fbpx
Miðvikudagur 05.ágúst 2020
Fókus

Grínið getur reynst algjört böl

Íris Hauksdóttir
Mánudaginn 9. september 2019 19:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jakob Birgisson hefur slegið í gegn sem uppistandari og nú er ár síðan hann flutti sína fyrstu sýningu. Í október mun hann endurtaka leikinn og hann hefur fengið til liðs við sig grínistann Jóhann Alfreð, sem gert hefur garðinn frægan með uppistandshópnum Mið-Íslandi. Jakob er jafnframt yngsti handritshöfundur áramótaskaupsins 2019 og segir það mikil forréttindi að vinna með reynslumiklu fólki.

Jakob hefur á stuttum tíma getið sér gott orð sem uppistandari en hann þreytti frumraun sína fyrir sléttu ári þegar hann troðfyllti veitingastaðinn Hard Rock átta kvöld í röð ásamt því að sýna bæði á Akureyri og Selfossi. Á þessum tíma stóð Jakob á krossgötum í lífinu, hann var tvítugur, nýbyrjaður í háskóla og foreldra hans fluttir úr landi. Sýninguna byggði hann á hversdagslegum áhyggjum, almennu dægurmálaþrasi Íslendinga og áleitnum spurningum, sem honum þótti nauðsynlegt að fá svör við. Jakob segir hugmyndir sínar að gríni koma alls staðar að. Í október heldur hann sitt annað uppistand í Tjarnarbíói með Jóhanni Alfreð og nefnist sýningin Allt í gangi — Jakob Birgis og Jóhann Alfreð. „Ég var búinn að gæla lengi við hugmyndina um að fara út í uppistand, eiginlega svo lengi að vinir mínir voru hættir að taka mark á mér,“ segir Jakob í samtali við blaðakonu. „Það var svo í afmæli móður minnar sem ég sló fyrst til og flutti fimmtán mínútur. Nokkrum mánuðum síðar var sýningin mín klár. Það var frekar notaleg upplifun að troða upp í fimmtugsafmæli móður minnar með fjölskyldu og vinum, en það gaf mér aukinn kraft og hvatningu.“

Framdi gríngjörning í algjörri uppreisn

Áður hafði Jakob tekið þátt í undankeppni Skrekks en hann segir Hagaskóla vera frábrugðinn öðrum grunnskólum, því hann heldur innanskólaforkeppnina Hroll og fer það atriði sem sigur ber úr býtum áfram í aðalkeppnina, Skrekk. „Þessi undankeppni skartar dómnefnd enda Hagaskóli þekktur fyrir að leggja allt í sölurnar þegar kemur að svona löguðu. Oftast eru þetta dans- og söngatriði, en í einhverri uppreisn hjá mér ákvað ég að halda einhvers konar gríngjörning, sem vann að lokum.

Ég fór því fyrir hönd skólans áfram í Skrekk og í kjölfarið fór boltinn aðeins að rúlla.

Ég var fenginn sem kynnir í söngkeppnum á vegum Menntaskólans í Reykjavík, að grunnskólagöngu minni lokinni. Eftir útskrift tók ég svo önn í stjórnmálafræði og eftir áramótin blossaði upp í mér einhver rómantík um að læra íslensku við Háskólann, en ég hætti fljótlega í háskólanum.“
Jakob segist vera ágætur námsmaður en að hefðbundið skólalíf henti honum ekki endilega.

„Mér hefur alltaf leiðst í skóla og það var svolítið uppsprettan að gríninu. Ég bullaði töluvert meira en að læra.

Ég var oft í einhverri uppreisn og leitaði stöðugt leiða til að grínast, svo ég þyrfti ekki að læra. Með tímanum fór ég svo að einbeita mér æ meira að bröndurunum og þróa með mér leið til að semja stutta og hnitmiðaða brandara sem hentuðu á sviði. Málið er, að það grínast allir, við mætum í matarboð og grínumst en fæstir hugsa þó hvernig hægt sé að útfæra brandarana á sviði. Í dag er ég mjög fastur í þessum hugsunarhætti, sem getur verið algjör böl. Ég reyni þó að láta þetta ekki trufla mig of mikið því það getur verið skrítið að vera staddur einhvers staðar og byrja að skrifa eitthvað hjá sér. En ég er í stanslausri leit.“

Hugmyndirnar kvikna oftast í sturtu

Það var í ágúst á síðasta ári sem Jakob hellti sér á fullu í undirbúningsvinnu fyrstu sýningar sínar en hann fékk vin sinn, Ísak Hinriksson, með sér í verkefnið. „Þrátt fyrir að Ísak sé aðeins einu ári eldri en ég hefur hann gríðarlega reynslu. Hann hefur meðal annars unnið með Mið-Íslandi sem tæknimaður og komið að hliðum uppistandsins sem ég þekkti lítið sem ekkert. Hann hefur starfað við að keyra leiksýningar og leikstýrt og skrifað þrjár stuttmyndir. Hann hefur því ekki bara listræna sýn heldur líka reynslu í að halda utan um allt. Og það er meira en að segja það, að bóka sal, setja sýningu í sölu og allt þetta ferli sem getur reynst mjög flókið, að minnsta kosti fyrir byrjanda. Ég á honum því mikið að þakka. Sýningin náði svo ágætu flugi, gekk raunar vonum framar, sem kom mér svolítið á óvart, þrátt fyrir að ég hafi verið nokkuð öruggur með það sem ég var að gera.

Maður þorir aldrei að láta sig dreyma um svona viðtökur en þetta var virkilega ánægjulegt.

Sem frumraun var þetta eðlilega hálfgerð tilraunarsýning og því er ég gríðarlega spenntur að gera næstu sýningu, því núna veit ég hvað ég er að fara út í. Handritið er í vinnslu en það er erfitt að svara því hvernig maður skrifar brandarana. Ég veit það eiginlega ekki sjálfur. Ætli maður læri það ekki með tímanum. Ferlið hjá mér hefst oft í sturtu eða í göngutúrum, svo leyfi ég hugmyndunum að gerjast í höfðinu á mér. Allt í einu finn ég samhengið og reyni að byggja sýninguna upp með þeim hætti.“

Mikið af bulli í höfðinu á mér

Jakob segist tengja við það algenga vandamál að hreinlega drukkna í hugmyndum þegar hann hefur lagt höfuðið á koddann. „Já, það er hrikalegt vandamál, en ég á almennt mjög erfitt með svefn. Pabbi hefur oft bent mér á að fara til svefnsérfræðings. Hugsanirnar halda fyrir mér vöku og það er ákveðið böl. Ég væri oft til í að geta hreinlega slökkt á mér. Helst af öllu myndi ég vilja vera björn og leggjast í híði því flestar af þessum hugsunum er gagnslausar. Ég fæ engar tímamótahugmyndir sem munu gera eitthvert gagn, breyta loftslagsvandanum eða eitthvað slíkt. Ekki þar fyrir, ég held að grín sé alveg jafn mikilvægt og hvað annað, en í grunninn eru þessar hugsanir að mestu leyti bara bull. Það er mikið af bulli í höfðinu á mér, og það getur reynst erfitt á köflum.“

Málið er að það grínast allir, við mætum í matarboð og grínumst en fæstir hugsa þó hvernig hægt sé að útfæra brandarana á sviði. Mynd: Eyþór Árnason

Spurður hvort hann einblíni á ákveðna samfélagshópa eða nýti sér þá sérstöðu að tilheyra yngri kynslóð grínista, segist Jakob lítið velta sér upp úr aldri. „Ég hugsa aldrei um að ég sé ungur og hvernig ég eigi að nýta mér það. Uppistandssenan er frá mínum bæjardyrum séð frekar ung, fólk á fertugsaldri er ekki gamalt. Uppistand er þónokkuð nýtt af nálinni hér á Íslandi í þeirri mynd sem við sjáum í dag. Við sjáum sífellt fleiri sýningar hjá einstaklingum, en fólk er vissulega vanara að sjá aðeins eldri uppistandara en mig. Ég bý sem dæmi enn hjá foreldrum mínum og tala um það sem fólki finnst fyndið í því samhengi, svo sjálfkrafa er ég með einhverja sérstöðu þar, en það hafa allir eitthvað, sama hvort það er aldur eða annað. Ég reyni aðallega að tileinka mér þá hugsun, hvað er fyndið í almennri hegðun. Það þarf ekki að vera flókið því það sem er einfalt er oftast best.“

Blindfullt fólk á ekki að hlusta á grín

Þegar Jakob er spurður um muninn á milli kynjanna í uppistandi segir hann líklega einhverja breytu þar í. „Ég vil fara varlega í að tala um það, enda er erfitt fyrir mig að álykta hvernig það er að vera kvenkyns uppistandari þegar ég hef ekki reynsluna af því sjálfur. Hins vegar búum við í samfélagi sem leitast við að festa konur í ákveðnu hlutverki og gerir almennt meiri kröfur til þeirra. Annars held ég að best sé að spyrja konur út í þeirra upplifun af skemmtanabransanum fremur en að ég sé að tjá mig mikið um það.“

Aðspurður segist Jakob ekki hafa lent í miklum hrakförum sem uppistandari þótt starfið sé ekki alltaf dans á rósum. „Ég reyni að vera æðrulaus. Það versta sem ég get hugsað mér að lenda í sem uppistandari er helst salur þar sem langt er liðið á kvöldið og maður nær ekki athyglinni. Blindfullt fólk, sem getur ekki talað lengur saman, á ekkert að vera hlusta á grín. Það er því almenn regla hjá uppistöndurum að vera ekki of seint í dagskránni. Það er gott að fá smá grín í upphafi eða við miðju kvölds, létta aðeins á stemningunni, svo getur fólk haldið skrallinu áfram og gert það sem því sýnist. En auðvitað getur grínið líka ekki farið á þann veg sem maður óskaði sér, það er hægt að lenda á erfiðum hópi sem hlær ekki eins mikið og flestir. Það er líka allt í lagi. Og ég er óhræddur við að gera mistök, það þroskar mig og gerir mig að betri grínista.“

Óttast ekki að verða aflífaður af virkum í athugasemdum

Mikið hefur verið rætt um hvað megi og hvað megi ekki í uppistandi. Má gera grín að hverju sem er? „Ég hef aldrei þurft að spá mikið í það hverju má gera grín að og hverju ekki. Ég hef enga línu til að miða við nema mín eigin siðferðismörk sem ég veit svo sem ekkert sjálfur hvar liggja. Það er kannski bara eðlilegt að reyna að teygja einhver mörk og sjá hvað maður fílar sjálfur, kannski þarf maður einhvern tímann að stíga yfir einhverja línu sem ég held að ég hafi nú ekki gert hingað til. En ég lendi lítið í því að hugsa um að ég megi ekki segja eitthvað, því það er hægt að segja allt sem maður vill á sinn hátt og gera grín að öllu, það skiptir bara máli hvernig það er gert og ég hef engar áhyggjur af því. Ef ég vil segja eitthvað þá finn ég leið til þess. Auðvitað grínast maður á alls konar hátt og um ýmislegt en það er svo ofsalega hollt og ég hef upplifað það hvað mér finnst í gegnum grín og myndað mér skoðanir þannig. Einhver umræða hefur verið um að það megi ekkert segja, ég held að það sé ekkert sérstaklega á rökum reist. Kannski er fólk aðallega hrætt við að segja eitthvað og vera í kjölfarið aflífað á netinu, en fyrir mér er það ekkert sérstakt áhyggjuefni.“

Þakklátur fyrir að læra af þessu fólki

Samhliða uppistandinu tekst Jakob á við enn stærra verkefni. Hann er yngsti handritshöfundur áramótaskaupsins. Undirbúningsvinna er þegar hafin og segir hann mikinn heiður að fá að starfa með svo stórum hópi hæfileikafólks. Hópurinn samanstendur af Reyni Lyngdal leikstjóra, Dóru Jóhannsdóttur yfirhandritshöfundi, Lóu Hjálmtýsdóttur, Þorsteini Guðmundssyni, Völu Kristínu Eiríksdóttur, Sævari Sigurgeirssyni, Hugleiki Dagssyni, og Jakobi sjálfum. „Reynir Lyngdal leikstjóri hafði samband við mig, en framleiðslufyrirtækið Republik sér um framleiðslu skaupsins. Þetta er gott fólk og með mikla reynslu. Við erum líka á mismunandi aldri sem er jákvætt og ég er þakklátur fyrir að fá að læra af þessu fólki, það er svo sannarlega ekki sjálfgefið. Eins og staðan er í dag er það alveg raunhæfur möguleiki að ég leggi grínið fyrir mig sem ævistarf, enda er fjöldi fólks sem vinnur við það, en ég hef ekki ákveðið neitt. Ég starfa sem grínisti eins og er. Og á meðan ég get það og hef áhuga á því held ég áfram. Þetta er klárlega eitthvað sem ég vil halda opnu og gera eins vel og ég get.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 4 dögum

Drífa Snædal: Hrægammarnir reyna að endurskipuleggja auðinn

Drífa Snædal: Hrægammarnir reyna að endurskipuleggja auðinn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Riley Keough heiðrar minningu bróður síns með húðflúri

Riley Keough heiðrar minningu bróður síns með húðflúri
Fókus
Fyrir 5 dögum

Tímavélin: „Æskilegt er að flugfreyjan sé lagleg og snotur í vexti“

Tímavélin: „Æskilegt er að flugfreyjan sé lagleg og snotur í vexti“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Eins gott að það hafi verið gaman á Rey Cup litlu skítarnir ykkar“

„Eins gott að það hafi verið gaman á Rey Cup litlu skítarnir ykkar“
Fókus
Fyrir 1 viku

Vikan á Instagram: „Ég get allt sem einhver maður gæti gert“

Vikan á Instagram: „Ég get allt sem einhver maður gæti gert“
Fókus
Fyrir 1 viku

Saman í 29 ár – Stundum kemur upp afbrýðisemi og tortryggni

Saman í 29 ár – Stundum kemur upp afbrýðisemi og tortryggni
Fókus
Fyrir 1 viku

Öllu gríni fylgir einhver afstaða

Öllu gríni fylgir einhver afstaða
Fókus
Fyrir 1 viku

Stjörnuspá vikunnar: Nú gjörsamlega rignir peningum yfir Tvíbura

Stjörnuspá vikunnar: Nú gjörsamlega rignir peningum yfir Tvíbura