fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Gekk í gegnum sáran missi -„Mér finnst ég sjálf hafa verið að koma upp úr kafinu“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 22. nóvember 2020 09:00

Þóra Karítas Árnadóttir Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkonan og rithöfundurinn Þóra Karítas Árnadóttir gaf nýlega út bókina Blóðberg sem fjallar um líf og örlög Þórdísar Halldórsdóttur, fyrstu konunnar sem var drekkt í Drekkingarhyl á dögum Stóradóms.

Hún talar um söguna að baki bókinni, ferlið við að skrifa hanna og opnar sig um sáran missi í viðtali í helgarblaði DV sem kom út 13. nóvember.

Eftirfarandi er brot úr viðtalinu. 

Bókin hefur fylgt Þóru lengi. „Hún er búin að ferðast með mér gegnum fjögur ár. Ég byrjaði að skrifa hana í maí 2016, þá tók ég einn mánuð og þá var ég með tíu mánaða dreng með mér í Hveragerði, fór í svona rithöfundahús þar og þar fór ég í rosalega mikla heimildavinnu og svo skrifaði ég einn mánuð í Kjarvalsstofu í París.“

Bókin hefur fylgt henni í gegnum gleði og sorg. Hún var nýbökuð móðir þegar vinnan hófst, varð móðir í annað sinn nokkru síðar en þurfti svo einnig að kveðja sína eigin móður. Söguhetjuna úr hennar fyrstu bók og nána vinkonu í gegnum lífið. Þóra tárast þegar hún rifjar upp þá erfiðu reynslu.

„Þegar ég var að byrja að skrifa hafði mamma greinst með heilabilun og hún kvaddi fyrir ári síðan. Ég hef eiginlega ekkert talað um þetta í samhengi við bókina og ég hef notað síðasta ár í að púsla mér saman eftir þetta. En einhvers staðar í lok ferlisins áttaði ég mig á að ég hafði verið að fjalla um það hvernig það er að lifa andspænis dauðanum og í bókinni er líka verið að skrifa um móðurást. Svo þessi bók hefur stórar tilfinningar að geyma og líklega var mér lífsnauðsynlegt að finna þeim farveg.

Mamma var bókmenntakona. Hana dreymdi um að verða rithöfundur. Þegar ég eignaðist yngri drenginn minn fóru veikindi hennar að vera það alvarleg að það var alveg augljóst í hvað stefndi en þá fannst henni skemmtilegast að heyra um hvar ég væri stödd í skrifunum, það kveikti á öllum perum hjá henni

Hún var með heilabilun á sjónsviði heilans svo hún var til staðar, hennar innsæi og hennar persónuleiki var til staðar allt fram á síðustu stundu sem var mjög dýrmætt en auðvitað var mjög erfitt að horfa upp á og fylgja henni í gegnum þetta ferli. Svo mér finnst ég sjálf hafa verið að koma upp úr kafinu á meðan þessi saga var að koma upp úr kafinu.“

Móðir Þóru var hennar helsta hvatning

„Hún var algjör gleðigjafi og ég heyri alveg hvað hún hefði sagt: „Er þetta ekki svolítið gaman, máttu ekki vera svolítið ánægð með þig?“ Hún gaf mér svo mikið pepp alltaf og ég finn það að þegar fólk er að gefa mér endurgjöf og hrós þá finn ég alltaf fyrir hennar anda því það var svo mikið í hennar anda að byggja fólk upp.

Móðurástin í bókinni er líka hennar gjöf til mín að einhverju leyti því ég fékk skilyrðislausan kærleika í mínu uppeldi og í minni vináttu við hana.“

Að stoppa og finna til

Fyrir þá lesendur sem eru að glíma við sorg og missi vill Þóra deila þeirri nálgun sem hjálpaði henni í gegnum hennar sorg.

„Það eru náttúrulega margir að fara inn í jól núna sem verða þau fyrstu án ástvina því COVID er búið að taka ansi mörg mannslíf. Kannski því ég er búin að ganga í gegnum þetta, fara í gegnum fyrstu jólin, og fertugsafmælið án mömmu – það er alltaf erfitt að fara í gegnum þetta fyrsta – langaði mig að deila því ef það gæti gagnast einhverjum hvernig ég hef tekist á við þetta.

Lykillinn er að reyna að hvíla sig. Maður þarf að gera það þegar maður upplifir svona sorg, missi og áföll.

Mér finnst mikilvægt að horfast í augu við stöðuna eins og hún er hverju sinni og spyrja sig að því hvernig manni líður og reyna að finna tilfinningunum farveg, og líka að leyfa sér að vera í gleði og iðka þakklæti og finna í gegnum þakklætið hvernig maður tengir við gleðina.

Og svo það að hafa eitthvað að hlakka til. Það getur verið jólin, bók að lesa eða hvað sem það er. Þessi nálgun hefur reynst mér ágætlega. Ekki að afneita tilfinningum sínum og hoppa í gleðina heldur horfast í augu við hvar maður er staddur hverju sinni og mæta sjálfri sér með mildi og hvíld þar sem maður þarf á að halda frekar en að keyra áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Leyfa sér að stoppa og finna til. Leyfa sér líka að vera glaður ef maður er glaður. Ég trúi því að á hverjum degi sé gott að finna gleðina í sjálfum sér. Við höfum öll tækifæri til þess og á þessum tímum þar sem sumir eru að ganga í gegnum erfiðleika en aðrir kannski meira að einfalda líf sitt og hitta færri.

Við sem erum ekki að ganga í gegnum erfiðleikum núna, okkar verkefni er svolítið að tengja við gleðina og gefa gleðina og mér finnst gott að hafa fengið tækifæri til að gefa þættina inn í þetta ástand og bókina. Því maður vill að fólk geti haft það notalegt þrátt fyrir að við séum stödd í heimsfaraldri og ég vona að flestir séu að ná því svona rétt áður en við komumst vonandi saman upp úr kófinu. Ég vona að við tökum samkenndina með okkur út úr þessu ástandi og leyfum henni að fylgja okkur áfram veginn.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar