fbpx
Þriðjudagur 20.apríl 2021
Fókus

„Það er eins og veröldin hafi verið dæmd í fæðingarorlof með mér“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 6. mars 2021 13:00

Sif Sigmarsdóttir rithöfundur Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn betri penni landsins Sif Sigmarsdóttir rithöfundur hefur búið í London í 18 ár ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Hún situr við skriftir á tveimur skáldsögum auk þess að vera með ungbarn í fanginu og tilfallandi barnakúk á handarbakinu.

„Ég á þrjú afkvæmi sem ganga undir heitinu kostnaðarliður eitt, tvö og þrjú. Grislingarnir eru sjö ára, fjögurra ára og sjö mánaða,“ segir Sif og útskýrir hvernig hún fékk ósk sína um meiri tíma með börnunum uppfyllta.

„Fyrir rúmu ári, þegar ég var ólétt að kostnaðarlið þrjú, var ég mikið á ferð og flugi vegna vinnu. Ég flakkaði á milli bókahátíða í Bretlandi, þeyttist um landið þvert og endilangt í lestum sem aldrei voru á áætlun (einu sinni festist ég í Aberdeen í marga daga vegna veðurs), gisti í hótelherbergjum sem lyktuðu eins og blautir ullarsokkar og át meintan mat af „room service“ matseðlum. Í einni af þessum ferðum sendi ég ósk út í alheiminn. Ég óskaði þess að ég gæti eytt meiri tíma heima við í félagsskap barnanna.

Ef ég væri ekki trúleysingi myndi ég draga þá ályktum að ég hefði verið bænheyrð á fullbókstaflegan hátt. Stuttu síðar kom heimsfaraldur og öllu var skellt í lás. Undanfarið ár hef ég eytt öllum stundum heima við, alltaf í félagsskap barnanna. Ég ítreka: alltaf. Ég er ekki svo sjálfhverf að ég telji að ég hafi valdið kórónaveirufarsóttinni en ef fólk vantar sökudólg í staðinn fyrir George Soros og Bill Gates þá er því velkomið að benda á mig.“

Það er stutt í grínið hjá Sif sem bætir við: „Þarna sannaðist hið fornkveðna: „Be careful what you wish for.““

Glundroði

Skólar í Bretlandi hafa að mestu verið lokaðir síðan í mars 2020.

„Þeir opnuðu aðeins síðasta haust, en það entist ekki lengi. Þegar skólarnir hafa verið lokaðir höfum við maðurinn minn verið starfsfólk milli níu og fimm á daginn en líka kennarar, leikskólakennarar, matráðar, ræstitæknar, íþróttaþjálfarar og skemmtikraftar.“

Aðspurð um hvernig það sé að vera í fæðingarorlofi á Covid-tímum svarar hún: „Það er eins og veröldin hafi verið dæmd í fæðingarorlof með mér. Algeng tilfinning í fæðingarorlofi er FOMO, eða „fear of missing out“. Nú þegar allt er lokað og ekkert er að gera þarf maður ekki að óttast að maður sé að missa af neinu. Það er allavega léttir.“

Sif segir lítið vera til sem heitir venjulegur dagur hjá fjölskyldunni. Sjálfshjálparráðum rignir yfir heimsbyggðina eins og eldi og brennisteini og flest ráða þau þjáðum að taka stjórn á hlutunum, skipuleggja lífið og fataskápinn eins og Marie Kondo. „En ef það er eitthvað sem heimsfaraldurinn hefur kennt mér er það einmitt þvert á móti, að láta af stjórn.

Það eina sem er í dagatali „venjulegs“ dags um þessar mundir er glundroði. Til að koma einhverju í verk þarf maður að vera jafnsveigjanlegur og fimleikastjarna, jafnmikið á tánum og ballerína og jafntilbúinn í slaginn og boxari. Ef skyndilega gefst stund til vinnu milli þess sem hjálpa þarf krökkunum í „heimaskólanum“, gefa þeim að borða, stilla til friðar þegar þriðja heimsstyrjöldin brýst út, er ekkert mikilvægara en að grípa hana og nýta hana vel.“

Klúður

Covid-19 faraldurinn hefur leikið Bretland grátt og þó að smit sé á hraðri niðurleið eru enn að greinast að meðaltali 7.500 tilfelli á dag.

„Bresk stjórnvöld hafa gripið til allra réttu ráðstafananna í faraldrinum. Þau hafa hins vegar alltaf gert það nokkrum mánuðum of seint. Nú síðast bárust fréttir af því að loks eigi að fara að hefja eftirlit á landamærum vegna kórónaveirunnar. Ferðamenn frá ákveðnum „áhættu“-löndum eiga að fara í sóttkví á hótelum. Ef fólk lýgur til um hvaðan það kom á það yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi. Ég held að margir foreldrar í Bretlandi sem hafa haft börnin sín heima öllum stundum síðastliðið ár líti á tíu ára fangelsi sömu augum og þeir líta ókeypis gistingu á spa-hóteli. Einkaherbergi með klósetti og matur innifalinn. Hvílíkt dekur.

Það ríkir þó óvænt bjartsýni í baráttunni gegn kórónaveirunni í Bretlandi sem stendur. Bretum gengur vel að bólusetja. En spyrjum að leikslokum. Bresk stjórnvöld hafa enn tíma til að klúðra málum eins og þeim einum er lagið.“

Mynd/Anton Brink

Plató og barnakúkur

Að hverju ertu að vinna sem stendur – jú, því það er greinilega ekki nóg að ala upp börn og sinna heimili ef maður er Íslendingur?

„Ef umboðsmaðurinn minn hér í Bretlandi vissi að ég væri að spjalla við þig en ekki að skrifa í nýjustu bókinni minni sem ég ætlaði að vera búin með fyrir löngu myndi hún líklega skjóta mig. Ég er á lokasprettinum með nýja skáldsögu sem ég skrifa á ensku og á fyrstu köflunum í skáldsögu sem ég skrifa á íslensku.“

Hvernig gengur að finna tíma í skrif með alla heima?

„Ef maður er ekki nítjándu aldar Fjölnismaður mundandi fjaðurstaf í Köben held ég að það sé almennt erfitt að finna tíma og rými til skrifta en maður verður að berjast gegn því að hversdagsleikinn drepi niður andagiftina. Stundum er það þó áskorun. Til dæmis þegar maður situr við tölvuna í þvílíkum gír að vísa í Plató og Sartre og fattar svo allt í einu að maður er með barnakúk á handarbakinu,“ segir Sif sem skrifaði sinn fyrsta pistil í Fréttablaðið fyrir áratug.

Pistillinn fjallaði um fyrirtæki sem Sif stofnaði á þeim tíma og líkti hún ferlinu við það að eignast barn.

Er sú samlíking enn ofarlega í huga þér og gætir þú hugsað þér að stofna annað fyrirtæki?

„Það ætti að reka hverjum þeim kinnhest sem ekki hefur eignast barn en ákveður samt að líkja einhverju við það að eignast barn. Ef mér tekst að finna upp tímavélina skal ég með glöðu geði heimsækja þessa yngri og barnlausu sjálfa mig og lesa henni pistilinn.

Það eru þó einhver líkindi þarna. Þegar maður eignast barn og þegar maður stofnar fyrirtæki heldur maður stórhuga í vegferð með vel skipulagðar áætlanir í farteskinu. Yfirleitt verður ævintýrið þó allt öðruvísi en maður hafði planað.“

Fyrirtækið sem Sif vísar í er bókaútgáfa sem hún stofnaði og rak en seldi seinna Forlaginu.

„Uppátækið þaut af stað og gekk vonum framar. Ég komst hins vegar að því að þótt ég elski bækur leiðist mér fyrirtækjarekstur. Það var dýrmæt lexía. Lífið er of stutt fyrir leiðinlega hluti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sakamál – Internetfrægð, þráhyggja og morð í beinni

Sakamál – Internetfrægð, þráhyggja og morð í beinni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Berglind Saga er ein þeirra sem dansaði í Vikunni á RÚV í gær – „Bassi vildi bara fá „bad ass bitches“ í atriðið“

Berglind Saga er ein þeirra sem dansaði í Vikunni á RÚV í gær – „Bassi vildi bara fá „bad ass bitches“ í atriðið“