fbpx
Fimmtudagur 09.febrúar 2023
Fókus

Björgvin Páll sat við hliðina á mjög flughræddri konu – Hjálpaði henni að sofna

Fókus
Fimmtudaginn 7. október 2021 17:00

Björgvin Páll Gústavsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björgvin Páll Gústavsson er óumdeilanlega einn af okkar bestu íþróttamönnum en hann hefur víðar látið til sín taka en á handboltavellinum. Undanfarin ár hefur Björgvin haldið fyrirlestra í grunn – og menntaskólum landsins en þar fjallar hann um áhrif öndunar á bæði svefn og kvíða. Sjálfur segist hann brenna fyrir málefninu en nýverið gekkst hann til liðs við streymisveituna Uppkast sem hann segir hinn fullkomna vettvang til að miðla þekkingu sinni.

Björgvin viðurkennir að hann sé með öndun á heilanum og rifjar upp atvik þegar hann hjálpaði mjög flughræddri konu.

Ekki aftur snúið

Stofnendur Uppkasts, þeir Stefán Örn Þórisson og Arnar Arinbjarnarson höfðu í upphafi samband við Björgvin þar sem þeim fannst hann búa yfir spennandi efni. Eftir fyrsta fund var ekki aftur snúið og boltinn fór að rúlla mjög hratt.

Sjá einnig: „Fólk einfaldlega setur inn sitt eigið efni sér að kostnaðarlausu og fær greitt eftir áhorfsmínútum“

„Um leið og ég hitti þetta frábæra teymi sem stendur á bak við streymisveituna Uppkast áttaði ég mig á því að ég gæti vel orðið hluti af þessari heild. Hugmyndin heillaði mig og ég fann hvað mig langaði að eiga þátt í að byggja þetta upp með þeim. Þetta er ekki bara nauðsynlegur fræðsluvettvangur heldur er afþreyingargildi Uppkasts sömuleiðis gríðarlegt. Ég held að mitt skringilega skilsett henti þessu umhverfi einstaklega vel en ég er lærður bakari ásamt því að vera einkaþjálfari með víðtæka reynslu úr ýmsum sprotafyrirtækjum og ég kem gríðarlega spenntur inn. Uppkast er ekki bara eitthvað fyrir alla heldur allt fyrir einhverja. Þetta kallar á markaðssetningu með eins langan hala og hugsast getur frá mjög almennu efni yfir í efni sem hittir á mjög sértækan hóp fólks. Mitt hlutverk hefur verið að bæta í flóruna og gera hugmyndina stærri með hverjum deginum. Framan að þessu höfum við meðvitað ekki viljað auglýsa þetta of mikið en nú er loksins komið að þeim tímapunkti að við megum segja frá því skemmtilega starfi sem við höfum verið að vinna að undanfarna mánuði. Það er á sama tíma magnað hvað þetta hefur náð að haldast lengi leyndarmál því við erum þegar komin með svo mikið af mögnuðum aðilum með okkur í lið. Við erum öll jafn spennt að sýna og segja frá því sem hér er að gerast.“

Með öndun á heilanum

Sjálfur segist Björgvin vera með öndun á heilanum þó hann komi víða við þegar kemur að efnistökum innan streymisveitunnar. „Jói Fel er lærifaðir minn og um leið einn mesti snillingur sem ég hef kynnst þegar kemur að þáttagerð. Hann er einn vinsælasti kokkur landsins þrátt fyrir að vera menntaður bakari og ég lærði gríðarlega mikið af honum. Ég sá strax að ég gæti komið bakstrinum að enda er mikill áhugi á matreiðsluþáttum. Fræðsla tengd börnum er þó fyrst og fremst það sem ég lifi fyrir – að geta hjálpað krökkum að líða betur enda tel ég það mitt hlutverk í lífinu að vera fyrirmynd og hjálpa öðrum. Ég tel að Uppkast sé stór og góður staður fyrir það.“

Áhugi Björgvins á öndun spratt svo að segja úr eigin vanlíðan og kvíða. „Maður heyrir oft setninguna andaðu djúpt en skilur ekki hvað það í raun þýðir því þá andar maður bara stórt og vitlaust með munninum. Ég fór að velta fyrir mér hvað öndun getur gert fyrir mann bæði andlega og þegar kemur að sportinu. Ég náði mér meira að segja í öndunargráður til að vita nákvæmlega hvað ég væri að tala um. Í dag er ég með eina almenna gráðu og aðra tengda íþróttunum til að geta hámarkað mig hvar sem er, sem faðir og sem íþróttamaður. Öndunin hefur áhrif á allt sem við gerum og allt sem við gerum hefur sömuleiðis áhrif á öndunina.“

Kvíði er aldrei einhliða

Viðbrögð við fyrirlestrum Björgvins hafa verið mikil en hann segist fá skilaboð frá börnum sem og foreldrum þeirra nær daglega. „Það er eitt að lesa átakanlegar niðurstöður sjálfsvígstalna og þessháttar en það er allt annað að fá skilaboðin beint í andlitið. Þá fyrst finnur maður hversu áþreifanlega stórt vandamálið er, svo þegar Covid-19 skall á og félagsleg tengsl krakkanna voru rofin í skólakerfinu finnur maður enn meira hversu knúinn ég taldi mig vera að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda og því miður eru það ansi margir. Ég sé Uppkast sem góðan miðil til að dreifa þekkingu fyrir þá sem hafa eitthvað fram að færa hvort sem það tengist heilsu eða einfaldlega til að létta fólki lundina.“

Og Björgvin segir orsakir kvíða aldrei einhliða. „Vandinn er aldrei eitthvað eitt því það eru alltaf margir samhangandi þættir sem spila inn í. Kvíði getur orsakast af rangri öndun í svefni yfir í félagslegt vandamál eða tengsl við fortíðina, það geta verið svo margir hlutir. Oft er mikilvægast í byrjun að brjóta allt niður, þannig verður auðveldara að sjá vandamálin og breyta þeim. Þegar ég fór á sínum tíma að rífa upp úr bakpokanum gamla hluti sem ollu mér hugarangri sem barni, skoða barnaverndarskjölin mín, fann ég að þarna voru allskonar hlutir sem ég þurfti að horfast í augu við og skapa meðvitund um hvað það er sem veldur manni vanlíðan. Ég hélt að með því að skrifa bókina mína væri ég að loka einhverjum kafla en síðar áttaði ég mig á því að bókin var í raun upphafið að einhverju miklu stærra,“ segir Björgvin og heldur áfram:

„Bókin átti heldur aldrei að verða bók, hún byrjaði sem lítið word skjal þegar ég hafði sjálfur lent á botninum, krassað á miðju stórmóti. Ég lagði sjálfan mig á bekk og spurði af hverju mér liði svona. Word skjalið sem átti upphaflega að vera mín leið til að skrifa mig frá hlutum, rifja upp gamla hluti sem ég hafði útilokað úr minninu og setja þá niður á blað varð óvart að bók sem ég ákvað að gefa út, ekki fyrir mig heldur fyrir fólkið sem gæti mögulega speglað sig í henni. Það er svo mikilvægt að fá speglun og þegar ég geng inn í skólana vil ég að krakkarnir heyri mig segja ÉG LÍKA því það eru allir að kljást við eitthvað. Ég vil ekki gefa bara krökkunum von heldur líka foreldrunum því ég er líka að berjast við hluti sem foreldri. Mitt helsta ráð til foreldra er að horfast fyrst í augu við sjálfan sig. Nú á ég fjögur börn sjálfur og alltaf að leita leiða að leysa vandamál barnanna minna hvort sem það snýr að kvíða eða öðru og finna út hvaða verkfæri best sé að nota. Þegar dóttir mín þjáðist af kvíða var það besta sem ég gat gert að takast á við minn eigin kvíða, þannig hvarf hennar. Börnin eru nefnilega okkar besti spegill og ef fólk er með erfið börn eða börn sem valda þeim erfiðleikum er spurningin oft sú, er ég að eiga við svipuð vandamál og hvað gerist tef ég laga mitt. Hitt ráðið sem ég gef foreldrunum er eftir ensku setningunni: „Your child is not giving you a hard time, it is having a hard time.“ Þegar þú áttar þig á því er mun auðveldara að skilja börnin sín. Ég lít á það sem styrkleika að hafa verið erfitt barn enda átti ég mjög erfiða æsku, ég get þess vegna alltaf sagt, ég líka. Það er frábært vopn að geta verið hreinskilinn við börnin sín og tala beint út. Elska börnin þegar þau eiga það minnst skilið því þá þurfa þau mest á því að halda.“

Fullorðnir betri í að fela vandamálin

Björgvin segir kvíða barna og fullorðinna mjög sambærilegan en munurinn felist því hversu góðir fullorðnir einstaklingar séu í að dylja vel fyrir sjálfum sér.

„Ég held að margir átti sig ekki á því hvernig kvíði virki, í það minnsta var ég sjálfur mjög lengi að sjá minn eigin kvíða. Ég hugsaði það alltaf sem svo, að fyrst ég væri ekki stressaður á vellinum gæti ég ekki verið kvíðinn. Minn kvíði snýr hins vegar að föðurhlutverkinu, ég vildi vera besti pabbi í heimi og gera allt 100%. Ég áttaði mig svo á því hvernig ég gróf sjálfan mig alltaf dýpra og dýpra með hverjum mistökunum sem ég gerði. Kvíði fullorðinna er meira falinn en um leið og við opnum á hann verður strax auðveldara fyrir krakkana að gera slíkt hið sama. En kvíði er líka mikilvægur og því megum við ekki gleyma. Ef við værum ekki með neinn kvíða myndum við ekki læra fyrir próf heldur mæta óundirbúin. Kvíðinn verður að vera til staðar í ákveðnum skömmtum og þar tengdi ég saman við öndunina. Ef hún er grunn eða hröð skildi ég að nú væri ég að verða kvíðinn og þá ætti ég að stilla mig af og anda á annan hátt, þannig minnkar stressið. Ég var sem dæmi að fljúga heim nú fyrir stuttu og sat við hlið konu sem var í sínu fyrsta flugi. Ég sá fljótlega hvernig öndun hennar breyttist og hún var augljóslega mjög flughrædd. Ég ákvað því að stilla úrið mitt og sýndi henni hvernig hún gæti fylgt taktinum sem er gott tól til að ná taki á öndun. Að endingu náði konan að sofna, því með þessum hætti þurfti hún að hugsa um eitthvað annað og ná þannig að slaka á. Þetta er djúp kanínuhola þegar kemur að önduninni og ég tel mikilvægt að fólk hugsi meira út í þetta. Það hljómar kannski óspennandi en staðreyndin er sú að það eru ekki bara einhverjir munkar upp í fjöllum sem anda heldur erum við öll að anda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Madonna svarar fyrir „nýtt“ andlit á Grammy-verðlaunahátíðinni

Madonna svarar fyrir „nýtt“ andlit á Grammy-verðlaunahátíðinni
Fókus
Í gær

Svekkt með Star Wars öskudagsbúning – „Næstum því eins og að panta fjórhjólaferð en fá göngutúr um svæðið“

Svekkt með Star Wars öskudagsbúning – „Næstum því eins og að panta fjórhjólaferð en fá göngutúr um svæðið“
Fókus
Í gær

Sjónvarpskonan Nína Richter tók netníðing til bæna – „Í dag geta svona orð ekki sært mig“

Sjónvarpskonan Nína Richter tók netníðing til bæna – „Í dag geta svona orð ekki sært mig“
Fókus
Í gær

Myndband af J.Lo og Ben Affleck rífast fer eins og eldur í sinu um netheima

Myndband af J.Lo og Ben Affleck rífast fer eins og eldur í sinu um netheima
Fókus
Fyrir 2 dögum

Eign dagsins – Endurnýjuð útsýnisíbúð í hjarta borgarinnar

Eign dagsins – Endurnýjuð útsýnisíbúð í hjarta borgarinnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tómas náði tindinum – „Gefandi að geta sem læknir komið svo mörgum til hjálpar á fjallinu“

Tómas náði tindinum – „Gefandi að geta sem læknir komið svo mörgum til hjálpar á fjallinu“