fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Auðunn kveður orðróminn í kútinn – „Ég hef ekkert um þetta fólk að segja. Ég vil því bara vel“

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 5. júlí 2022 10:00

Auðunn Lúthersson. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Auðunn Lúthersson, betur þekktur undir listamannsnafninu Auður, hefur tekið skref í átt að sviðsljósinu að nýju. Hann er aftur byrjaður að semja tónlist og syngja, og er búinn að koma fram á minni viðburðum að undanförnu.

Auðunn hefur verið í mikilli sjálfsvinnu undanfarið ár en hann hefur opinberlega gengist við því að hafa farið yfir mörk í samskiptum við konur bæði í yfirlýsingu síðasta sumar og í viðtali hjá Stöð 2 í vor. Í viðtalinu kom fram að hann hafi náð sáttum við konu sem steig fram þegar málið hans kom upp. Hann veitti Stöð 2 viðtalið með leyfi þessarar konu.

Nú vill hann loka ákveðnum kafla í lífi sínu og hefja nýjan þó hann sé ennþá ósáttur við ósannar sögur um þöggunarsamninga og einbeittan brotavilja. Þá tekur hann fram að hann hafi aldrei verið kærður eða ákærður.

Auðveldara að dreifa lygum en að leiðrétta þær

Þessar sögusagnir fóru í dreifingu á samfélagsmiðlunum Twitter, Instagram, Facebook og TikTok þar sem nafngreindir aðilar fullyrtu að Auðunn hefði látið gera slíka samninga. Síðan tóku fjölmiðlar við og vísuðu í orðróma á samfélagsmiðlum. Vísir, Mbl, DV, Rás 1, Reykjavík Grapevine og Mannlíf fjölluðu öll um þessa meintu þöggunarsamninga. Enn hefur hins vegar ekki einn einasti slíki samningur litið dagsins ljós.

„Auðvitað ekki. Því þeir eru ekki til,“ segir Auðunn.

„Þessi orðrómur var orðinn mjög hávær áður en nokkur einasta manneskja tjáði sig um sína persónulegu reynslu af mér. Þetta setti tóninn og litaði alla umræðu í kjölfarið. Allt sem ég hafði gert og sagt var skoðað í þessu samhengi,“ segir hann.

Honum finnst afar lítil umfjöllun hafa verið um að þessar sögusagnir hefðu verið uppspuni samanborið við þá umfjöllun sem gaf sögusögnunum vængi á sínum tíma.

„Mér finnst bara rétt að ég fái að kveða þetta algjörlega í kútinn. Það var mikið fjallað um þetta á sínum tíma en lítið sem ekkert hefur farið fyrir umfjöllun um að þetta sé kolrangt,“ segir Auðunn.

Hann áttar sig þó líka á því að það er auðveldara að búa dreifa lygum og búa til upplýsingaóreiðu en það er að leiðrétta rangfærslur.

Auðunn Lúthersson. Mynd/Ernir

Þrýstingur á fjölmiðla

Orðrómur um að einhver hafi ekki aðeins brotið á ólögráða stúlkum heldur þvingað þær til að skrifa undir þöggunarsamning er til þess gerður að fólk upplifi að viðkomandi hafi mjög einbeittan brotavilja.

„Og ekki bara það heldur gefur það líka í skyn að það sé hópur af ólögráða stúlkum sem geta ekki tjáð sig og megi ekki tjá sig. Það býr til sterka kröfu á þá sem heyra af þessum orðrómi að láta í sér heyra, þrýsti á mig að tjá mig um sögusagnirnar og þrýsti á fjölmiðla að fjalla um þær því viðkomandi aðilar halda að þeir séu að berjast fyrir því að ljóstrað sé upp um glæpsamlegt athæfi, sem þó átti sér aldrei stað.“

Hann heyrði fyrst af þessum orðrómi í gegn um umboðsmann sinn, Steinunni Camillu, og fór hann þá að gúggla hvað væri eiginlega verið að tala um.

„Ég hafði aldrei heyrt um svona samninga eða út á hvað þeir gengu. Ég þurfti að skilja hvað væri verið að ásaka mig um. Ég hef aldrei og myndi aldrei gera neitt svona,“ segir hann.

Særandi og ljótt

Auðunn tekur skýrt fram að sjálfur hafi hann gert fullt af mistökum um ævina. „En legg mig fram við að læra af þeim, gera betur og bæta fyrir þau.“

Enn í dag veit Auðunn ekki hver er rót sögusagnanna. Hann veit bara hverjir dreifðu þeim.

Hvernig hugsar þú til þessa fólks?

„Mig langar að trúa því að þetta sé velviljað fólk sem var með rangar upplýsingar í höndunum. Þegar fólk dreifir svona lygi, beint eða óbeint, á netinu eða manna á milli, þá er það auðvitað að gera mistök. Kannski gerir það sér ekki grein fyrir hversu særandi og ljótt þetta er fyrir þann sem talað er um. Ég myndi líka halda að það væri skaðlegt fyrir mikilvægan málstað að gefa ósönnum orðrómi einhverja vigt. Ég hef ekkert um þetta fólk að segja. Ég vil því bara vel.“

Finnur fyrir stuðningi

Nýir tímar eru framundan hjá Auðuni. „Mig langar bara að vera betri maður en ég var í gær.“

Hann er þakklátur fyrir að vera byrjaður að gera aftur það sem hann elskar, að semja og syngja. „Mér þykir ótrúlega vænt um að fá að spila og syngja fyrir fólk, að fólk sé tilbúið til að leyfa mér það. Ég finn heilt yfir fyrir miklum stuðningi. Ég vil einbeita mér að því að vera góður við fólkið í kring um mig. Ég vil lifa í kærleika.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar