fbpx
Miðvikudagur 27.maí 2020
Fókus

Þetta er manneskjan sem ber ábyrgð á öllum óþolandi Tik Tok-dönsunum sem barnið þitt elskar

Fókus
Föstudaginn 27. mars 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Er heimsfaraldur COVID-19 ríður yfir heimsbyggðina þá býr um þriðjungur mannkyns við einhvers konar samkomu- eða samgöngubann. Fólk sem er í sóttkví eða einangrun hefur þurft að grafa djúpt til að láta sér ekki leiðast. Einhverjir foreldrar hafa látið til leiðast og byrjað á samfélagsmiðlinum Tik Tok, sem er afar vinsæll á meðal krakka og ungs fólks. Eins og flestir foreldrar barna sem elska Tik Tok ættu að vita er einkennismerki miðilsins örstutt dansmyndbönd. Börnin síðan læra þessa dansa, sem allir eru frekar keimlíkir, og dansa þá í gríð og erg, hvort sem það er í Kringlunni eða heima í stofu.

Örlögin tóku í taumana

Það má í raun kenna einni manneskju um þessa dansa sem foreldrar eru fyrir löngu búnir að fá nóg af. Það er hin fimmtán ára gamla Charli D‘Amelio frá Norwalk í Connecticut-fylki í Bandaríkjunum. Charli þessi er vinsælasti unglingurinn á gjörvöllu internetinu og státar af rúmlega fjörutíu milljón fylgjendum á Tik Tok.

En hver er þessi Charli og hvernig varð hún það vinsæl að meirihluti íslenskra barna á aldrinum átta til fimmtán ára kann dansana hennar utan að?

Charli er fædd þann 1. maí árið 2004 og fagnar því sextán ára afmæli sínu innan tíðar. Eins og áður segir ólst Charli upp í borginni Norwalk í suðvesturhluta Connecticut. Foreldrar hennar eru Marc og Heidi D‘Amelio og á hún eina systur, Dixie D‘Amelio, sem er átján ára. Áður en Charli varð heimsfræg á Tik Tok æfði hún og keppti í dansi. Þá notaði hún annan samfélagsmiðil, Instagram, til að birta myndbönd og myndir úr danskeppnum. Hún er enn virk á Instagram en aðeins með tæplega tólf milljónir fylgjenda.

Fræg fjölskylda Charli ásamt systur sinni og foreldrum.

Það var svo síðasta sumar að örlögin tóku í taumana. Fyrsta myndbandið hennar var dansdúett með Tik Tok-notandanum move_with-joy, eins konar kennslumyndband þar sem Charli apar eftir afar einföld dansskref með góðum árangri. Þá var ekki aftur snúið. Charli var búin að finna sína hillu í samfélagsmiðlaheiminum og næstu fimm mánuðina náði hún að krækja í rúmlega fimm milljónir fylgjenda með dansmyndböndum sínum.

@charlidamelioi got dressed up to stay in my house but i do feel better also who made this dance?♬ original sound – paradiisedd

Renegade-dansinn

Charli er þjálfuð í dansi og því býr hún til dansspor sín sjálf og birtir fjölmörg Tik Tok-myndbönd á degi hverjum. Flest eru þau vinsæl en hennar langfrægasti dans er án efa við lagið Lottery (Renegade), sem oftast er bara kallað Renegade. Þetta lag ættu flestir foreldrar landsins að kannast við og fá jafnvel hroll við að heyra á það minnst. Í raun er Renegade-dans Charli svo vinsæll að það er meira að segja búið að búa til meme tengt dansinum, svokallað jarm á íslensku. Þá hafa margir notendur á Tik Tok búið til sína eigin útgáfu af Renegade-dansinum sem er innblásin af Charli. Á YouTube er einnig að finna aragrúa af vinsælum kennslumyndböndum um hvernig er hægt að fullkomna Renegade-dansinn úr smiðju unglingastjörnunnar. Það kom hins vegar á daginn snemma á þessu ári að Charli var í raun ekki sú sem samdi þennan fræga dans heldur hin fjórtán ára Jalaiah Harmon. Þegar það kom í ljós dönsuðu stöllurnar saman í myndbandi sem var birt á Tik Tok-síðu Charli.

Eins og áður segir hófst frægðarför Charli D‘Amelio sumarið 2019. Hlutirnir gerðust hratt og strax í nóvember í fyrra seldi Charli miða á svokallaðan „meet-and-greet“ viðburð þar sem almúginn getur keypt miða til að hitta átrúnaðargoð sín. Charli var harðlega gagnrýnd fyrir að rukka óharðnaða unglinga og smákrakka um hundrað dollara, tæplega fimmtán þúsund krónur, fyrir það eitt að berja hana augum. Hún sneri vörn í sókn og sagði að hátt verð væri til að tryggja öryggisgæslu á svæðinu. Það sem yrði afgangs myndi renna beint til góðgerðarmála. Charli setti myndband af viðburðinum á YouTube-síðu sína og er það eitt af fáum myndböndum sem hún hefur hlaðið upp á YouTube. Horft hefur verið á það tæplega níu milljón sinnum og þótt Charli státi bara af nokkrum YouTube-myndböndum á rás sinni er hún með tæplega þrjár milljónir fylgjenda á miðlinum. Í myndbandinu hvetur hún fylgjendur sína til að gefa til góðgerðasamtakanna Carnival for a Cause og Breathe for ALS.

Dansar fyrir seðla Óvíst er hve mikið Charli hefur þénað á Tik Tok-frægðinni.

Charli fékk einnig einstakt tækifæri í nóvember í fyrra þegar hún kom fram í Barclays Center í Brooklyn í New York með Bebe Rexha, gríðarvinsælli söngkonu sem hefur hitað upp fyrir listamenn á borð við Katy Perry og Bruno Mars. Jörm og myndbönd af Charli að dansa með Bebe Rexha fóru á flug á internetinu. Í kjölfarið sagði Charli í samtali við tímaritið MEL að hún hygði á frekari frama í dansi í framtíðinni fremur en að treysta á hverfula frægð á samfélagsmiðlum.

Ástin bankar upp á

Í desember í fyrra urðu enn á ný mikil tímamót í lífi hinnar ungu Charli þegar hún gekk til liðs við Hype House, samfélag Tik Tok-notenda þar sem frægustu nöfnin á samfélagsmiðlinum koma saman, sem og ný andlit. Vinnur samfélagið að því í sameiningu að framleiða nýtt og ferskt efni fyrir samfélagsmiðilinn. Flestir af meðlimum Hype House búa í samnefndu glæsihýsi í Los Angeles, þar á meðal Charli og systir hennar Dixie. Þær ferðast hins vegar mikið og reyna að skipta tíma sínum jafnt á milli Los Angeles og foreldrahúsa í Connecticut.

Það er ýmislegt sem gengur á í Hype House og þar kynntist Charli til að mynda Tik Tok-stjörnunni Chase Hudson, sem gengur ávallt undir sviðsnafninu LilHuddy. Amor hitti þau með örvum sínum og byrjuðu þau saman í lok desember á síðasta ári. Þau leyfðu fylgjendum sínum að engjast um af forvitni og opinberuðu sambandið ekki strax. Chase er einn af kjarnameðlimum Hype House og hafa þau Charli birt sæg af dansmyndböndum af sér saman. Nú er hins vegar óljóst hvort þau séu enn ástfangin því Charli hefur gefið í skyn á Twitter að sambandinu sé lokið.

Eru ballið búið? Chase og Charli.

Danshæfileikar Charli hafa ekki aðeins náð að lyfta stjörnu hennar hátt á himininn heldur hefur öll fjölskyldan grætt á Tik Tok-frægðinni. Þann 15. janúar síðastliðinn skrifaði öll fjölskyldan undir samning hjá umboðsskrifstofunni United Talent Agency (UTA). Fjölskyldufaðirinn Marc er kominn með sína eigin Tik Tok-síðu og er nú með um tvær milljónir fylgjenda. Systir Charli, Dixie, hefur einnig fetað í fótspor litlu systur og er með 8,5 milljónir fylgjenda á Tik Tok. Umboðsskrifstofan mun í framtíðinni vinna með fjölskyldunni að alls kyns verkefnum tengdum stafrænu efni, hlaðvörpum, bókum og sjónvarpi, svo fátt eitt sé nefnt. Charli hefur nú þegar leikið í stórri auglýsingu fyrir Sabra Hummus og var auglýsingin sýnd fyrir úrslitaleik Ofurskálarinnar í byrjun febrúar í fyrra. Það er því ljóst að D‘Amelio-fjölskyldan stefnir á heimsyfirráð, öllum foreldrum til mikillar gleði, eða þannig.

Ótrúleg velgengni Skjáskot úr auglýsingu sem Charli lék í fyrir Sabra Hummus.

Tik Tok í hnotskurn

500 milljónir notenda á heimsvísu
90% notenda nota miðilinn daglega
Níundi vinsælasti samfélagsmiðillinn
Fjöldi niðurhals; tæplega 2 milljarðar
41% notenda eru á aldrinum 16 til 24 ára
Meðalnotandi eyðir 52 mínútum á Tik Tok á dag
Horft er á yfir milljarð myndbanda á degi hverjum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 6 dögum

Ekki þurrt auga í salnum eftir flutning fjórtán ára blindrar stúlku

Ekki þurrt auga í salnum eftir flutning fjórtán ára blindrar stúlku
Fókus
Fyrir 1 viku

Eva Ruza kennir þér að stífla ekki vaskinn

Eva Ruza kennir þér að stífla ekki vaskinn
Fókus
Fyrir 1 viku

Tímavélin: Íslenskar auglýsingar sem myndu aldrei sjást í dag

Tímavélin: Íslenskar auglýsingar sem myndu aldrei sjást í dag
Fókus
Fyrir 1 viku

Dagur í lífi Söru Sigmundsdóttur

Dagur í lífi Söru Sigmundsdóttur