fbpx
Miðvikudagur 23.september 2020
Fókus

Bjalla úr skipi sem hvarf við Íslandsstrendur árið 1936 fundin – „Magnað að hún hafi komið upp af hafsbotni eftir 84 ár“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 9. september 2020 13:00

Bjallan fyrir hreinsun. Mynd: Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skipverjar á togaranum Klakki fengu magnaðan hlut í trollið síðastliðinn föstudag: Skipsbjöllu sem talin er vera úr skipi sem sökk með 19 manns á Skjálfandaflóa árið 1936. Guðmundur Geir Einarsson vélfræðingur greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og birtir meðfylgjandi myndir sem félagar hans tóku af gripnum, auk myndar af skipinu sem hvarf. Guðmundur var í fríi í þessum túr.

Skipið sem hvarf var smíðað í Noregi árið 1903 og hélt Batalder. Er skipið fórst árið 1936 bar það heitið Örn GK5. „Magnað að hún hafi komið upp af hafsbotni eftir 84 ár,“ skrifar Guðmundur í færslu sinni um bjölluna.

Skipstjórinn á Klakki kom bjöllunni á Byggðasafn Vestfjarða á föstudaginn og þar var bjallan hreinsuð. Eins og mynd ber með sér gekk það verk vel. DV hafði samband við Jónu Símonínu Bjarnadóttur hjá byggðasafninu vegna málsins. Jóna fékk að ofangreindar upplýsingar um skipið með leit í skipaskrá á netinu.

Bjallan eftir hreinsun. Mynd: Facebook

„Mér finnst þetta merkilegur fundur í ljósi þess að enginn vissi hvar skipið hafði farið niður, það var bara giskað á að það væri í námunda við Mánáreyjar,“ segir Jóna en Mánáreyjar eru Lágey og Háey, norðan við nyrstu strönd Tjörness. „Frekari staðsetningu vissi enginn og mér finnst áhugavert að nú ættu menn að geta nokkurn veginn staðsett flakið.“

„Hún var öll þakin sandi og olíudrullu sem við hreinsuðum af til að sjá nafnið. Aðalmálið var að brjóta af henni þennan þykka sandlög en það var gert með því að láta hana liggja í vatni og brjóta af,“ segir Jóna.

Óvíst er um framtíðarstaðsetningu bjöllunnar og segist Jóna lítið hugsa út í það á þessum tímapunkti. „Hlutverk safnsins er að hreinsa hana eins vel og við getum en það á eftir að hreinsa betur innan úr henni.“

Skipið Batalder. Ljósmyndari óþekktur.

Fjallað er um skipið sem hvarf á bloggsíðunni thsof.123.is fyrir rúmu ári síðan. Þar segir að aldrei hafi fengist nein vitneskja um hvað hafi orðið skipinu að tjóni. Ólíklegt sé að veður hafi verið orsakavaldurinn en hallast að því að ketilsprenging hafi orðið í skipinu og það sokkið á svipstundu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 5 dögum

Telur sig vera með stærstu brjóst Bretlands

Telur sig vera með stærstu brjóst Bretlands
Fókus
Fyrir 5 dögum

Tinder laugin – Hvar eru þau nú? Umtöluðustu keppendurnir stíga fram

Tinder laugin – Hvar eru þau nú? Umtöluðustu keppendurnir stíga fram