fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Þegar vídeóspólan kom til Íslands – Kvikmyndahúsaeigendum fannst hagsmunum sínum ógnað – Vídeógláp var talið skaðlegt börnum og ungmennum

Auður Ösp
Sunnudaginn 29. mars 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í upphafi níunda áratugarins var aðeins ein sjónvarpsstöð á Íslandi og á fimmtudagskvöldum voru engar útsendingar. Íslendingar þurftu oft að bíða lengi eftir því að nýjustu Hollywood-myndirnar kæmu í sýningu í kvikmyndahúsum. Það breyttist allt með tilkomu myndbandsspólunnar. Framboð á afþreyingarefni jókst gífurlega og nokkrum árum síðar voru myndbandaleigur á nánast hverju götuhorni. Auglýsingar um fyrstu myndbandstækin hvöttu fólk til að taka upp sjónvarpsdagskrá RÚV og horfa svo á myndefnið á fimmtudagskvöldum. Það voru þó ekki allir sáttir við myndabandavæðinguna. Kvikmyndahúsaeigendum fannst hagsmunum sínum ógnað og vídeógláp var talið skaðlegt börnum og ungmennum.

Á upphafsárum myndbandavæðingarinnar var hægt að kaupa eða leigja myndbönd eða ganga í svokallaða myndbandaklúbba. Videobankinn við Laugaveg var opnaður í maí 1980 og var ein fyrsta myndbandaleigan hér á landi ásamt Videospólunni sem rekin var á á horni Bræðraborgarstígs og Holtsgötu. Á næstu misserum spruttu myndbandaleigur upp eins og gorkúlur úti um allt land.

„Það má slá því föstu að myndbandaæðið er nú hafið fyrir alvöru hér á landi sem annarsstaðar. Þess má víða sjá merki, þó fyrst og fremst á þeim fjölda myndbandaleiga sem komið hafa fram í dagsljósið á undanförnum mánuðum. Horfið úr forstofuherbergjum og kjallarakytrum í vistlegt húsnæði, sumar hverjar við dýrustu verslunargötur borgarinnar. Myndsegulbandstæki eru óspart auglýst og seljast eins og heitar lummur að oss er tjáð. Blöð um video (myndbönd, myndsegulbönd) frá nágrannaþjóðunum hafa nú unnið sér veglegan sess í hillum bókabúðanna og til dæmis um uppgang þessa nýjasta eftirlætis neysluþjóðfélagsins má benda á að nokkur gamalgróin kvikmyndarit hafa séð sitt óvænna og bætt videoinu í blaðhausinn.“

Þannig hljómaði frétt Morgunblaðsins í október árið 1981.

„Ástæðurnar fyrir ásókninni  í „vídeóið“ eru margvíslegar. Þar kemur til tíska, forvitni, þrýstingur frá börnum og óánægja með íslenska sjónvarpið. RÚV er ætlað að þjóna breiðum hóp á einni rás með takmörkuðum sýningartíma. Stór hluti þjóðarinnar virðist hæstánægður með frammistöðu sjónvarpsins og fimmtudags- og sumarlokun mælist vel fyrir. En aðrir vilja meira og þá fyrst og fremst léttmeti til afþreyingar. Og þar koma myndsegulböndin til skjalanna,“ ritaði  Hjálmtýr Heiðdal í pistli í Morgunblaðinu í ágúst 1981.

Ekki áttu allir myndbandstæki til að byrja með og það var ekki fyrr undir lok níunda áratugarins að finna mátti myndbandstæki á nánast hverju heimili í landinu. Í  mars 1981 heimsótti blaðamaður myndbandaleigu við Skólavörðustíg og ræddi við einn af fastagestum leigunnar. Í greininni segir:

„Ég fékk mér myndsegulband á föstudaginn í síðustu viku, og ætli ég hafi ekki séð um 20 myndir frá þeim tima,“ sagði Páll P. Pálsson þar sem hann var staddur í Kvikmyndmarkaðnum á Skólavörðustíg, til þess að leigja sér eina spóluna í viðbót. „Það er staðreynd að síðan ég keypti tækið á föstudaginn, hef ég ekki farið í bíó,“ sagði Páll P. Pálsson og var ekkert óánægður með leiguverðið, þar sem hann gæti með þessu valið það sem hann sjálfur vildi sjá“.

„Það vita það líka allir að eins konar videoæði hefur gripið um sig meðal almennings. Það að fá sér video er hreinlega komið í tísku. Þannig keppast allir við að kaupa sér myndbönd og spólur þessar vikur og mánuði, sem það situr öllum stundum yfir í heimahúsum,“ sagði reiður kvikmyndahúsaeigandi í samtali við Helgarblaðið í september 1982. Aðsókn í kvikmyndahús hafði þá minnkað töluvert. Seinna meir áttu þó kvikmyndahúsin eftir að reka sínar eigin myndbandaleigur.

„Videovæðingin ógnar börnum þjóðarinnar“

Á þessum tíma var nær ekkert eftirlit með myndbandamarkaðnum á Íslandi. Eigendur myndbandaleiga vissu ekki hvað var leyfilegt og hvað ekki og hluti þeirra mynda sem boðið var upp þótti fara yfir öll velsæmismörk.

„Eins og gefur að skilja voru þetta afskaplega frumstæð fyrirtæki og allt öðruvísi uppbyggð en núna. Menn nánast hrúguðu upp í hillur hjá sér öllum þeim spólum sem þeir gátu komist yfir, og fólk leigði nærri því hvað sem var. Á þeim tíma biðu menn jafnvel bara eftir næstu spólu, sem kom inn, og horfðu á hana burtséð frá því hvað á henni var,“ sagði Ásgeir Þormóðsson, formaður SÍM, í samtali við Morgunblaðið árið 1990.

Og margir óttuðust áhrif vídeóvæðingarinnar á ungdóm landsins. Myndbandstækið var á mörgum heimilum notað sem barnapía.

Í október 1982 sendi Fóstrufélag Íslands frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Vídeóvæðing ógnar börnum þjóðarinnar. Sá tími, sem börn notuðu til heilbrigðra leikja fer nú í sjónvarpsgláp og getur gengið svo langt að þau njóti vart nægilegrar hvíldar. Ógnvænlegast er þó að efnið sem boðið er upp á er misjafn að gæðum og sjaldan við hæfi barna. Börn eru óvarðasti neytendahópurinn í okkar samfélagi og heimilin eru misvel í stakk búin til að stýra sjónvarpsnotkuninni. Fóstrur hvetja foreldra til að vernda börnin sín og gera þá kröfu til ráðamanna þjóðarinnar að hagsmunir barna sitji í fyrirrúmi fremur en gróðasjónarmið fárra manna.“

Í pistli sem birtist í Tímanum í júlí 1982 ritaði Ingibjörg Haraldsdóttir:

„Hér á landi hafa ekki verið gerðar neinar rannsóknir á áhrifum vídeógláps á börn og unglinga. Slíkar rannsóknir hafa hinsvegar verið gerðar í nágrannalöndum okkar, og niðurstöður þeirra ættu að nægja okkur sem víti til varnaðar. Þær eru allar á eina lund: ofnotkun sjónvarps og myndbanda hefur sljóvgandi áhrif, gerir börnin óvirk og þurrkar út skilin milli veruleika og óraunveruleika. Þeir sem stöðugt horfa á ofbeldisefni í þessum miðlum fara að líta á ofbeldi sem sjálfsagða lausn. Sú kenning að börn og unglingar fái útrás fyrir „meðfædda árásarhneigð“ með því að horfa á ofbeldi á skermi eða tjaldi hefur verið vegin og léttvæg fundin. Ofbeldi kallar á ofbeldi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda