Föstudagur 21.febrúar 2020
Fókus

Ómar fagnar 11 árum edrú: „Miklu orkufrekara að vera í fýlu en að vera jákvæður“

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 9. febrúar 2020 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útvarpsmaðurinn og smiðurinn Ómar Úlfur Eyþórsson er landsmönnum að góðu kunnur en hann er umsjónarmaður Síðdegisþáttarins Ómar á X-977 og var nýlega ráðinn dagskrárstjóri stöðvarinnar. Ómar er einstaklega lífsglaður og kemur ávallt til dyranna eins og hann er klæddur. Hann er þekktur fyrir að vera laus við alla tilgerð og tekur lífinu með stóískri ró og það smitar út frá sér.

Á þessu ári fagnar Ómar bæði fertugsafmæli sínu og ellefu árum í edrúmennsku. Í samtali við DV tjáir hann sig um áskoranirnar fram undan, hið sífellt krefjandi föðurhlutverk, eftirminnilegan Stuðmannahitting, æskuárin og skemmtanalífið á „hálfvitaárunum,“ eins og hann orðar það hressilega.

Draumur á sviði

Spurður út í dagskrárstjórastöðuna segir Ómar að engar meiriháttar stefnubreytingar verði á útvarpsstöðinni þótt alltaf megi efla X-977, sem hefur verið í mikilli sókn undanfarið. Það verði gert í nánu samstarfi við íslenskt tónlistarfólk og tónlistarbransann í heild sinni, en Ómar fullyrðir að með réttum tækifærum og nægu fjármagni geti hann persónulega séð til þess að stöðin verði sú stærsta á landinu.

„Ég elska útvarpsmiðilinn. Eftir að ég gerðist dagskrárstjóri langar mig ekkert til að vera yfirmaður sem tekur fólk á teppið, en ég mæti samt í vinnuna á hverjum degi með krepptan hnefa því mig langar að styrkja X-ið. Það er svo gaman að hafa þennan hvata og gera eitthvað betra. Hins vegar, þegar ég er í loftinu, legg ég dagskrárstjórann til hliðar og er útvarpsmaðurinn Ómar,“ segir hann. „Ég vil peppa starfsfólkið, prófa nýja og ferska hluti og fá hlustendur til að halda með X-inu, það er mikilvægt. Stöðin getur leyft sér að vera öðruvísi, að vera ekki fyrirsjáanleg og vera skemmtileg. Þetta á að vera gaman, bæði fyrir dagskrárgerðarfólkið og hlustandann.“

Þá minnist hann á eina hugmynd sem hann dreymir að verði að veruleika einhvern daginn.  

„Ég á mér stóra drauma í leik og starfi. Mig langar til dæmis einhvern tímann að taka einn þátt af Síðdegisþættinum Ómari og gera hann á sviði. Þá væri band að spila intróið, ég kæmi inn í hvítum jakkafötum og með bindi, tæki viðtöl og hljómsveitin myndi alltaf spila lög inni á milli, af ýmsum gerðum. Það væri jafnvel hægt að taka þetta upp fyrir sjónvarp og gera þetta smávegis eins og flott „Netflix Special“.“

 

Vakinn af Stuðmönnum 

Ómar hefur alla ævi verið með músík í hjarta sínu og mikill áhugamaður um allar gerðir tónlistar. Hann þakkar foreldrum sínum öðrum fremur fyrir að hafa skapað rétta umhverfið, þar sem hægt var að efla og styrkja þennan áhuga.

„Það var töluvert um músík á mínu heimili mínu þótt hvorugur foreldrar mínir hafi verið eitthvað í músík. Mamma söng til dæmis alltaf og var reglulega með útvarpið á eða plötur á fóninum. Þess vegna er ég alveg jafn tengdur við gamalt og gott íslenskt efni og rokkið, enda voru hinar ólíklegustu plötur til í safni foreldra minna,“ segir Ómar og telur upp listamenn á borð við Gunnar Þórðarson og Villa Vill, en það var ein tiltekin plata sem kallaði til hans og honum þótti sérlega athyglisverð. Það var platan Bat out of Hell með Meatloaf.

„Ég horfði bara á plötuumslagið og hugsaði: „Þetta er sko þungarokk,“ en svo fattaði ég það ekki fyrr en mörgum árum seinna að svo var ekki,“ segir hann og rifar upp minningu sem hefur verið honum lengi kær.

„Stuðmenn voru líka í mikilli spilun hjá foreldrum mínum og ég gleymi því aldrei þegar Stuðmenn komu í heimsókn í partí eftir ball, eins og ekkert væri eðlilegra. Þá var ég sex ára og flestir meðlimir bandsins kíktu við. Ég var vakinn upp af heimsókn Stuðmanna og fékk í fyrsta skipti stjörnuglampa í augun. Mér leið eins og Bítlarnir væru komnir heim til mín. Þeir gáfu mér Stuðmannabókina, sem ég á ennþá áritaða.“

 

Platan sem öllu breytti

Ómar segir uppvaxtarár sín hafa einkennst af frjóum og flottum tíma fyrir íslenska tónlist. „Þá vorum við með hljómsveitir eins og Þey, Purrk Pillnikk, Utangarðsmenn, Fræbblana, Tappa Tíkarrass og fleiri. Það var svo mikill kraftur og gredda í þessu. Þetta var svo á móti straumnum,“ segir útvarpsmaðurinn. „Kannski er þetta erfiðara í dag, þegar allir eru í lopapeysunum og faðmandi tré vantar alveg gredduna og ágengnina sem við upplifum öll í gegnum ævina. Þetta er auðvitað alveg geggjaður tími og það er svo gaman að sjá, með endurkomu vínylsins, að þetta eru verðmætustu plöturnar sem þú finnur, með þessum listamönnum sem ég taldi upp meðal annars.“

Um ellefu ára aldurinn var Ómar orðinn ágætlega sjóaður í íslenskri tónlist. Áhuginn á mismunandi tónlist og stefnum var kominn til að vera, en þó var ein plata sem breytti öllu á þeim aldri. Aðdragandi þessarar uppgötvunar var þegar móðir hans fór með hann í ferðalag til Reykjavíkur frá Hvolsvelli, þar sem hann er uppalinn.

„Það má alveg segja að miklihvellurinn í mínu tónlistarlífi hafi verið þegar mamma keypti handa mér Nevermind með Nirvana, sem þá var til á kassettu. Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Ég var með blátt Walkman-vasadiskó og ég setti kassettuna í tækið og hlustaði tvisvar á hana alla, á leiðina úr bænum og heim. Þar sem við bjuggum á Hvolsvelli náði ég að renna henni í gegn oftar en einu sinni á leiðinni til og frá,“ segir Ómar.

„Þegar ég horfi til baka breytti þessi kassetta alveg lífi mínu. Og þarna á þessum tíma gat maður ekkert bara spólað til baka eða ýtt á einn takka til að hlusta á Smells Like Teen Spirit. Maður leyfði þessu bara að rúlla í gegn. En á ellefu ára aldrinum var ég farinn að grúska töluvert í tónlist og menningarheimi hennar, á allt öðrum tíma líka, enda erfitt að leita sér upplýsinga um tónlist og allt slíkt sem kemur með einni handahreyfingu á símann í dag. Þegar ég fékk Nevermind fyrst í hendurnar hélt ég að Kurt Cobain væri dáinn, þetta var árið 1991. Það var ekkert internet þá og engin leið að kanna hvort það væri rétt.“ 

 

„Ég var einu sinni algjör hálfviti“

Ómar segir það ótvírætt vera auðveldara fyrir áhugafólk um tónlist og listir almennt að afla sér upplýsinga og nýjunga með tilkomu tækni og sítengingar. Í tengslum við umræðuna um samfélagsmiðla og nútímavædda farsíma segist hann þó vera dauðfeginn að hafa alist upp þegar myndavélar voru ekki í hverjum vasa, ekki síst þegar hann stundaði skemmtanalífið af krafti.

„Heimurinn er búinn að breytast svo mikið, eins og hefur verið margsagt. Á unglingsárunum ef ég var hrifinn af stelpu, þá þurfti ég að hringja heim til hennar í landsímann. Í dag eru það samfélagsmiðlar sem sjá um megnið af þeirri erfiðisvinnu. Ég segi bara Guði sé lof að ekki voru til myndavélasímar eða samfélagsmiðlar þegar ég var sem verstur í mínu djammlífi,“ segir hann. 

„Sonur minn var heima um daginn í tölvunni með frænda sínum og ég spurði hvað þeir væru að gera. Þeir svöruðu: „Við erum að gúgla foreldra okkar.“ Þá hugsaði ég bara „Djöfull er ég feginn að ekki sé til einhver grein þar sem stendur „Ómar Úlfur hellaður á B5 eða Austur, standandi ber að neðan uppi á einhverju borði.“ Internetið gleymir engu og þarna slapp ég vel.“

Útvarpsmaðurinn sagði skilið við áfengi árið 2009 og sér ekki eftir þeirri ákvörðun. „Það er öllum hollt að skoða sjálfan sig. Ég þekki það sjálfur úr mínu lífi og verð að horfast í augu við að ég var einu sinni algjör hálfviti. Það var bara þannig, en ég hef reynt að bæta fyrir þær syndir og laga sjálfan mig og gera sjálfan mig ánægðari með lífið og tilveruna í leiðinni. Það er miklu orkufrekara að vera í fýlu en að vera jákvæður,“ segir Ómar.

 

Munur á hroka og sjálfsöryggi

„Þetta er svolítið vítt og algengt hjá kollegum mínum í útvarpsbransanum og víðar, þessi nagandi sjálfsefi. Það er sama þótt tíu manns komi upp að þér og segi að þú sért æðislegur, það er samt alltaf sjálfsefi til staðar. Ég vil samt hafa þetta svona og vil ekki laga þetta, klára þátt og segja „Djöfull er ég flottur.“ Þá yrði maður gjörsamlega akkerislaus og ruglaður. Þetta er að vísu fín lína. Maður á ekki að vera alltaf að naga sig niður, en ekki heldur detta í hrokann. Það síðasta sem ég vil vera í lífinu er hrokafullur, því það færi mér ógeðslega illa. Það er líka mikill munur á hroka og sjálfsöryggi.“

Ómar á tvö börn í dag með eiginkonu sinni, Báru Jónsdóttur. Þau gengu í það heilaga árið 2016 og stefna á að kíkja saman á Marrakesh næstkomandi apríl, í tilefni fjörtíu ára afmælis Ómars, en hann útilokar þó ekki möguleikann á góðum hátíðarhöldum. „Jú, þrátt fyrir að vera hættur að drekka sjálfur finnst mér óskaplega gaman að veita vín. Brúðkaup okkar hjónanna er enn í hávegum haft fyrir mikla stemningu, einfaldlega vegna þess að sterku vínflöskurnar voru opnaðar strax eftir matinn. Ég er ekkert ekkert viðkvæmur fyrir því,“ segir Ómar.

„Ég er fáránlega vel giftur. Ég er heppinn með eiginkonu mína og heppinn með alla í kringum mig; börnin, vinnufélaga, yfirmann, vini. Án alls þess í kringum mig væri ég ekki að gera neitt af viti. Miðað við hvernig líf mitt var þegar ég var yngri hefði líf mitt getað farið eina leið, og þá væri ég sennilega á götunni, eða þá leið sem ég fór og er á í dag.“

 

Aldrei verið jafn gagnslaus

Ómar rifjar upp tilfinninguna og ævintýrið sem því fylgdi að verða faðir í fyrsta sinn, sem að hans sögn var gífurlegur rússíbani, eins og algengt er hjá flestum. „Það var auðvitað ótrúlegt að verða faðir í fyrsta skiptið, en það fór ekki almennilega að síga inn fyrr en eftir nokkur ár. Það munu allar konur hlæja að þessu en ég var gjörsamlega uppgefinn eftir fæðingu sonar míns,“ segir hann í léttum tón.

„Fæðingin var ekki þetta bíómyndamóment á sjúkrahúsinu. Hún gekk alveg svakalega erfiðlega. Ég get auðvitað ekki ímyndað mér hvernig þetta var fyrir konuna og mér hefur aldrei fundist ég vera jafn gagnslaus nokkurn tímann á ævinni en þegar hann fæddist. Hefði einhver læknir sagt mér að fara út í horn og standa á höndum og reyna að klappa hefði ég tafarlaust gert það, bara til að gera eitthvert gagn. Síðan var það ótrúlega dýrmætt þegar ég fékk loksins son minn í fangið. Ég talaði við hann í fjörtíu mínútur, samkjaftaði ekki og lagði honum lífsreglurnar, tók til dæmis fram hversu mikilvægt væri að koma vel fram við mömmuna.“

Ómar segir flesta foreldra hljóta að tengja sig við þær stöðugu efasemdir og spurningar sem fylgja því að eiga börn, en þá bætir hann við að líka sé mikilvægt að læra af þeim í stað þess að vera einungis að leiðbeina. „Satt að segja hélt ég alltaf að ég yrði miklu betri pabbi en ég er,“ segir hann.

„Það er asnalegt að segja, en ég hélt að ég yrði þolinmóðari. Það er svo sem enginn fullkomið foreldri en þetta er endalaus spurningakeppni um hvort maður sé að gera rétt og hvenær eigi að beyta aga? Hvenær á maður að hlusta og leiðbeina og hvenær leyfir maður þeim að gera eigin mistök?

Þau eru mjög ólík systkinin í háttum. Sonur minn er mjög varfærinn og algjört „copy-paste“ af mér á meðan dóttir mín er svolítið háfleygari, sem er líka svolítið líkt mér, en ég er stöðugt að læra af börnunum mínum og það er líka hollt fyrir foreldra að geta viðurkennt það.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd dagsins: Steinunn og Stefán vöknuðu við skrýtið hljóð á klósettinu – Hefur þú lent í þessu?

Mynd dagsins: Steinunn og Stefán vöknuðu við skrýtið hljóð á klósettinu – Hefur þú lent í þessu?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kolbeinn Karl afhjúpar hvernig best er að kaupa fasteign – Svona eignast þú íbúð

Kolbeinn Karl afhjúpar hvernig best er að kaupa fasteign – Svona eignast þú íbúð
Fókus
Fyrir 5 dögum

Svanasöngur örvitanna – Ástir, eldgos og martraðir meðvirkra

Svanasöngur örvitanna – Ástir, eldgos og martraðir meðvirkra
Fókus
Fyrir 5 dögum

Söngvakeppnin 2020 – Seinni undanúrslit í kvöld

Söngvakeppnin 2020 – Seinni undanúrslit í kvöld
Fókus
Fyrir 6 dögum

Skærustu stjörnur heims fá ekki nóg af Hildi – Knús frá Elton John og trúnó með Renée

Skærustu stjörnur heims fá ekki nóg af Hildi – Knús frá Elton John og trúnó með Renée
Fókus
Fyrir 6 dögum

Manst þú eftir því þegar þessi óveður skullu á? „Ég á mínum 30 árum hef aldrei upplifað annað eins“

Manst þú eftir því þegar þessi óveður skullu á? „Ég á mínum 30 árum hef aldrei upplifað annað eins“