.

Upphaflega ætlaði James að láta fara með Porchinn fyrir sig til Salinas en á seinustu stundu ákvað hann að keyra sjálfur.

Það var 30. September 1955 sem Hollywoodstjarnan lagði af stað til Salinas á Little Bastard, en með honum var vélvirkinn han Rolf Wütherich. James var tekinn fyrir of hraðan akstur um klukkan hálf fjögur, borðaði á matsölustað klukkan korter í fimm og lagði síðan af stað aftur. Klukkan var korter í sex þegar James sá Ford bifreið koma í áttina að sér en James var að gera sig líklegan til að taka vinstri beygju á næstu gatnamótum. James hughreysti Wütherich með orðunum: „Þessi gaur þarf að stoppa. Hann kemur til með að sjá okkur.“ Stundu seinna skullu bílarnir saman. Það þurfti að draga Wütherich út úr bílnum en hann brotnaði á nokkrum stöðum.

Ford bíllinn þeystist niður götuna áður en hann stöðvaðist loksins og bílstjórinn, hinn 23 ára Donald Turnupseed slapp með minniháttar meiðsl.

Porschinn hins vegar fór á loft við áreksturinn, lenti síðan harkalega og veltist út í vegarkantinn, allt á meðan James var enn í bílnum.

Bíllinn var gjörónýtur eftir slysið. Mynd/Getty

Vitni hlupu af stað til að koma honum úr flakinu en var brugðið þegar þau sjáu hvernig slysið hafði leikið hann. Enn er ekki vitað nákvæmlega af hverju slysið átti sér stað, Turnupseed var aldrei ákærður og vitni sögðu að James hafi ekki ekið of hratt þrátt fyrir hraðasektina fyrr um daginn.

James var úrskurðaður látinn þegar komið var með hann á Paso Robles stríðsminjasjúkrahúsið skömmu eftir klukkan sex.

Bölvun Little Bastard

Andlát James Dean varð aðeins til að festa frægð hans í sessi. En fleiri öðluðust frægð – nefnilega Porschinn Little Bastard.

Aðdáendur voru fljótir að benda á að James hafði nýlega leikið í forvarnarmyndbandi fyrir umferðarstofu þeirra Bandaríkjamanna þar sem hann hvatti áhorfendur til að „taka því rólega við akstur, lífið sem þú bjargar gæti verið lífið mitt.“ Eins og þetta væri ekki nógu óhugguleg tilviljun þá fóru brátt að berast fregnir af undarlegum atburðum tengdum Little Bastard.

Þrátt fyrir að bíllin sjálfur væri gjörónýtur var hægt að bjarga einhverjum aukahlutum sem voru seldir. Og undarlegir hlutir fóru að koma fyrir þá sem keyptu þessa hluti.

Fyrst var vélin seld til læknis sem lést í slysi í fyrsta sinn sem hann ók með vélina í bílnum sínum. Annar ökumaður slasaðist þegar tvö dekk sem hann keypti af Little Bastard sprungu á sama tíma. Vöruflutningabílstjóri sem ók með boddíið af bílbrakinu frá slysstað rann út af veginum og lést.

Ómögulegt er þó að sannreyna marga af þeim atburðum sem tengdir voru „bölvuninni“ í framhaldi af andláti James þar sem það er erfitt að henda reiður á varahluti úr bílum, en þó eru nokkrar furðulegar tilviljanir sem ekki er hægt að líta framhjá.

Ein slík á við engan annan en sjálfan Alec Guinness sem árið 1977 sagði frá því í viðtali þegar hann hitti James í fyrsta og eina skiptið.

Guinness rakst á James kvöld eitt í Hollywood sama ár og James lést, og James sýndi honum þá stoltur nýja Porschinn sem hann hafði keypt sér. Hann sagði að bíllinn kæmist upp í 240 kílómetra á klukkustund en viðurkenndi ennfremur að hann hefði ekki enn sest upp í bílinn.

Guiness rifjaði þá upp að „það kom eitthvað yfir mig, ég sagði við hann, með rödd sem virtist ekki vera mín eigin: Ekki fara upp í þennan bíl. Það verða endalokin þín. Núna er fimmtudagur og klukkan er tíu um kvöld. Fyrir klukkan tíu næsta fimmtudag verður þú dáinn ef þú ferð upp í þennan bíl.“

Hann sagði að James hafi ekki tekið þessari aðvörun alvarlega en Guinness sagði að þeir hefðu þetta kvöld „borðað saman huggulegan kvöldverð og hann lést síðdegis næsta fimmtudag.“

Enn í dag eru margir sem fara að staðnum þar sem slysið var og skilja eftir ýmislegt til að minnast James Dean, svo sem áfengi og undirföt kvenna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Kennari sagði Herdísi of lata og vitlausa til að verða eitthvað – Útskrifaðist með fyrstu einkunn í lögfræði um helgina

Kennari sagði Herdísi of lata og vitlausa til að verða eitthvað – Útskrifaðist með fyrstu einkunn í lögfræði um helgina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vísindin hafa talað – Þetta er myndarlegasti maður heims

Vísindin hafa talað – Þetta er myndarlegasti maður heims