fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Halldóra lá í hnipri af vanlíðan og vissi ekki af hverju: ,,Af hverju var enginn búinn að segja mér þetta?“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 20. mars 2022 09:00

Halldóra Skúladóttir Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Mig langaði ekki að lifa en mig langaði ekki heldur til að deyja. Þetta er bara svarthol, kvíði, depurð og vanlíðan yfir engu en samt öllu. Og ég hafði enga ástæðu. Börnin mín voru öll á frábærum stað, lítið barnabarn væntanlegt og við bjuggum í þessum dásamlega umhverfi,” segir Halldóra Skúladóttir sem hefur í yfir 20 ár hjálpað fólki að vinna sig í átt að betri líðan. 

Halldóra, sem er 49 ára,  rekur vefinn www.kvennarad.is sem meðal annars aðstoðar konur við að fræðast og komast í gegnum breytingaskeiðið, sem hún segir að stórum hluta enn vera í torfkofunum hvað varðar umræðu, fræðslu og skilning.

Fjölskyldan naut þess að fara til Bretlands úr íslenska stressinu.

Létum vaða

,,Við Maríus, eiginmaður minn, fluttum til Bretlands árið 2015 og vorum þar í fjögur ár og fluttum þaðan til Þýskalands og bjuggum þar í tvö og hálft ár. Við komum aftur heim núna í janúar. Upphaflega fórum við út því okkur langaði að breyta til. Við höfðum verið saman frá því hann ég var 18 ára og hann 21 árs, byrjuðum að hella okkur út í barneignir og áttum fjórar dætur þegar ég var 28 ára. Það var einhvern vegin aldrei rétti tíminn. En árið 2015 létum við verða að því að flytja út með yngstu dóttur okkar sem þá var 14 ára. Maðurinn minn er flugvirki, hann fékk starf hjá flugfélagi í Bretlandi, og fljótlega fylgdu tvítugar tvíburardætur okkar út til okkar.”

Halldóra segir að eftir á séð sjái hún hvað það hafi verið nauðsynlegt að komast úr íslenska streitumynstrinu og akkúrat sem þau þurftu á halda, þótt þau hafi kannski ekki gert sér grein fyrir því þá.. ,,Auðvitað er svolítið drastískt að flytja úr landinu en það er annar og mannlegri taktur úti. Þú færð að vera sá sem þú ert í mannflórunni, það er enginn að spá í þér.” 

Blússandi sveitarómantík

Eftir fjögur ár í Bretlandi ákváðu hjónin að flytja til Þýskalands árið 2019.  ,,Yngsta dóttir okkar var að byrja í háskóla í Bretlandi og þær eldri komnar með sitt líf. Hugmyndin var afskaplega rómantísk.

Komin til Þýskalands.

Við bjuggum í Móseldalnum, með vínekrur allt í kring þar sem áin liðast hægt og rólega rétt við heimili manns. Við vorum í fimm þúsund manna þorpi og á leiðinni í bæinn voru litlir staðir þar sem hægt var að setjast niður og fá sér hvítvínsglas. Hugmyndin var geggjuð! Loksins, eftir barnauppeldi í 26 ár með fjórar dætur og einn til tvo tengdasyni búindi á heimilinu líka, var þetta kærkomin tilhugsun. Við tvö í sveitarómantíkinni, takandi bíltúra um Evrópu.”

Hnipruð í vanlíðan í myrkrinu

En smám saman fóru hlutirnir að breytast hjá Halldóru og henni fór að líða sífellt verr þegar leið á veturinn 2019 og fram á 2020. ,,Fyrst hélt ég að það væri barnleysið, það sem á ensku kallast ,,emty nest syndrome”, en það var eitthvað annað og djúpstæðara. Undanfarin 20 ár hafði mitt helsta áhugamál verið að vinna með mína andlega heilsu, auk þess að hjálpa öðrum, en þarna var ég komin á allt stað. Vondan stað sem ég hafði aldrei verið á fyrr. 

Halldóra og Maríus Sigurjónsson ætluðu að njóta barnleysisins í hjarta Evrópu.

Halldóra hefur alltaf verið jákvæð og mikil félagsvera að eðlisfari en þegar þarna var komið lá hún æ oftar hnipruð uppi í sófa í myrkri í gríðarlegri vanlíðan. 

,,Maðurinn minn vann í fjóra daga og var aðra fjóra í fríi svo þetta hefði átt að vera æðislegt en ég var ekki lengur eins og ég átti mér að vera. Ég vissi að ég þurfti á hjálp að halda því ég var hrædd og skildi ekki hvað var að koma fyrir mig. Það óx mér líka mjög í augum að finna hjálp í landi þar sem ég talaði ekki tungumálið og gæti því ekki hugsanlega deilt líðan minni með lækni eða sálfræðingi.”

Af hverju vissi ég þetta ekki?

Halldóra ákvað að taka einn dag í einu við að að eiga við vanlíðan sína. ,,Ég vinn við dáleiðislu og sálmeðferð og er alltaf að lesa og hlusta á fyrirlestra.

Í Móseldalnum Í Þýskalandi þar sem Halldóra og Maríus bjuggu.

Það var síðan fyrir tilviljun að rakst á fyrirlestur konu að nafni Lisa Mosconi sem sérhæfir sig í heila kvenna. Og þarna opnaðist fyrir mér nýr heimur og ég hóf að grafa mig ofan í rannsóknir.” Halldór lærði hvernig minnkað magn estrógen hormóna í heila kvenna getur valdið depurð, kvíða, þunglyndi og skapsveiflum. 

,,Ég missti andlitið, var ég virkilega komin á breytingaskeiðið? Svo ég fór að að grafa dýpra, því það eina sem ég þekkti um breytingarskeiðið var að konur hættu á blæðingum og finndu fyrir hita- og svitakófum.”

,,Af hverju var enginn búinn að segja mér þetta? Af hverju vissi ég þetta ekki? Og hvað átti ég að gera? Þetta voru spurningarnar sem leituðu á mig og þegar ég fór að skoða betur kom í ljós að ég var langt frá því sú eina sem vissi lítið sem ekkert um þetta og það sem verra er, flestum virtist standa á sama.”

Halldóra og Maríus.

Var sjálf full fordóma

Halldóru varð hugsað til allra kvennana í lífu sínu, mömmu, tengdamömmu, ömmu og tengdaömmu. ,,Allar gengu þær í gegnum þetta líkamlega helvíti en máttu ekki einu sinni tala um það. Ég á fjórar dætur og hugsaði að einhver þyrfti að gera eitthvað því annars breyttist ekki neitt. Svo ég ákvað að fara að tala um þetta og gera þetta að eðlilegum hlut, breytingaskeiðið á ekki að vera það tabú sem það hefur alltaf verið. Við verðum ekki gamlar, þreyttar, sveittar, feitar og pirraðar kellingar, bara af því að við erum komnar á breytingaskeiðið. En það var ímyndin sem ég hafði ásamt fjölda annarra, ég veit núna að sjálf var ég full fordóma.”

Hún segir konur ekki þora að tala um líðan sína á breytingarskeiðinu, jafnvel ekki við aðrar konur. ,,Ég hef verið að safna sögum kvenna og margar upplifa að þeirra líðan sé blásin út af borðinu af öðrum konum. Eins og það sé meira töff að finna ekki fyrir neinu og sleppa því helst að fara í gegnum breytingaskeiðið. En það er ekki hægt, þetta er líkamlega innbyggt í okkur. Við förum í gegnum það á mismunandi hátt en að er aldrei hægt að sleppa alveg við það.“

Allt að endalaus einkennalisti

Það kom Halldóru mjög á óvart að fara yfir einkennalista breytingaskeiðisins. ,,Það eru yfir 30 einkenni sem eru algeng, víðtæk og út um allan líkamann.

Halldóra í Þýskalandi. Hún skildi ekki af hverju henni leið sífellt verr.

Sjálf fann ég fyrir kláða, eins og það væri eitthvað skríða undir húðinni. Annað var eyrnarsuð, ég var búin að vera með það í mörg ár án þess að skilja af hverju. Hvoru tveggja er algeng einkenni svo og auðvitað höfuðverkir, svefnvandamál, liðverkir, vöðvarverkir og andlegu vandamál.  Það eru estrógen móttakar á næstum öllum frumum líkamans og þegar það minnkar kemur ójafnvægi víðsvegar um líkamann.“

Hormónar úr hrossahlandi

Halldóra sló hormónagjöf strax út af borðinu, hafði ávallt heyrt að þá bæri að forðast eins og verkfæri djöfulsins og stórhættulegir. Ástæðuna mátti rekja til aldamótanna 2000. ,,Þá var gerð risastór rannsókn, Women’s Health Initiative, þar sem rannsökuð voru áhrif hormóna hjá eldri konum. En konurnar í rannsókninni voru margar hverjar með undirliggjandi kvilla, á við yfirþyngd og hjartasjúkdóma auk þess sem hormónar í þá daga voru allt öðruvísi uppbyggðir en í dag. Á árum áður voru sumir hormónar til dæmis unnir úr hlandi óléttra hryssa.

Halldóra Skúladóttir.

Það sem aftur á móti gerist í þessari risastóru rannsókn er að farið er að taka eftir aukinni tíðni brjóstakrabbameins og því ákveðið að slaufa rannsókninni. Þetta lak aftur á móti í fjölmiðla sem blésu upp að hormónar ykju líkur á brjóstakrabba og svo að segja yfir nótt hættu konur hormónainntöku. Það var ekki fyrr en tveimur áratugum síðar að farið var að rýna almennilega í þetta. En því miður lífa þessa mýtur enn í dag góðu lífi, meira að segja meðal lækna.

 En hormónar gáfu mér nýtt líf.” 

Halldóra segir fjölda sjúkdóma koma upp á yfirborðið þegar kvenhormónin minnka, sérstaklega þá sjúkdóma sem eru erfðalega undirliggjandi í konum. ,,Það er svo sorglegt að hugsa til allra kvennanna, líka í mínu lífi, sem eru farnar út af sjúdómum sem ef til vill hefði mátt koma í veg fyrir.”

Fjölskyldan á góðri stundu.

Undirbúningur er lykilatriði

Hvað vill Halldóra sjá gerast? ,,Fyrst og fremst vil ég að við gerum okkur öll grein fyrir því að helmingur mannkyns fer í gegnum þetta skeið. Svona erum við hannaðar, hvort sem okkur líkar betur eða verr og þetta er eðlilegur partur af því að vera kona þótt við förum á gegnum það á mismunandi hátt.

Breytingaskeiðið spyr heldur ekki um aldur, það þarf ekki að bíða eftir að verða fimmtugur. Þú getur farið að finna fyrir einkennum fyrir fertugt því þetta er tímabil sem getur spannað frá tveimur og upp í tíu ár.  Og þegar ég horfi til baka geri ég mér grein fyrir að frá því ég er að detta í fertugt og fram til 42-43 ára var ég byrjuð að glíma við aðdraganda breytingaskeiðisins; fossandi blæðingar, svefnleysi, nætursvita og mígreni.” 

Hræðileg þjóðfélagsleg áhrif

Halldór vill að samfélagið geri sér grein fyrir að breytingaskeiðið sé meira og alvarlegra en bara hita- og svitaköst.

Halldóra segir erfitt að reyna að leita sér hjálpar í landi þar sem maður talar ekki tungumálið.

,,Það hefur gríðarleg andleg áhrif. Ég fór í gegnum kulnum á þessum tíma sem ég núna veit að var þessu tengt. En af hverju er önnur hver kona, 40 plús, að fara í gegnum kulnun? Auk þess eru konur ranggreindar og dæmi má nefna að í  Bretlandi eru 66% kvenna settar á þunglyndislyf þegar þær ættu að vera settar á hormóna. Og þar erum við að tala um konur sem hafa enga sögu um andlega vanlíðan í gegnum árin. 

Halldór bendir á að ein af hverjum tíu konum detti út af vinnarmarkaði út af breytingaskeiðinu. ,,Hugsaðu þér starfskraftana sem eru að tapast? Sumar er frá til skemmri tíma en svo eru þær sem koma aldrei aftur. Öll þekkingin sem tapast og lífin sem eyðileggjast? Hversu skemmandi er það að vera um fimmtugt og hafa ekki heilsu til að vinna lengur? Hvað gerir það fyrir sjálfsmatið?  Það er verið að greina þær með ýmislegt annað, vefjagigt er til dæmis mjög algeng greining. Svo er það sjálfsvígshættan. Meðaltalsaldur kvenna í Bretlandi sem  taka líf sitt er 50 til 55 ára.” 

Endalaus svefnlyf og geðlyf

Halldóra segir lækna þurfa að vera upplýstari, ekki síst heimilislækna. ,,Ef ég er með kvíða, mígreni og get ekki sofið á nóttunni en enn með blæðingar þá er ég auðvitað ekki að fara til kvensjúkdómalæknis, ég fer til heimilislæknis.

Og ef ef heimilislæknirinn þekkir ekki einkennin er ekkert skrýtið að konur séu settar á mígrenilyf, svefnlyf eða geðlyf. Þetta þarf að laga og gefa konum, sem á þurfa að halda, þau efni sem líkaminn framleiðir ekki, nákvæmlega eins og við gerum við fjölda sjúkdóma á við  skjaldkirtilssjúkdómum eða sykursýki. Og eins furðulegt og það er nú þá taka flestar konur getnaðarvarnartöflur um ævina, sumar í áratugi en forðast hormóna á breytingaskeiðinu, sem eru mun vægari og náttúrulegri tegund hormóna.“

Halldóra skildi ekki af hverju hún fann ekki til hamingju í fegurðinni og rómantíkinni.

Blóð, sviti og tár vita ekki á gott

Halldóra segist tala af reynslu, sjálf hafi hún verið þessi ofurkona sem aldrei stoppaði og krassaði.  ,,Mig langar svo að konur í kringum fertugt átti sig á því að á þeim aldrei fer líkaminn að undirbúa sig fyrir þetta skeið. Við erum í krítískum glugga þennan áratug milli 40 og 50 ára og hvernig við förum með okkur á þessum árum hefur gríðarlega mikið að segja hvernig okkar framtíðarheilsa okkar verður. Við verðum að fara vel með okkur, passa upp á streitu, borða rétt og svefninn er aldrei eins mikilvægur eins og á þessum árum. Styrktarþjálfun er einnig mikilvæg því erum að tapa vöðvamassa á þessum árum. Þetta er viðkvæmt tímabil og ef við vöndum okkur á þessum árum þá erum við að koma svo miklu betur út hinum megin. Ef við förum ofurkonuleiðina á hnefanum með blóði, svita og tárum, veit það ekki á gott.”

Ný orka og kraftur

Halldóra segir tímann í lífi sínu núna æðislegan. ,, Í fyrri hálfleik var mér hent út á völlinn, eignaðist fjögur börn á nokkrum árum, kepptist við að gera allt og eiga allt. Síðan kemur breytingaskeiðið, eins og töflufundur þar sem ég get stillt upp seinni hálfleik eins og ég vildi hafa hann.

Halldóra Skúladóttir
Mynd/Anton Brink

Í dag er ég að hjálpa konum að finna sig aftur og með smá vinnu gerast ótrúlegir hlutir í seinni hálfleik. Þegar búið er að koma jafnvægi á hormónana og líðaninni komin í betra horf er eins og opnist fyrir eitthvað og við sjáum lífið í nýju ljósi. Segja má að maður verði ónæmur fyrir bulli og vitleysu og atriði sem áður þvældust fyrir manni skipta ekki nokkru máli lengur. Maður fyllist einhverri nýrri orku og krafti til þess að setja sjálfan sig loksins í fyrsta sæti.

Ég nýt seinni hálfleiksins og er hrikalega spennt, því ég er að lifa á mínum eigin forsendum,” segir Halldóra Skúladóttir. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta