fbpx
Mánudagur 28.nóvember 2022
Fókus

Konráð Ragnarsson hefur barist við kerfið allt frá Breiðavíkurvistinni – „Ég hef hef náð að krækja í allt sem öfugt má kalla við venjulegt líf“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 20. nóvember 2022 09:37

Konráð Ragnarsson Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef lent í þessu alla ævi, að fara ekki eftir bókinni. En þannig er lífið, það er ekki hægt að fletta því upp í einhverri reglubók og því virðist ég alltaf lenda upp á móti kerfinu. Ég get bara ekki sagt já og amen við einhverri vitleysu,segir Konráð Ragnarsson.

Konráð hefur sjaldnast hlotnast að feta auðveldu leiðina í lífinu. 

Konráð Ragnarsson

Barnungur var hann sendur á hið alræmda upptökuheimili í Breiðavík þar sem hann var beittur andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi í eitt og hálft ár.  Hans stóri glæpur var búðarhnupl. 

Hann kom stórskemmdur frá Breiðavík, gjörsneyddur sjálfsvirðingingu, inn í samfélag sem vildi hann ekki. 

,,Þetta er bara mitt líf og hefur verið frá upphafi. Ég segi alltaf að það hafi fylgt mér sama svarta skýið því ég virðist alltaf lenda á botninum, segir Konráð og ypptir öxlum. ,,Þannig er það bara.“ 

Konráð átti erfitt með að fóta sig sem unglingur og stundum var drukkið og slegist. En það gekk yfir og Konráð menntaði sig í rafvirkjun, gifti sig um þrítugt og fluttist til Svíþjóðar þar sem hann stofnaði fjölskyldu. 

Konráð ungur með fjölskyldu sinni

Slysið

Árið 1979 varð Konráð varð fyrir slysaskoti við rjúpnaveiðar. Haglabyssuskot tættu á sundur á honum annan fótinn með skelfilegum afleiðingum. Síendurteknar sýkingar og opin og blæðandi sár urðu á endanum til þess að fóturinn var tekinn árið 2015.

Hann segir að það hafi verið hræðilegt. ,,Maður hafði svo lengi einhverja von og Svíþjóð var síðasti séns enda kominn með blýeitrun og á hækjur. En var eitthvað svo endanlegt þegar hann var tekinn.”

Konráð var vakandi þegar að fóturinn var tekinn og hvorki sá né fann neitt. En hann heyrði allt.

,,Ég vaknað með svo gríðarlega verki að ég gat ekkert annað en öskrað svo klukkustundum saman. Ég ætla ekki að segja þér hvað ég var kvalinn.  Aumingja hjúkkan var kófsveitt, hlaupandi að ná í lyf og reyna að ná í lækna og vesalings hinir sjúklingarnir þurftu að þola þetta org í mér. Það liðu tólf tímar þar til ég fékk loksins að sjá lækni og fékk mænudeyfingu,“ rifjar Konráð upp. 

Konráð á bíótímanum.

Fimmtán mínútna frægð

Konráð bjó í Þýskalandi áður en hann flutti heim í fyrra. Hann segir það hafa verið erfitt að fara frá Þýskalandi, þar hafi hann gekk átta til tíu kílómetra á dag enda gat hann þá enn gengið. ,,Sem er helvíti gott fyrir mann með gervifót,” bætir Konráð við.

Á árum áður var Konráð á fullu í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. ,,Ég átti mína fimmtán mínútna frægð á tímabili og hef sennilega tekið að mér 60 til 70 verkefni. Meðal annars vegna þess var ég svo ákveðinn í að ná venjulegu göngulagi og var því sífellt gangandi. Ég sakna þess mest af öllu að ganga, því fylgir svo mikil vellíðan að labba úti í ferska loftinu.“

Hann segir það hafa gengið það vel að fæstir hafi vitað að löppina vantaði. „Ég æfði stíft, meðal annars vegna þess að ég ætlaði aftur í kvikmyndirnar. En síðan hefur allt farið niður á við.“

Konráð Ragnarsson

Konráð segir það góða spurningu hvað hafi rekið hann heim.

„Það voru allir fluttir heim, ég á fimm börn og fjögur þeirra voru hér. Ég fékk loksins líka öryrkjaíbúðina sem ég hafði beðið eftir í fimm ár og þorði ekki annað en að grípa hana.“ 

Konráð segir lífið aftur á móti hafa verið hreint helvíti síðan. 

Stjórnlaus sársauki

„Ég missti besta vin minn rétt eftir að ég kom heim, nokkrum mánuðum seinna dó litli bróðir minn og mamma nokkrum mánuðum eftir það. Svo kom þessi ógeðslegi vetur, ég rifbeinsbrotnaði tvisvar og svo vaknaði ég einn morguninn og gat ekki gengið fyrir stjórnlausum sársauka.

Það eru um níu mánuðir síðan og ég hef ekki getað gengið síðan síðan. Enginn veit út af hverju.“

Sárið á fæti Konráðs. Hann er alltaf þjáður, aðeins mismikið.

Konráð þagnar og lítur út um gluggann.

,,Þetta var, og er, agalegur tími. Það var erfitt að sjá á eftir fólkinu sínu og bróðir minn og sonur hans fóru á sama hátt með árs millibili. Það eru ekki margir eftir í dag. Stundum áttar maður sig ekki á áföllunum og kannski er ég með, hvað er það aftur kallað, áfallastreituröskun? Ég veit það ekki.“

Aftur í steininn?

Ofan á allt hefur Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra gefið út handtökuskipun á hendur Konráði og honum gert að sitja inni í 8 daga á fangelsinu að Hólmsheiði. Ástæðan var sú að Konráð gat ekki getað staðið í skilum með greiðslu á sekt vegna umferðarlagabrots sem hann gat ekki greitt sökum fátæktar. 

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem hið opinbera eltir Konráð vegna vangoldinnar sektar en fyrir allnokkrum árum sat hann á Litla-Hrauni í viku vegna ógreiddrar sektar upp á 20 þúsund krónur. 

„Sólveig Péturdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að allir sem skulduðu ríkinu yrðu handteknir og fangelsin yfirfylltust. Ég var því svo óheppinn að lenda á Litla Hrauni sem mér datt aldrei í hug að gæti gerst vegna smásektar. Mér kom aldrei til hugar að ég myndi lenda inni með hættulegustu glæpamönnum landsins og þorði ekki að segja þar nokkrum manni fyrir hvað ég sæti inni.

Þarna voru menn á við Kio Briggs og Franklín Steiner, menn með langa dóma, morðingjar, nauðgarar og fíkniefnasalar.“ 

Allslaus og matarlaus

Konráð segir þessa viku hafa verið lífsreynslu. 

„Ég hefði hvergi fengið að kynnast annars staðar hvernig er að vera glæpamaður. Þetta var niðurlægjandi lífsreynsla og ég var alveg týndur þarna. Það var allt tekið af manni, líka lyfin því það má ekki einu sinni vera með panódíl þarna inni. Ég var enn með fótinn en þetta risastóra og kvalafulla sár og enginn áhugi fyrir að veita mér læknisaðstoð þar sem ég var of stutt inni.“ 

Konráð segist engar upplýsingar hafa fengið við komuna.

„Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að ég þyrfti að redda mér eigin sápu og handklæði og var að reyna að bjarga mér handklæði að láni, rennblautur. Ég var allslaus og matarlaus. Það var víst sjoppa þarna en enginn sagði mér frá henni enda var eins og gert væri ráð fyrir að maður væri bara á Hrauninu daglega.“ 

Konráð segir þetta hafa verið absúrd stöðu að vera í. 

„Kio Briggs var sá fyrsti sem ég hitti. Hann var í stuttbuxum, ber að ofan í öllu sínu veldi, að fá sér að borða í eldhúsinu og mér fannst ég vera staddur í heimildarmynd um bandarískt fangelsi. 

Það voru allir hræddir við hann inni. En ég man eftir því að það var landsleikur, Kio var að horfa á sjónvarpið, og enginn þorði að biðja hann um að skipta um rás. Ég gerði það nú samt og hann tók vel í það og horfði á leikinn með okkur. Þú vilt frekar vera vinur svona gæja en ekki í fangelsi og ég náði ágætis sambandi við hann.“

Lifi eða dey

Auk þess að vanta fótinn er Konráð með króníska verki, krabbamein, lungnaþembu, asma, vefjagigt og slitgigt og fylgi því endalaust pilluvesen, eins og hann orðar það. Hann fékk einnig sýkingu í munn og missti við það allar tennurnar. 

Hann hafnar þó allri krabbameinsmeðferð. „Ég vil ekki láta skera mig, ég vil ekki missa fleiri hluta af skrokknum eftir að hafa séð á eftir löppinni og tönnunum. Ég lifi eða dey en læt ekki gera eitt eða neitt enda nenni ég ekki að takast á við aukaverkanirnar.”

Konráð hefur farið á milli fjölda aðila í leit að aðstoð vegna verkjanna í fætinum en segir hjálpina vera alla í vikum og mánuðum.  

„Það er full vinna að standa í þessu enda hef ég ekki gert annað frá því ég kom heim. Ég er örugglega búinn að hitta um 40 eða 50 lækna og búinn að lenda í svo miklu veseni að ég er orðinn hálf ringlaður. Mér finnst eins og ég sé alltaf að fara aftur sama hringinn. Ég er á sama stað níu mánuðum eftir að þetta gerðist og það hefur í raun ekkert gerst.

Þetta er búið að vera svo mikið rugl,“ segir Konráð. 

Þekki týpuna

Hann á von á nýjum hjólastól á næstu dögum. „Ég var rifbeinbrotinn og þurfti hjólastól og einhver einstaklingur frá hinu opinbera, sem er fyrir löngu búinn að fá ógeð á vinnunni sinni, var sendur til mín. Ég þekkti nú reyndar strax týpuna, maður er kominn með það mikla reynslu, en sú átti að meta aðstæður mínar.“ 

Konráð var búinn að finna sjálfur þennan líka fína og netta hjólastól. „En hún sagði það taka fleiri mánuði en ég gæti fengið einn handknúinn. Ég benti henni vinsamlegast á að ég væri rifbeinsbrotinn og gæti ekki ýtt mér áfram.“ 

Konráð Ragnarsson

Konráð athugaði þá hjá Sjúkratryggingum. „Áður en ég vissi var þessu 250 kíló flykki hent hér inn, segir Konráð og bendir á fremur hrörlegan stólinn.  „Ég vissi ekkert hvernig hann virkaði eða hvernig ætti að stjórna honum og það var enginn til að hjálpa mér. Svona stóll er fínn út við en á alls ekki heima í íbúð eins og þessari,“  segir Konráð og bendir á dældir í íbúðinni.

„Þarna hefur hjólastólinn farið utan í. Og sjáðu þessa hrúgu? Þetta er allt dótið sem hefur brotnað og er dottið af stólnum.“ 

Konráð hringdi og sagði að þetta gengi ekki, stóllinn væri búinn að hálfeyðileggja glænýja íbúð sem hann þyrfti að borga fyrir skemmdir á. 

Honum var þá sagt að stóllinn hefði aldrei verið hugsaður til nota innanhúss en hugsanlega væri hægt að redda handknúnum stól. Aftur. Konráð leitaði því sjálfur til Stoð sem sagði að það væri nú lítið mál að redda hjólastól eins og Konráð helst vildi, það væru fjórir slíkir á lager. 

Þá fauk í Konráð við að heyra að það væri engin margra mánaða bið, nóg væri til. Hann fór því og prófaði stólinn, fékk alla pappíra og hringdi í hina sömu konu. 

„Hún varð frekar fúl og var enn að reyna að fá mig í handknúna stólinn en ég vildi minn stól. Það leið svo og beið og eftir rúman hálfan mánuð hringdi ég í Sjúkratryggingar til að spyrja hvort umsóknin væri nú ekki að koma. Þá hafði hún komið daginn áður.

Kellingin hafði beðið í hálfan mánuð með að senda einn tölvupóst þrátt fyrir að hafa allar nauðsynlegar upplýsingar. Og akkúrat þegar að beiðnin berst var Stoð nýbúið að afhenda síðasta stólinn af lager. Áttu til orð?,“ spyr Konráð og hristir höfuðið. 

„Fólk er að vinna fyrir sjúklinga sem þarf að þjást fyrir annaðhvort áhugaleysi eða heimsku eða ég veit ekki hvað.“ 

Konráð Ragnarsson

Einn af þessum

Konráð var sendur á verkjameðferðarstöð í Þýskalandi sem hann fékk loksins lyf sem hjálpuðu honum gríðarlega. „Það var reyndar pantaður tími fyrir mig í slíkt hér á landi fyrir ári en ég hef nú ekki heyrt frá neinum enn.“ 

En þetta ágæta lyf er ekki í boði á Íslandi.

„Og þá byrjaði vesenið, hvað átti að gefa mér í staðinn?  Ég fór á heilsugæsluna í Mjódd, þar sem ég hafði verið áður, en hafði verið svo lengi úti að flestir læknanna sem höfðu verið, og ég þekkti, voru hættir og þessir nýju þekktu mig ekki. Ég var með öll gögn frá Þýskalandi, sjúkraskrá og lyfjasögu, en lenti hjá lækni sem aldrei hafði hitt mig.“ 

„Ég fann að ég var strax stimplaður sem „einn af þessum.” Í stað þess að spyrja mig um hvað væri að mér og hvernig mér liði var bara litið á lyfjaskrána og svo á mig.

En við áttum, að því sem ég hélt, gott spjall en þegar ég fór að sækja lyfin stóðst ekkert. Ég kom á lækninn skilaboðum og sagði honum að kannski ætti hann að lesa aftur yfir læknaeiðinn sem hann tók á sínum  tíma.

Svo flutti ég mig yfir á heilsugæsluna í Efstaleiti.“ 

Kærði læknirinn

Þar tók ekki betra við. 

„Sú leit á gögnin, horfði svo á mig og spurði hvort ég héldi að ég gæti bara skipt um heilsugæslu til að verða mér úti um meira af lyfjum. Ég skyldi sko reyna þetta annars staðar.“ 

Konráð er augljóslega sár.

„Það sem hún lét ekki út úr sér!  Konan var að segja að ég væri dópisti í lyfjaleit án þess sem svo mikið að skoða mig. Ég starði bara á hana og spurði hvort það væri eitthvað að henni. Hugsaðu þér að koma svona fram við sjúkling.“

Konráð kærði lækninn fyrir yfirlækni stöðvarinnar. 

„Ég samþykkti að láta málið ekki fara til landlæknis ef að hún fengi áminningu og held að allir hafi heyrt af þessu máli því næsti heimilislæknir var eins og engill í framkomu við mig,“ segir Konráð og hlær. 

Hann verður aftur alvarlegur.

„Hugsaðu þér, maður fær þessar tuttugu mínútur hjá heimilislækni og hjá mér fer hver mínúta í rökræður um lyf. Hvað lyf skuli taka, hvað stóra skammta og svo framvegis. Ekki í að spyrja hvernig mér líði, hvort ég finni fyrir sársauka eða eins og maður myndi telja að viðtal við lækni eigi að fara fram.“ 

Konráð hefur haldið sýningar á ljósmyndum sínum.

„Mér hefur oft liðið eins og þessum tuttugum mínútum sem maður fær sé reynt í að koma í  veg fyrir að ég fái lyf. Ég er á sterkum lyfjum en þegar þú ert á sama stað og ég er með fótinn og krabbameinið og allt hitt eru næstum engin önnur lyf til en þessir blessuðu ópíóðar. 

Ég þekki þetta vel enda tekið mig sjálfur af slíkum lyfjum.

Það er sama hvað ég færi þessi fólki af vottorðum, þetta er endalaus barátta.“ 

Enga mennsku að finna

Konráð segir enga mennsku í kerfinu og fólk fatti það ekki fyrr en á reyni. 

„Margir fara þægilega í gegnum lífið og halda að allt sé best í heimi á Íslandi og við hamingjusamasta þjóð í heimi.  Svo rekst þetta sama fólk á vegg og skilur ekkert. Hér fúnkerar ekki neitt eins og í einhverju draumalandi nema síður sé.

Og ég hef hef náð að krækja í allt sem öfugt má kalla við venjulegt líf, alveg frá Breiðavíkurárunum.“ 

Konráð Ragnarsson

Konráð segist samt aldrei munu gefast upp. 

„Fólk heldur að það sé búið að afgreiða mig en það fólk þekkir mig ekki því ég kem alltaf hundrað prósent til baka. 

Ég hef mikla réttlætistilfinningu go þoli ekki að vera beittur óréttlæti sem þó er alltaf að gerast.“ 

Aldrei verkjalaus og með endalausar áhyggjur

Hann viðurkennir að eiga erfiðar stundir.

„Ég er mikið einn, hef einangrast, kannski út af því hvað ég var lengi úti en líka gæti spilað inn í að ég hef ekki verið mjög félagslyndur í gegnum tíðina. Ég finn ekki þessa þörf fyrir félagsskap sem margir hafa og er nægjusamur með sjálfum mér. Égget alveg verið einn, en auðvitað koma stundir sem mér finnst lítill tilgangur að standa í þessu því það batnar aldrei neitt.“

Ljómynd eftir Konráð

„Það er engin bara vonarglæta neins staðar. Það er helst ljósmyndunin sem hjálpar en ég hef lítið getað myndað út af fætinum. 

Ég er aldrei verkjalaus sem gerir þetta lyfjavesen að endalausu áhyggjuefni. Fæ ég lyfin mín eða kemur nýr stimpill. Hvað þarf ég að þola marga daga af óbærilegum kvölum í þetta skiptið?“ 

Ekki nógu þægur

Konráð segir að sennilega sé hann ekki nógu þægur.

„Ef þú ferð ekki eftir öllum leiðbeiningum ertu í veseni. Þú átt að hlýða og gera það sem yfirvöld segja þér. Mér er sífellt sagt í heilbrigðiskerfinu að ég sé með „mótþróa“  og því erfitt að gera „eitthvað fyrir mig,“ sem er illa dulin hótun.  Ég á að vera jákall. En ég er ekki nógu sniðugur og geri ekki það sem einhverjir aðrir, sem varla þekkja mig, vilja og þarf að borga fyrir það.

Mér finnst ég alltaf vera að bíða eftir einhverju, ég er alltaf á lista eftir einhverju.“ 

Konráð Ragnarsson

Konni sér ýmislegt, er næmur eins og það er kallað. Það kom fyrst í ljós þegar að hann lenti í bílslysi á barnsaldri og upplifði hluti sem ekki er unnt að skýra með góðu móti. 

„Það var mest á unglingsárunum en ég held í það. Það er fleira í kringum okkur og mamma var rosalega næm á það. Hún vildi það aftur á móti ekki og ýtti því frá sér. En ég hef aldrei gert það, mér líður vel með þetta þótt það sér erfitt að útskýra það. 

En þetta eru góðir og fallegir hlutir sem gefa mér mikið,“ segir Konráð Ragnarsson. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Af hverju er Meghan Markle hataðasta kona internetsins?

Af hverju er Meghan Markle hataðasta kona internetsins?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jói Fel og Bjössi í World Class rifjuðu upp gamla takta – Mögulega ástæða þess að enginn fór í bæinn

Jói Fel og Bjössi í World Class rifjuðu upp gamla takta – Mögulega ástæða þess að enginn fór í bæinn
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Tónlistin er líf mitt og ég hugsa um tónlist alla daga og mig dreymir um tónlist á næturnar“

„Tónlistin er líf mitt og ég hugsa um tónlist alla daga og mig dreymir um tónlist á næturnar“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kominn með nóg af orgíum og partýstandi

Kominn með nóg af orgíum og partýstandi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Listafólk lét í sér heyra í Kringlunni í tilefni af Þitt nafn bjargar lífi

Listafólk lét í sér heyra í Kringlunni í tilefni af Þitt nafn bjargar lífi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Allt sem þú þarft að vita um dularfullu konuna á nýju myndinni hans Kleina

Allt sem þú þarft að vita um dularfullu konuna á nýju myndinni hans Kleina