fbpx
Miðvikudagur 22.maí 2024
Fókus

Silja Björk er geðveik og óhrædd við að nota það orð – „Ég var farin að upplifa mig sem svo mikla byrði og úrhrak að sjálfsvíg virtist eina lausnin“ 

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 15. október 2022 08:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Morguninn eftir að Íslendingar fögnuðu þjóðhátíðardeginum árið 2013 ákvað Silja Björk Björnsdóttir, þá nýlega 21 árs, að binda enda á líf sitt. Hún hafði þá verið þjökuð af þunglyndi til margra ára en þennan júnídag gat hún ekki meira. Vonleysið var algjört. 

„Ég er geðveik og er persónulega alveg óhrædd við að nota það orð. Ég veit að það er ekki allir á sama máli en ég er er veik á geði, flóknara er það nú ekki,“ segir Silja Björk, sem meðal annars er rithöfundur, fyrirlesari og aktivisti.

Silja Björk 4 ára.

Henni tókst sem betur fer ekki ætlunarverk sitt þennan sólríka júnídag og hefur nú í tæpan áratug látið mikið að sér kveða í málefnum geðsjúkra. 

Held að ég sé fædd svona

Silja Björk er fædd og uppalin á Akureyri. „Það var æðislegt að alast upp hérna og ég átti mjög góða æsku. En þegar ég horfi til baka í dag held ég að ég hafi alltaf verið þunglynd, verið fædd svona og alltaf haft þetta í mér. Ég átti erfitt með skapið og alla breytingar fóru mjög illa í mig því ég var vanaföst og vildi halda fast í allar hefðir. Það er reyndar alveg gert stólpagrín að því í fjölskyldunni.“

Silja Björk rifjar upp að þegar hún var barn hafi fjölskyldan alltaf verið hjá ömmu hennar og afar um jólin. „Það var alltaf sami maturinn, sömu lögin og sama dagskráin. En ein jólin, ætli ég hafi ekki verið um átta ára, var amma með flensu og við því heima. Og ég er í fýlu á hverri einustu mynd frá þessum jólum af því að hlutirnir voru öðruvísi,“ segir Silja Björk og hlær.

Bílslysið

Silja Björk segir vitað að geðsjúkdómar og geðrænar áskoranir erfist. „Þetta er að sumu leiti í genamenginu á okkur og algengara í sumum fjölskyldum en öðrum. Ég held mikið fyrirlestra í skólum og segi þá við krakkana að þau geti fæðst með þessa tendensa, inn í fjölskyldu með sögu af einhvers konar geðveiki, eða það þýði ekki endilega að þau muni veikjast. Það er svo margt sem spilar inn í.“

Silja Björk lenti í bílslysi þegar hún var sautján ára, árið 2009, og það var fyrsta stóra áfallið í hennar lífi. „Ég hafði aldrei beinbrotnað, aldrei farið í jarðarför, pabbi og mamma ennþá saman og mér gekk vel í Menntaskólanum á Akureyri. Það var ekkert „gerst“ í mínu lífi fyrr en ég lenti í þessu bílslysi sem kveikti á mínum þunglyndisrofa.“ 

Silja Björk með Tinnu vinkonu sinni árið örlagaríka 2013.

Silja Björk fékk áfallastreituröskun, sem var reyndar ekki greind í mörg ár, og hófst þarna sá spírall sem hún var í allt til ársins 2013 þegar hún reyndi að taka eigið líf og fór á geðdeild. 

Gen, uppeldi og umhverfi

„Ég man í raun ekki eftir lífinu án þess að vera þunglynd og verkjuð eftir bílslysið. Auðvitað hafa komið mismunandi tímabil og ég hef sem betur fer aldrei farið aftur á þann stað að vilja deyja en ég líka meðvituð um það að þetta er partur af mér og hvernig ég er víruð saman.

Ég hef þurft að læra að lifa með því alveg eins og að vera ljóshærð og fá freknur á sumrin. Þetta er bara partur af því hvernig ég er.“

Silja Björk segist trúað því að gen, uppeldi og umhverfi spili saman. „Og í minu tilfelli gerðist eitthvað sem ég réði ekki við, líkt og með marga aðra sjúkdóma. Ég trúi því fyllilega að ef ég hefði ekki lent í þessu bílslysi hefði eitthvað annað gerst til að kveikja á þessari þunglyndislægð.“

Skil lífið betur

Á næsta ári er kominn áratugur frá því að Silja Björk byrjaði fyrst að tala um þessi mál á opinberum vettvangi og segist hún vera ótrúlega þakklát fyrir að hafa gengið í gegnum þessa lífsreynslu.

„Ég skil sjálfa mig betur, ég skil annað fólk betur, og ég skil lífið og blæbrigði tilverunnar betur sem hefur fært mér miklu meira en tekið af mér. Ég er ekki trúuð en kýs að líta svo á að allt gerist af einhverri ástæðu og að manni séu gefin þau spil sem maður getur dílað við.“ 

En Silja Börk hefur ekki alltaf hugsað hlutina á þennan hátt. 

Silja Björk átti góða æsku og unglingsár.

„Við höfum talað um geðheilsu, geðsjúkdóma og geðrænar áskoranir á svo ótrúlega niðurnjörvaðan og takmarkaðan hátt í gegnum árin. Annaðhvort varstu vitstola og froðufellandi í spennitreyju inni á stofnun eða ekki. Og það er ekki svo langt síðan að umræðan var svona. Bara þegar að ég veiktist, árið 2009, var þetta ennþá orðfærið og lenskan að þetta væri eitthvað skrýtið og það var slúðrað um fólk sem var hjá sálfræðingi.“  

Veikindi eru allskonar

Hún er þakklát fyrir að orðalagið sé farið að breytast. „Ef þú hugsað um það þá erum við öll með líkama og vitum að við munum einhvern tíma verða veik. Það er óumflýjanlegur partur af því að vera manneskja að fá kvef, detta og brjóta sig sig eða fá Covid þess vegna. Öll verðum við veik á einhverjum tímapunkti. Við erum með geð, við erum með heila, og af hverju er þá ekki jafn sjálfsagt að við munum á einhverjum tímapunkti þurfa að eiga við einhvers konar geðveikindi? Einhvers konar heilsubrest á okkar geðheilsu?“

Inneign fyrir geðveiki

Silja Björk segir að þegar að hún hafi veikst hafi verið rosalegir fordómar. 

„Eru ekki allir með einhverjar greiningar?” og „Eru ekki allir á einhverjum lyfjum?” var eitthvað sem oft heyrðist. Þetta voru fordómarnir sem við ólumst upp við og væri einhver í skólanum hjá sálfræðingi þótti það furðulegt og það var slúðrað um viðkomandi. Eftir á að hyggja finnst mér að fólk hafi þurft að eiga inneign fyrir því að mega vera geðveikt.“

Silja Björk útskýrir hvað hún á við.

„Ef þú hafðir lent í einhverju skelfilegu áfalli, misst foreldri eða orðið fyrri ofbeldi, þá var það nógu „hræðilegt“ til að fólk sýndi skilning, til dæmis þeim sem voru hjá sálfræðingi. En það var samt sem áður ákveðið tabú og slúðrað um fólk.  Ég lenti til dæmis í áfalli en fólki fannst það ekki „nógu mikið áfall“. Það dó enginn í slysinu, ég braut engin bein og eftir tvær vikur voru allir hættir að tala um þetta. Samfélagið gerði þá þær kröfur til mín að ég myndi komast yfir þetta. Sem ég gerði ekki.“

Bara efnileg stelpa

Móðir Silju Bjarkar sá að henni leið ekki vel og kom henni til geðlæknis þremur vikum eftir slysið. 

„Hann sagði að ég væri bara ung og efnileg stelpa, klár og með fínar einkunnir, og þetta myndi nú bara jafna sig. Svo ætti ég að muna að keyra ekki undir áhrifum áfengis en reyndar var það strákurinn sem keyrði sem var undir áhrifum en ekki ég. 

Það sama var sagt um líkamlegu verkina, þeir myndu nú aldeilis hverfa en hér erum við fjórtán árum seinna og þeir eru enn til staðar. 

Processed with VSCO with s3 preset

Svo ég tók því bara þannig að þetta ætti að jafna sig en það gerðist bara ekki.“ 

Árið 2012 var Silja Björk orðin mjög slæm og búin að vera allan tímann á niðurleið frá slysinu. „Mér leið verr og verr og varð alltaf veikari og veikari. Ég fór frá því að vera stjörnunemandi með toppeinkunnir í að skila ekki verkefnum og mæta aldrei í skólann. Ég hafði enga orku, þrek eða vilja og fannst ekkert skipta máli.

Og þegar maður er með svona rosalegt þunglyndi fær maður bara rörasýn og skynjar ekki neitt nema sársauka. Maður hættir að finna fyrir öllu nema sorg, depurð og ömurlegheitum.“ 

Lygaboltar á lofti

Allir virtust vera að leita skýringa sem Silja Björk gat ekki gefið. Af hverju leið henni svona? Hún sem ætti góða fjölskyldu, væri í skóla og skorti ekki neitt? 

„Sem er eins og neita að einhver geti verið með lungnakrabbamein sem aldrei hefur reykt eða að enginn geti fengið tannpínu sem burstar í sér tennurnar. Þetta er svo fáránlegt.“ 

Silja Björk var á þessum tímapunkti búin að missa allan metnað og reyndi að halda alls kyns lygaboltum á lofti.

„Ég reyndi að ljúga um af hverju ég væri ekki að mæta í skólann, sinna vinum mínum og gera hitt og þetta, allt til að fela hvað mér liði illa. Þetta endaði með að ég fór í þrot og lá bara í rúminu heima hjá þáverandi kærastanum mínum og gat ekki hreyft mig. Fólk var búið að nefna það á þessum þremur, fjórum árum að ég þyrfti að leita að mér hjálpar en ég bara neitaði því á þessum árum vildi ég ekki að neinn vissi að eitthvað væri að eða að ég þyrfti hjálp.“ 

Kærastinn sagðist ekki geta horft upp á hana svona lengur og brotnaði Silja Björk saman og bað hann um að panta fyrir sig tíma því henni liði hræðilega og vissi ekkert hvað skyldi gera. 

Flaug of nærri sólinni

„Ég fór til sálfræðings í árslok 2012 og var hjá henni í um það bil 4-5 mánuði. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór í einhvers konar sálfræðimeðferð og ég fór í hugræna atferlismeðferð og samtalsmeðferð. Ég brást mjög vel við meðferðinni og var útskrifuð um vorið 2013.

Og þá flaug ég aðeins of nærri sólinni.“

Silja Björk segist hafa fundið fyrir svo miklum létt og vellíðan. „Ég sá lífið í alveg nýju ljósi og mundi ekki eftir að hafa verið svona hamingjusöm. Þá fór ég að byrja sem aktivísti, opna á umræðuna, tala um þetta, fara í skóla og birta greinar.“ 

Ólétt og hamingjusöm.

Silja Björk birti fyrstu grein sína, Þunglyndi er líka sjúkdómur, árið 2013 og fannst henni þungu fargi af sér létt. „Þá fór boltinn aðeins að rúlla því með því var verið að opna á þetta á annan hátt en áður hafði verið gert. Ég var ung og efnileg stelpa að opna sig um að vera með þunglyndi og að við værum ekki aumingjar heldur væri þetta sjúkdómur sem þyrfti að ræða á nýjan hátt. Áður fyrr hafði umræðan verið klínískari og kannski frekar eldra fólk sem ræddi þessi mál.

Silfja Björk og Úlfar Orri sonur hennar.

Ég held líka að internetið hafi hjálpað við að koma að koma umræðunni af stað með  sínum samfélagsmiðlum og dreifingu. Allt í einu er ég farin að fá heljar mikla athygli, mér leið mjög vel, fólk var að hringja í mig og senda skilaboð og ég farin að fara í skóla og tala við krakka og kennara um fordóma í garð geðsjúkra og fræða fólk um þunglyndi. Ég hugsaði bara að hér væri tækifæri á að fylla upp í eitthvað gat, hvað hefði ég sjálf viljað vita um geðveiki þegar ég var unglingur? Fræðsla er nefnilega okkar öflugasta tæki gegn fordómum.“ 

Þunglyndiskýið kemur aftur

Í sumarbyrjun 2013 fór Silja Björk til London sem au pair. „Ég fann fyrir svo mikilli pressu eftir menntaskólann, það áttu öll að vera að gera eitthvað geggjað! Ég fór þarna út sem au pair og það gekk hræðilega illa og var langt frá því sem ég hafði ímyndað mér þar sem ekki var staðið við það sem hafði verið lofað. Mér fór að líða illa, fékk kvíðaköst og fann að þunglyndisskýið var að leggjast yfir mig aftur. Þá fannst mér ég vera svo misheppnuð eftir að hafa fundist ég læknuð og barasta komin á fullt í aktivísma. 

Og svo var þetta komið aftur, eftir svona stuttan tíma.“

Silja Björk spurði sjálfa sig hvort þetta ætti alltaf eftir að vera svona. „Átti ég alltaf eftir að vera með þessar massasveiflur? Átti mér alltaf eftir að líða illa? Hvers virði var lífið ef ég þurfti alltaf að horfa í spegilinn og langa ekki til að vera til?“

Hún flutti því heim frá London og á sama tíma slitnaði upp úr sambandi hennar við kærastann.

„Og það var í raun naglinn í kistuna. Ég var nýútskrifuð, átti enga peninga, draumurinn um lífið í London hafði ekki orðið að neinu og mér fannst ég misheppnuð og ómöguleg. Og þá ýfðust öll gömlu sárin upp og ég upplifði svo mikið vonleysi því ég hélt að þetta yrði alltaf svona og mér myndi aldrei líða betur.“ 

Dagurinn sem allt átti að enda 

Silja Björk kom heim um miðjan júní 2013 og fór í eins ár útskriftarafmælið sitt. Enginn vissi hvað á gekk innra með henni, hvað henni leið hræðilega illa og að hún væri í raun búin að ákveða að þetta væru hennar síðustu stundir hér á jörð.

„Ég gat ekki meira og ætlaði mér frá að hverfa. Ég vaknaði að morgni 18. júní, mamma, pabbi og litla systir mín voru farin í vinnuna, og ég vissi að ég gæti ekki meira.“

Silja Björk fór í lyfjaskáp heimilisins og tók allar töflur sem þar var að finna. Hún fann líkjör í vínskápnum sem hún svo drakk og skrifaði svo kveðjubréf í tölvunni. Hún var ákveðin í að binda enda á allt.

„Þetta var svo klikkað. Ég fór svo að gúggla hvernig ætti að binda hnút á snöru en það var ekki til neitt annað en svona grænt þvottasnúruband sem er á mörgum heimilum. Þetta var óskaplega aumingjalegt reipi en ég náði að binda einhvern hnút og festa það í loftljósið í mínu gamla barnaherbergi.“

Hún var tilbúin að fara. 

Upplifði mig sem úrhrak

„Þegar heilinn á þér er kominn á þann stað, er orðinn það bilaður, að þú ert sannfærð um að þetta sé eina leiðin út úr sársaukanum ertu jú vissulega að hugsa um að enda eigin sársauka. En þú ert fyrst og fremst að hugsa um að lina þjáningar allra annarra í kringum þig. 

Ég var farin að upplifa mig sem svo mikla byrði og svo mikið úrhrak að þetta virtist eina lausnin.“ 

Silja Björk segir að umræðan hafi vissulega breyst í gegnum árin en lengi vel hafi alltaf verið talað um hversu sjálfsvíg væru mikil sjálfselska. „Þetta hefur alltaf farið í taugarnar á mér. Vissulega var ég að hugsa um sjálfa mig og að lina eigin þjáningar. En þótt það sé fullkomlega órökrétt, þá trúði ég því af öllu hjarta að mamma og pabbi myndu koma heim úr vinnunni og hugsa að nú vær ég komin á betri stað. Nú væri þetta búið og engin ástæða til að hafa áhyggjur af Silju lengur.

Ég trúði þessu í fyllstu alvöru sem sýnir hvað ég var komin á ömurlegan stað og í algjört þrot.“

Illa úthugsað plan

Hún segist óska þess að eiga fallega sögu um að hafa hætt við því hún hafi hugsað til mömmu og pabba og hvað fólkinu hennar myndi líða illa. Eða að ákvörðunin væri röng og það væri að finna von um bata eða eitthvað í þá áttina. En það var ekki þannig. 

„Það sem fékk mig raunverulega til að hætta við var að mér fannst þetta ekki nógu vel úthugsað og eitthvað svo misheppnað allt saman. Hvað ef ég myndi detta úr þessari lélegu snöru og fá mænuskaða? Eða hafði ég tekið svo asnalega mikið magn af lyfjum að ég myndi ekki deyja en eyðileggja nýrun og þurfa að eyða ævinni í vél?“

Daginn eftir að skólasysturnar fögnuðu eins ár útskriftarafmæli reyndi Silja Björk að fremja sjálfsvíg.

 „Mér fannst skipulagningin ekki nógu góð og panikkaði og hringdi í bestu vinkonu mína, sem einmitt var að vonast eftir að við færum í sund og ís þennan sólríka júnídag.“ 

En Silja Björk var ekki hringja eftir sundi og ís og vinkona hennar hringdi á neyðarlínuna og brunaði til hennar. Sjúkrabíll fór með hana á spítala og eiturefnin voru hreinsuð úr úr henni. Silja Björk rankaði við sér á gjörgæslu morguninn eftir og var móðir hennar við hlið hennar. Spurði dóttur sína eðlilega hvað hefði gerst og hvort hún væri tilbúin að koma heim.

Hótaði að stökkva út í Glerá

„Ég man að ég horfði út um gluggann því ég gat ekki horft framan í hana og sagði við mömmu að ef hún færi með mig heim stykki ég út í Glerá. Ég vildi ekki vera til, lífið væri ekki þess virði. Mamma brotnaði niður og hágrét og þá var tekin sú ákvörðun að leggja mig inn á geðdeild.“ 

Silja Björk var, að hún heldur, í um viku á geðdeildinni en þessir dagar eru í hálfgerðri þokumóðu. „Ég fékk að tala við geðlækni kannski tvisvar, ég fékk að tala við sálfræðinginn minn einu sinni og ég talaði líka einu sinni við einhvern félagsráðgjafa. Annars var þetta bara geymslupláss. Og í gegnum mín störf og minn aktivisma síðustu tíu ár þá veit ég að þetta er alltaf rauði þráðurinn í heilbrigðiskerfinu. Kerfið er handónýtt.“ 

Silja Björk flutti erindi á Mannauðsdeginum 2021.

Innantóm loforð

Hún segir alla vita að heilbrigðiskerfið á Íslandi sé að springa og geðheilbrigðiskerfið löngu ónýtt. „Það er ekki geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi að þakka að ég er á lífi í dag, ég meina ég var send heim án lyfseðils og án tíma hjá sálfræðingi, aðeins með innantóm loforð frá þessum geðlækni sem var engan veginn starfi sínu vaxinn.  

Það eina sem bjargaði mér var að búa hjá mömmu og pabba sem vöktuðu mig.“

Það var fjölskyldan og vinirnir sem gerðu dagana smám saman léttbærari fyrir Silju Björk. 

„Ég fór þrjá daga í röð í apótek að sækja lyf sem mér hafði verið lofað en aldrei komu og beið í sex mánuði eftir að komast að hjá sálfræðinginum mínum.“ Þá kom í ljós að hún hafði aldrei fengið beiðnina sem átti að senda á hana. 

„Maður lendir alls staðar á milli.“  

Silja Björk með Ísaki manni sínum fagna í brúðkaupi vinahjóna.

Peningar, alltaf peningar

Silja Björk segir samfélagið sé búið að taka stökkbreytingum frá því að hún veiktist, ekki síst eftir TED fyrirlesturinn sem hún hélt árið 2014 og „Ég er ekki tabú“  átakið sem hún var með 2015.  „Í hvert skipti sem ég potaði í umræðuna fóru fleiri af stað.“ 

„Ég sat einnig í stjórn Geðhjálpar í tvö ár og fyrir þeirra hönd í velferðarnefnd Alþingis. Og ég get sagt þér nákvæmlega hvar þetta stoppar. Þetta stoppar út af peningum. Það er svo mikið af fólki sem er fullt af vilja gert og er að berjast, bæði í grasrótinni og stærri samtökum. Og það eru endalausir fundir með teymum, læknum, nefndum meira að segja ráðherrum og ég veit ekki hvað og hvað. 

Og allt stoppar þetta út af peningum.“

Silja Björk með Úlfari Orra syni sínum.

Táraðist en allt svikið 

Silju Björk hitnar í hamsi við að ræða hvernig staðið er að málum og ástríða hennar fyrir málaflokknum augljós. 

„Ég hef nú ekki margt fallegt um núverandi ríkisstjórn að segja en að það sé búið að lofa upp í ermina á sér í tvö ár að það eigi að niðurgreiða sálfræðiþjónustu án þess að við það sé staðið er skammarlegt. 

Ég man að ég táraðist við að sjá fyrirsagnir í blöðum að það ætti að niðurgreiða sálfræðiþjónustu eftir Covid en það hefur ekkert gerst. Þetta ætti ekki einu sinni að vera til umræðu því við vitum vel af auknu þunglyndi, sjálfsvígum og fleiru sem kom upp í kringum Covid og hvað er gert? Ekkert.“ 

Kulnun er ekki ketó

Hún segir margar hliðar á málinu. 

„Svo er það umræðan um að það sé alltof margt fólk á bótum en stærsti hópur öryrkja á Ísland á aldrinum 18 til 25 ára eru það vegna geðrænna vandamála. 

Kulnun er líka annað sem maður heyrir alla tala um um í dag. Kulnun er ekki ketómatarræði eða slíkt tískufyrirbæri.  Þetta er svo fáránlegt að auðvitað verður maður svekktur. Við erum að drepast úr geðveiki sem gerir það að verkum að líkamlegu heilsunni okkar fer hrakandi.“ 

Silja Björk segist vita mæta vel að það muni kosta ríkið marga milljarða að greiða niður sálfræðiþjónustu í nokkur ár. 

„En þessir fjármunir munu skila sér til baka inn í íslenska hagkerfið því við munum losna við fólk af atvinnuleysisbótum, örorkubótum, sjúkratryggingarlífeyri og endurhæfingu og byggja upp bjartara, betra og heilbrigðara samfélag sem mun skila sér. En það er eins og það sé enginn vilji fyrir hendi.“ 

Þetta er bara ég

Silja Björk er á góðum stað í dag og í bata en það hafa komið tímabil sem hún hefur veikst í nokkrar vikur í senn.  

„Auðvitað er eitthvað samhangandi í mínu genamengi og umhverfi sem veldur því að ég fæ þunglyndi en vitneskjan um það gerði allt auðveldara. Það er mín persónulega skoðun að ég muni aldrei „læknast“ af því en það er partur af mér sem ég þarf að lifa með. Þetta er bara ég.“ 

Silja Björk vill benda fólki og foreldrum á að í dag séu mun fleiri úrræði en hún og foreldrar hennar höfðu kost á á sínum tíma, eins og sjá má hér neðst. 

„Ég segi alltaf krökkunum sem ég tala við að það sé margt í boði, líka með nafnleynd, og þau eigi aldrei að hika að leita eftir hjálp líði þeim illa. Og séu foreldrar með áhyggjur af börnum sínum eiga þau strax að leita til fagaðila því það er svo margt í boði í dag. 

Og auðvitað er það um fram allt ást, skilningur og umhyggja sem sameina okkur og uppræta fordóma,“  bætir Silja Björk Björnsdóttir, aktivisti með meiru, við í blálokin.   

TED fyrirlestur Silju Bjarkar hefur nú fengið 217 þúsund áhorf. Hann má sjá hér

Það má finna upplýsingar, greinar og viðtöl heimasíðu Silju Bjarkar auk þess sem hún fjallar um málefni geðsjúkra á samfélagsmiðlum undir @siljabjorkk

Hér má sjá lista yfir marga af þeim aðilum sem unnt er að leita til vegna geðheilbrigðismála.

  • Bergið Headspace
  • Píeta samtökin
  • Hugarafl
  • Bataskólinn
  • Hlutverkasetur
  • Okkar heimur
  • Sími Rauða Krossins 1717
  • Heilsugæslustöðvar
  • Skólasálfræðingar / skólahjúkrunarfræðingar 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hefur Kristján snúið baki við Höllu Hrund? – Allar vísurnar horfnar

Hefur Kristján snúið baki við Höllu Hrund? – Allar vísurnar horfnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bessastaða bjargvættirnir – Ofurkraftarnir sem forsetaframbjóðendurnir vilja hafa

Bessastaða bjargvættirnir – Ofurkraftarnir sem forsetaframbjóðendurnir vilja hafa
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta er aldurinn sem við hættum að meðtaka nýja tónlist

Þetta er aldurinn sem við hættum að meðtaka nýja tónlist
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tilfinningaþrungið lag Taylor Swift hljómar yfir sögu Lily – Sjáðu stikluna úr It Ends with Us

Tilfinningaþrungið lag Taylor Swift hljómar yfir sögu Lily – Sjáðu stikluna úr It Ends with Us