fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Stefán Þór Þorgeirsson fór í skiptnám til Japans, starfaði þar sem fyrirsæta, kom heim og nam verkfræði og leiklist – „Ég var ekkert alltaf á því að fylgja reglunum“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 11. desember 2022 09:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef oft talað um að menningarmunur á milli Íslands og Japans sé ekki æpandi, það er frekar að hann læðist aftan að manni. Ég var búinn að vera í Japan í fleiri vikur, ef ekki mánuði, þegar ég fór að taka eftir því hversu frábrugðin þessi lönd eru,“ segir Stefán Þór Þorgeirsson. leikari sem einnig er reyndar menntaður í verkfræði.

Hann býr í Tókýó ásamt eiginkonu sinni, Sherine Otomo Bouhafs, og sýslar við ýmislegt. Hann heldur einnig úti hlaðvarpinu Heimsendi þar sem hann meðal annars ræðir alls kyns áhugaverða hluti um lífið í Japan.

Stefán Þór Þorgeirsson

Var alltof seinn

„Ég hafði alltaf áhuga á að fara í skiptinám og hugsaði alltaf til Spánar því mig langaði að læra spænsku. Það var á fyrsta árinu í MR sem ég fór að sækja um en komst að því að ég var orðinn of seinn og einu löndin sem í boði voru voru Japan, Kína, Ástralía, Bandaríkin og Taíland.“

Faðir Stefáns Þórs hafði nokkrum sinnum farið til Japans, kunni mjög vel við landið og mælti með að hann skoðaði það betur.

„Ég fékk samþykki í mars 2011 en þá skall stóri jarðskjálftinn á í Japan svo og flóðbylgja sem ollu kjarnorkuslysi.“

Talið er að 15.500 manns hafi látist af völdum hamfaranna.

„Mér var sagt að þetta væri eiginlega vonlaust en ég var ákveðinn í að fara til Japans og beið í hálft ár. Ég fór loks að fara í ágúst 2011 og fékk að vera í eitt ár þótt ég ætti bara að vera í sex mánuði en gegn því að hoppa niður um einn bekk.“

Stefán Þór fór til Sapporo, sem fimmta stærsta borgin Japan, staðsett á Hokkaido, í norðurhluta landsins.

Taldist enn barn

„Þetta var í fyrsta skipti sem ég var að fara að búa erlendis og farinn að hlakka til að búa í landi þar sem alltaf væri sól og sumar. En þegar ég gúgglaði borgina komst ég að því að borgin var á nyrsta eyju Japans og langt frá því að vera eitthvað hitabelti.

En Sapporo er frábær staður og mikil náttúrufegurð í Hokkaido.“

Hjónin Sherine og Stefán

Stefán Þór var 18 ára og fullur af krafti og draumum við komuna til Japans.

„Ég var fullorðinn einstaklingur, að því ég taldi, en sem 18 ára menntaskólanemi í Japan er maður enn barn. Japanska fósturfjölskyldan bar ábyrgð á mér, svo og skólinn, og var litið svo á að ef ég klæddist skólabúningum ekki samkvæmt reglum væri það á ábyrgð skólans, jafnvel þótt það væri um helgi.

Ég mátti ekki vinna með skóla né eignast kærustu en ég gerði bæði í laumi.“

Stefán hóf að starfa sem fyrirsæta og það var við fyrirsætustörfin sem hann kynntist eiginkonu sinni, Sherine.

„Ef ég hefði fylgt reglunum væri ég mögulega ekki giftur í dag,“ segir Stefán, kíminn á svip.

Til skammar að skóa mig ekki

Sem dæmi um ábyrgðina nefnir Stefán að hann hafi byrjað að hlaupa eftir komuna til Japans og fljótlega verið kominn á kaf í hlaupin.

„Ég vildi helst hlaupa berfættur. Þetta var mín leið til að fá útrás fyrir pirringinn sem fylgdi því að geta ekki skilið allt sem við mig var sagt né gert mig skiljanlegan. Svo ég hljóp berfættur á hverjum degi, hring eftir hring, og göturnar í Japan eru það hreinar að það er ekkert mál og enginn hætta á að slasa sig.

Einn daginn sá ég nágrannakonu fylgjast með mér þegar ég var að leggja af stað. Ég veifaði henni en hún starði bara á mig.

En þegar ég kem heim sagði fósturmamma mín að nágrannakonan hafi komið yfir og húðskammað hana fyrir að vera með skiptinema á sinni ábyrgð sem væri að þvælast um skólaus um allt hverfið. Það væri til skammar.“

En þá kom átján ára Íslendingurinn upp í Stefáni sem harðneitaði að fara i skó, sagðist vera fullorðinn einstaklingur sem hlypi á eigin ábyrgð og enginn þyrfti að hafa áhyggjur af því.

Stefán í Tókýó fyrr á árinu.

Fékk töluverða athygli

Stefán var í skóla með þúsund nemendum og var aðeins annar tveggja sem ekki var japanskur og eini strákurinn.

Hann viðurkennir að hafa fengið töluverða athygli.

„Ég var alltaf að lyfta í hádeginu í íþróttasalnum í hádeginu, mætti þar í skólabúningum, og það var alltaf einhver að koma að fylgjast með. Og eftir svona tvo mánuði var kominn um þrjátíu manna lyftingahópur sem æfði með mér í hádeginu.

Ég var eini skiptineminn sem ekki fékk japönskukennslu og lærði því málið upp á eigin spýtur, aðallega með samtölum. Ég spurði bara fólk út í eitt þótt ég skyldi ekki svörin.

Ég kunni varla tungumálið fyrstu sex mánuðina og var reyndar bara nokkrar vikur í þessum hefðbundnu fögum áður en ég fór á kaf í listgreinar. Ég hætti í stærðfræði og japanskri bókmenntafræði og fór í gítarnám og skrautritun. Þess á milli var ég að leika mér í leikfélagi í Japan og náði að sleppa svolítið við þetta hefðbundna nám.

Nú er ég búinn að tala japönsku í tíu ár og tala hana mjög vel en ég er ekki bestur þegar kemur að hefðbundnum kennsluaðferðum.“

Með skólafélögum sínum.

Með túperaða teiknimyndahárkollu

Talið berst að fyrirsætustörfunum.

„Eitt það ruglaðasta sem ég gerði var að lita hárið á mér svart. Sem var í raun bannað en slapp því það var svart. Það hefði til dæmis ekki gengið hefði ég litað það fjólublátt. Síðan krúnurakaði ég mig, sem er mjög vinsælt í Japan, því þannig er allir hafnarboltakapparnir þeirra. En rétt eftir það fékk ég módelverkefni og varð að segja skrifstofunni að nú væri ég orðinn hárlaus. Það var orðið of seint að skipta um módel svo ég fór í myndatöku sem brúðgumi og var með hárkollu. Svona ekta japanska, túperaða teiknimyndahárkollu.“

Stefán segist mikið búinn að leita að myndum frá sér með kolluna góðu en finni þær því miður ekki.

„Fyrirsætustarfið var fyndin og skemmtileg upplifun en ég fór út með það í huga að læra málið og kynnast menningunni og hugsunarhættinum. Þarna opnaðist fyrir mér risastór og nýr heimur og því meira sem ég kynntist honum því meira vildi ég vita um hann.

Það varð síðan að þessu stórvaxna verkefni sem ég hef verið í alla tíð síðan.“

Stefán í japönsku leikhúsi.

Samheldni og fórnfýsi

Hann segir svo ótalmargt frábært við Japan.

„Maturinn er ekkert eðlilega góður og þótt það sé finn japanskur matur á Íslandi er það ekki það sama. Fjölbreytnin og þessi djúpa og langa saga þjóðarinnar, sem hefur svo áberandi mikil áhrif á menninguna enn í dag.

Ég var aldrei inni í teiknimyndum, manga eða anime, ég hafði meiri áhuga á fólkinu. Ég var til dæmis í júdó og með 75 ára gamlan sensei, sem ég hneigði mig fyrir og lét mig gera sömu æfinguna hundrað sinnum þar til ég gat varla gengið. Ég fór svo heim, át þvílíkt, og endurtók leikinn daginn eftir. Ég lærði svo mikið um aga á þessum tíma.“

Aðspurður um hvað helst einkenni Japani segir hann þá hugsa að mörgu leiti meira um aðra en sjálfa sig.

„Það er samheldni og fórnfýsi í þjóðinni, þessi hugsun um hópinn og heildina og kraftinn í ljósi fjöldans sem Íslendingar geta lært af. Ég heillaðist af mörgu en það voru auðvitað árekstrar og stundum þurfti ég að læra með því að fara lengri leiðina.“

Stefán er hæstánægður með að búa í Tókýó enda var það lengir draumurinn.

Önnur mantra en sú íslenska

Auk agans og reglufestunnar segir Stefán þá grunnhugmynd ríkjandi að stinga ekki í stúf eða vera öðruvísi á neinn hátt.

„Það gat verið erfitt þegar að maður vildi gera eitthvað öðruvísi. Íslenska mantranþetta reddast“ er ekki til í Japan.

Þeir eru með sína möntru; „Ef við höfum ekki fyrri reynslu af því getum við ekki gert það.“  Það á við um allskonar hluti, bæði litla og stóra.“

Stefán tekur dæmi.

„Ég fer í verslun í nágrenninu og kaupi mér kaffi. Ég kem síðan aftur um daginn og vill endurnýta pappamálið fyrir annan kaffibolla. En það er útilokað. Ég verð að henda bollanum áður en ég fæ nýjan bolla. Ég bendi þá á að ég sé að reyna að vera umhverfisvænn en þar sem er ekki fyrri reynsla af endurnýtingu bolla er það einfaldlega útilokað,“ segir Stefán og hlær.

Stefán segir að þetta geti alveg farið í taugarnar á honum en hann vilji frekar kafa dýpra og átta sig á hvað liggi að baki.

„Sem leikari á Íslandi hef ég þurft að fá leyfi til að taka upp á ákveðnum stöðum og  redda hinu og þessu, sem oftast er það ekkert mál. En hérna myndi ég þurfa að lesa hnausþykka reglubók og skil inn einhverju heljar magni af skýrslum.“

Úr sýningu sem Stefán tók þátt í í Japan.

Hvenær er þetta orðið gott?

„Ég taldi að gamni í gær og hér er kannski einn af hverjum þrjátíu, fjörutíu sem ekki er með andlitsgrímu eftir Covid. Allir eru með grímu, hvort sem það er innan- eða utandyra. Maður er kannski í stórum almenningsgarði, nóg pláss og fallegur sólríkur dagur, en það eru allir með grímur.

Þetta er að einhverju leyti merki um agann og reglurnar og hvernig fólk er með hugann við náungann. Það er alltaf tilbúið að fórna einhverju fyrir aðra en á hinn bóginn langar mig að spyrja hversu lengi og hvað langt á að ganga.

Hvað þarf að gerast til að fólk fari að hugsa um hvort það eigi að halda þessu áfram eða hvort kannski sé komið gott?“

Það er ljóst að Stefán Þór hefur mikið pælt í hugsunarhætti Japana.

„Það er rosalega sterk tilhneiging í Japan að tilheyra, vera hluti af samfélaginu, og eins og allir hinir. Ég er sjálfur almennt ekki með grímu en þegar ég er beðinn um það er það ekkert mál. Það truflar mig ekki persónulega að vera öðruvísi en mörgu fólki hér finnst afar óþægilegt að það sé horft á það eða að það stingi á einhvern hátt í stúf við heildina.“

Í göngu á Reykjanesinu

Merkilegt að koma aftur í MR

Stefán hóf aftur nám í MR þegar hann kom heim eftir árið í Japan. Hann og Sherine voru í fjársambandi í eitt ár en árið 2013 kom hún til Íslands.

„Hún prófaði að vinna í eitt ár hjá japönsku fyrirtæki í eitt ár í níu til fimm vinnu, jakkafötin og allt, en fannst það alveg nóg og flutti til Íslands, segir Stefán en heimili þeirra varð smám saman að líflegri félagsmiðstöði japanska samfélagsins á Íslandi.“

Sherine líkað vel á Íslandi þótt hún hafi kannski haft eitthvað út á veðrið að setja.

„En hún kunni vel við „þetta reddast” kúltúrinn, að hér er minna regluverk og margt á margan hátt auðveldara,” segir Stefán.

Hann segir það hafa veri merkilegt koma aftur í MR. „MR menningin er mjög sterk en þynntist út í mér eftir dvölina í Japan enda slíkt ekki til í menntaskólum þar. En ég sogaðist reyndar aftur í félagslífið í skólanum.“

Verkfræði og leiklist

Eftir útskrift úr MR gekk Stefán í gegnum annað ævintýri.

„Ætli ég hafi þekki þurft að finna mig aftur. Ég fór til Costa Rica í hálft ár, lærði spænskuna loksins og vann í sjálfboðastarfi. Ég var kominn með nóg af leiklistinni, var búinn að vera fimm ár í menntaskóla og alltaf í leikfélögum.“

Stefáni langaði að fara út í eitthvað meira vísindatengt og mennta síg í raungreinum. Hann skráði sig því í verkfræði við komuna heim frá Costa Rica.

Stefán byrjaði því efnaverkfræði við Háskóla Íslands. „En þegar ég áttaði mig á að ég þyrfti að mæta í verklega tíma þrisvar í viku var ég ekki alveg að fíla það og færði mig yfir í iðnaðarverkfræði, sem hafi mun frjálsari mætingu.

Á þessum þremur árum í verkfræðinni í Háskóla Íslands var ég einnig að vinna sem leiðsögumaður fyrir japanska ferðamenn, gerði myndbönd tengd útivist og göngu, var mikið í jóga og að gera allskonar hluti til að læra meira um sjálfa mig og hvað ég vildi gera.“

Frá sýningu i Japan.

Vel hægt að sameina greinarnar

En pásan frá leiklistinni varð ekki ýkja löng og var Stefán mættur í inntökupróf í Listaháskólanum á fyrsta árinu í verkfræðinni.

„Blessunarlega komst ég ekki inn og á öðru árinu voru ekki haldin inntökupróf svo ég fór til London og í inntökupróf í tvo leiklistarskóla þar og komst sem betur fer ekki inn þar heldur.  Á þriðja árinu í verkfræðinni reyndi ég aftur við inntökuprófið í Listaháskólanum og komst þá inn.“

Hann kláraði því verkfræðina og byrjaði í leiklist.

Hvernig sameinar maður verkfræði- og leiklistarmenntun?

„Ég hélt að þetta væri svo mikil u-beygja og ekkert hægt að samnýta þessa tvær tegundir menntunar.“

Sýning Stefáns, Fyrirlestur um gervigreind, var sýnd hér á landi og verður sett upp í Japan á næsta ári.

„Á seinni árum verkfræðinnar var mikið verið að vinna með alls kyns nýsköpun og hvernig megi koma hugmyndum í framkvæmd. Ef að það var nóg frelsi í verkefnunum gat ég tekið boltann og stokkið inn.

Mér fannst gaman að setja upp alls kyns verkefni, skoðaði til dæmis möguleikann á að rækta krybbur á Íslandi, til að mylja í próteinduft,“ segir Stefán og hlær.

Mér fannst bara gaman að skoða hvernig má koma alls kyns hugmyndum í framkvæmd. Verkfræðin var og er full af alls konar fólki en margir þar höfðu ekki áhuga á sömu hlutum og ég. Ég var til dæmis í verkefni í þróun hugbúnaðar þar sem við áttum að gera tölvuleik og ég hafði engan áhuga á að forrita og var ekki góður í því.

En ég var nokkuð góður í að ímynda mér heiminn, teikna upp allskonar borð og skapa söguna sem hinir í teyminu höfðu lítinn sem engan áhuga á því.

Ég fór að sjá kostina við að halda áfram á þessari braut, að láta sköpunargáfuna njóta sína og framkvæma hugmyndirnar. Það er ekki nóg að fá góða hugmynd, það þarf að fara alla leið.“

Draumurinn um Tókýó

Þegar að Stefán útskrifaðist úr leiklistin  í fyrra fékk hann starf við að gera hugbúnað fyrir leiklistargeirann.

„Þar gat ég nýtt bæði verkfræðina og leiklistina. Ég er enn í hlutastarfi við það, sem er hentugt með öllu hinu sem ég er að gera, fara í prufur og ýmislegt annað. Stundum er ég líka í leiksýningunum og þá get ég ekki sinnt neinu öðru í ákveðinn tíma, kannski einn til tvo mánuði, svo það hentar vel að vera ekki í níu til fimm vinnu með mætingarskyldu.

Mig langar mest að nýta listina til fulls. Það er númer eitt hjá mér að halda áfram að læra og þróast sem listamaður, hvort sem það er á sviði, í kvikmyndum eða einhverju hljóðtengdu. Ég er í hljóðbókum, er með hlaðvarp og verið með útvarpsþætti á Rás 1.“

„Ég hef líka gaman af að skrifa leikrit og koma þeim alla leið til áhorfenda og taka með inn vísindi og tækni, nútímann og framtíðina og bera fram á skemmtilegan og áhugaverðan hátt.“

Það var lengi vel draumur Stefáns að búa í Tókýó.

„Það var reyndar konan mín sem gerði mér það kleyft. Hún er hálf japönsk en fædd þar og uppalinn og ákvað að fara í nám í Tókýó. Við pökkuðum því saman og fluttum frá Íslandi og til Japans eftir átta ár dvöl á Íslandi.

Ég hef verið með annan fótinn i Japan og á kafi í japanskri menningu í tíu ár og líður alltaf eins og ég sé kominn heim þegar ég kem til Japans.“

Allt flóknara en á Íslandi

Ætla þau hjón að búa í Japani til framtíðar?

Stefán segist ekki vita hvað bíði þeirra hjóna og hvar þau eigi eftir að búa í heiminum.

„Í fullkomnum heimi værum við sex mánuði hér og sex mánuði á Íslandi, það eru kostir og gallar við allt, en Japan er svo stór hluti af okkar lífi. Hér á ég vini og ég haldið sambandi við fósturfjölskylduna mína í öll þessi ár.

En eitt af því sem ég hef upplifað sem sjálfstætt starfandi leikari er að það er miklu auðveldara að fá styrki og aðstoð við að framkvæma hugmyndir á Íslandi og allt ferlið er mun einfaldara en í Japan.

Ég setti þrettán sinnum upp sýningu, Fyrirlestur um gervigreind, sem ég skrifaði árið 2020. Fyrst sýndi ég á Vestfjörðum og síðan í grunnskólum í Reykjavík núna í vor.“

Hann hefur nú þýtt verkið á ensku og er að fá aðila í að þýða yfir á japönsku.

Stefán í japönsku sviðsverki.

„Það tók tíma en ég er kominn með leikhús og er að leita að leikstjóra og leikurum. Á næsta ári fer ég síðan að skoða betur styrkjakerfið hér í Japan og gera mitt allra besta. Það þýðir ekkert að hringja eða gúggla, þetta er snúnara.“

En Tókýó er uppfull af tækifærum og möguleikum á svið leiklistar,“ segir Stefán Þór.

Lék nef

„Ég var mikill áhugamaður um japanskar hryllingsmyndir áður en ég kom endar eru margar þeirra viðbjóður, kóreskar myndir eru svipaðar, svolítið öðruvísi en það sem við eigum að venjast.“

Sjálfur hefur Stefán mest leikið á svið en er til að koma sér meira inn í japanska kvikmyndagerð.

„Mér finnst leikstíllinn sem er almennt í vinsælum japönskum myndum svo áhugaverður, þessi ýkti leikstíll. Hann er þó ekki í hryllingsmyndunum sem hafa mun vestrænna yfirbragð. Mig langar að komast að því af hverju þessi ýkti stíll er þetta vinsæll og læra meira um heim japanskra kvikmyndaleikara.“

Japanska fósturfjölskylda Stefáns sem hann heldur enn miklu sambandi við.

Stefán hefur nóg að gera, og í sífelldum prufum og verkefnum fyrir alls kyns verkefni, auglýsingar og tölvuleiki.

„Í einni auglýsingunni var ég til dæmis  klæddur sem nef fyrir eitthvað kvefmeðal. Þetta er daglegt brauð hérna, það má búast við hverju sem er í þessu bransa hér í Japan,“ segir Stefán Þór Þorgeirsson leikari og skellihlær.

Hér er að finna Instagram síðu hlaðvarps Stefáns Þórs, Heimsenda. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram