fbpx
Laugardagur 28.nóvember 2020
Fókus

Tímavélin: „Æskilegt er að flugfreyjan sé lagleg og snotur í vexti“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 30. júlí 2020 21:00

Ljósmynd/Tímarit.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrstu íslensku flugfreyjurnar þurftu að takast á við krefjandi aðstæður, ekki síst áður en FFÍ var stofnað árið 1954. Starfið var engu að síður afar eftirsóknarvert: glamúrinn, utanlandsferðirnar og dömulegi einkennisbúningurinn heillaði ófáar ungar konur. Flugtíminn var hins vegar mun lengri en þekkist í dag, vélarnar voru minni og farþegarnir órólegri, enda höfðu fæstir þeirra komið um borð í flugvél áður. Flugfreyjur máttu ekki vera giftar eða eiga börn og voru orðnar ógjaldgengar í starfið um leið og þær höfðu stofnað heimili og fjölskyldu. Það var frekar óheppilegt með hliðsjón af því að regluleg bónorð fylgdu starfinu. Í Tímavélinni þessa vikuna rifjum við upp árdaga flugfreyjustarfsins á Íslandi.

Árið 1946 var Sigríður Gunnlaugsdóttir fyrsta flugfreyjan sem ráðin var til starfa hjá Flugfélagi Íslands. Níu ár voru liðin frá stofnun flugfélagsins og millilandaflug var tiltölulega nýhafið.

Í ársbyrjun 1947 auglýsti félagið aftur eftir flugfreyju og rúmlega 50 stúlkur sóttu um. Kristín Snæhólm hreppti að lokum starfið og fyrst um sinn skiptust þær Sigríður á að vera um borð og sinna farþegum. Félagið átti enn enga millilandaflugvél, en flogið var í skoskri fjögurra hreyfla leiguflugvél milli Kaupmannahafnar, Reykjavíkur og Prestwick, þaðan sem flugmennirnir komu.

Kristín Snæhólm að störfum. Ljósmynd/Tímarit.is

Kristín ræddi við Morgunblaðið í apríl 1982 og rifjaði þá upp að starfsaðstæður flugfreyja voru slæmar á fyrstu árunum, þegar eingöngu var boðið upp á leiguflug. Flugfreyjurnar þurftu til að mynda einnig að sjá um farþegana á jörðu niðri ef lenda þurfti annars staðar en á áætlunarstöðum og oft þurftu flugfreyjurnar að gista með lítil börn á hótelum, þegar vélin komst einhverra hluta vegna ekki á áfangastað.

„Það var bara flogið á meðan maður stóð uppi. Mér er til dæmis minnisstætt að við flugum einhvern tíma til Parísar, sem var sjö tíma flug, en lentum þá í morgunþoku þar og því var flogið í þrjá tíma í viðbót og til Rómar. Þar var staldrað við í þrjá til fjóra tíma en síðan flogið til Parísar, með fulla vél. Þar kom um borð alþingismaður nokkur og frú og var gerður tveggja tíma stans og síðan flogið heimleiðis.“

Ljósmynd/Tímarit.is

Veita hressingu og spara farþegum ómak

Fyrst um sinn var talað um flugþernur en fljótlega varð til starfstitillinn flugfreyja.

„Eitt af nýjustu orðum í íslensku er orðið flugfreyja, og má það heita gott orð, þar sem það er bæði vel íslenskt og auk þess þjált í notkun. Starf hennar er svo nýtt að það mun fáum kunnugt til hlítar, en þó vita allir nokkuð, í hverju það er fólgið. Hlutverk flugfreyjunnar er yfirleitt það að sjá um að farþegunum líði eins vel og hœgt er. Þær hlynna að þeim og veita þeim hressingu og spara þeim ýmis ómök. Starf þeirra krefst því málakunnáttu, aðlaðandi framkomu og nokkurrar kunnáttu í sem flestu, auk þess sem æskilegt er að flugfreyjan sé lagleg og snotur í vexti, svo karlmennirnir geti haft hana til augnyndis og konurnar til þess að öfunda hana.“

Þetta kom fram í grein Fálkans í mars 1947. Á fyrri hluta sjötta áratugarins voru fleiri flugfreyjur ráðnar til Flugfélags Íslands: sex störfuðu yfir sumarið og fjórar á veturna og voru þær bæði í innanlands- og utanlandsflugi. Á veturna var þó sjaldnar flogið vegna myrkurs og óhagstæðrar veðráttu. Þá störfuðu níu flugfreyjur hjá Loftleiðum en áður en byrjað var að halda regluleg flugfreyjunámskeið á Íslandi fóru tilvonandi flugfreyjur í reynsluferðir með vönum flugfreyjum og fengu tilsögn hjá þeim. Flugtíminn var langur: flug til Kaupmannahafnar tók rúmlega 7 tíma og Ameríkuflug var í kringum 12 klukkustundir.

Ljósmynd/Tímarit.is

3000 krónur í laun

Í mars 1957 kíkti blaðamaður Morgunblaðsins inn á flugfreyjunámskeið hjá Flugfélagi Íslands en þar voru 19 stúlkur í þjálfun fyrir „vinsælasta ungmeyjastarfið á Íslandi“ eins og það var kallað.

Stúlkurnar höfðu áður þreytt inntökupróf fyrir námskeiðið þar sem þær voru prófaðar í dönskum og enskum stíl og lagðar voru fyrir þær 30 spurningar um bækur, tónlist og menningarmál. Þá voru þær spurðar hvað þær myndu sýna útlendingum hér á landi, hver Gomúlka væri, Krúsjeff og Einar Gerhardsen, og hverjar væru endastöðvar pólarflugleiðarinnar.

Ungar stúlkur á flugfreyjunámskeiði hjá Loftleiðum. Ljósmynd/Tímarit.is

Fram kom í greininni að flugfreyjustarfið væri eina starfið á Íslandi þar sem það væri sem skilyrði að stúlkan væri ógift, en hún mátti þó vera lofuð. Samkvæmt ráðningarsamningi var henni skylt að hætta í starfinu um leið og hún væri búin að ganga í hjónaband, nema það væri „í hag félagsins.“ Þá kom fram að kaupið væri um 3.000 krónur og allmikill hluti þess í erlendum gjaldeyri, sem ætti eflaust sinn þátt í vinsældum starfsins.

„Flestir karlmenn munu vera sammála um það að flugfreyjur séu afbragð annarra kvenna. Það er ekki nóg með að þær séu bæði íturvaxnar og elskulegar, heldur eru þær líka svo fagrar yfirlitum að maður gleymir jafnvel allri loftveiki í skjótri svipan, þegar flugfreyjan birtist brosandi yfir miðju Atlantshafinu og segir, að því miður hafi loftveikitöflurnar orðið eftir í London. Manni finnst það jafnvel engu máli skipta. Og það er heldur engin furða þó að flugfreyjur séu öðrum íslenzkum konum meira augnagaman, því þar í hóp eru að minnsta kosti þrjár fegurðardrottningar og margar fleiri, sem alveg eins hefðu getað orðið. Og því hefur ónefnd flugfreyja trúað mér fyrir undir fjögur augu að þær fái að minnsta kosti þrjú giftingartilboð á ári frá farþegunum!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Simmi Vill um deilurnar við Skúla í Subway: „Þetta er líka sorgarferli því þú ert að missa vin“

Simmi Vill um deilurnar við Skúla í Subway: „Þetta er líka sorgarferli því þú ert að missa vin“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nígerískur áhrifavaldur olli fjaðrafoki þegar hann mætti í brúðkaup með sex óléttar kærustur

Nígerískur áhrifavaldur olli fjaðrafoki þegar hann mætti í brúðkaup með sex óléttar kærustur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Manuela Ósk og Eiður innsigla ástina með bleki – Sjáðu hvað þau fengu

Manuela Ósk og Eiður innsigla ástina með bleki – Sjáðu hvað þau fengu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hélt framhjá eiginmanninum með yfirmanninum til að fá stöðuhækkun

Hélt framhjá eiginmanninum með yfirmanninum til að fá stöðuhækkun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Guðmundur glímdi við klám- og tölvuleikjafíkn

Guðmundur glímdi við klám- og tölvuleikjafíkn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Daði og Gagnamagnið á lista Time yfir tíu bestu lög 2020

Daði og Gagnamagnið á lista Time yfir tíu bestu lög 2020
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ummæli Reynis Bergmanns harðlega gagnrýnd – „Við vissum ekki að hann væri svona grófur“

Ummæli Reynis Bergmanns harðlega gagnrýnd – „Við vissum ekki að hann væri svona grófur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Völli kafaði undir ísilagt yfirborðið á Hafravatni – Sjón er sögu ríkari

Völli kafaði undir ísilagt yfirborðið á Hafravatni – Sjón er sögu ríkari