Föstudagur 13.desember 2019
Fókus

Martröð Magnúsar Scheving: „Það blæddi og blæddi út um allt“

Fókus
Mánudaginn 22. júlí 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Scheving, athafnamaður og skapari Latabæjar, var gestur hlaðvarpsþáttar Snorra Björns og í ítarlegu spjalli var þar rætt um ferilinn, kapítalisma og umhverfismál, svo dæmi séu nefnd. Auk þess rifjar hann upp martröðina sem fylgdi mikilvægasta fundi lífs síns.

Ferðinni var heitið til Bandaríkjanna og átti Magnús erindi við framleiðendur Nickelodeon til að ræða framtíðarmöguleika Latabæjar og framleiðslu á sjónvarpsþáttum. „Við biðum eftir þessum fundi í tvö ár og menn sögðu mér að það væri ekki hægt að landa þessu,“ segir Magnús.

„Ég var nýbúinn að láta skera úr mér hálskirtlana og hafði unnið dag og nótt að kokkabók Latabæjar. Ég mátti í rauninni ekkert vinna rosalega mikið á þessum tíma. En eldsnemma einn morguninn byrjar allt í einu að blæða úr mér. Ég var á bílnum mínum og það blæddi og blæddi út um allt.

Það var enginn á læknadeildinni til að taka á móti mér. Ég þurfti að bíða í marga klukkutíma og læknirinn bræddi þetta saman. Hann sagði að það eina sem ég mætti ekki gera væri að fara í flug. Ég sagðist vera á leiðinni í flug klukkan fimm til Bandaríkjanna á mikilvægasta fund lífs míns. Læknirinn sagði að ég væri kominn með svo mikið blóð í magann og líkaminn gæti ekki melt blóðið. „Þú þarft að æla því og líkaminn getur ekki ælt því vegna þess að þú ert búinn að sjóða þig í hálsinum,“ sagði læknirinn mér. En ég fór í flugið, vélin var rétt komin á loft og ég varð að sjálfsögðu fárveikur.“

Í kjölfarið tóku við veikindi sem Magnús hafði aldrei upplifað áður á ævi sinni. Hins vegar tókst honum að jafna sig með þrjóskunni einni saman og náði að mæta á fundinn næsta dag. Eftir langa söluræðu og ýmsar listir sem hann þurfti að leika til að sýna framleiðendum hvað í Íþróttaálfinum bjó, var samningurinn samþykktur. Skemmst er þó að segja frá því að heilsan hrundi aftur um leið og fundinum var lokið.

Áformin með Nickelodeon gengu að vísu ekki upp og breyttist stefnan því lengra sem á leið, sem athafnamaðurinn var mjög þakklátur fyrir seinna meir og gerði það honum kleift að fara aðrar, farsælli leiðir með vörumerkið sitt. Árið 2011 seldi Magnús Latabæ til stórfyrirtækisins Turner og fær hann greitt í stefgjöldum þessa dagana, en þættirnir eru enn í dreifingu víða um heim.

„Ég hef aldrei sagt barni að það megi ekki borða hamborgara“

Magnús lýsir sjálfum sér sem mikilli keppnismanneskju og lýsir því hvaðan uppruni Latabæjar kemur. „Þegar ég byrjaði að kenna leikfimi um allan heim, þá voru kannski tíu einstaklingar sem ferðuðust um heiminn og kenndu kennurum leikfimi. Bylgjan var ekkert byrjuð um allan heim og þá voru ákveðnir einstaklingar sendir út til að kenna kennurum. Þá fór ég að átta mig á því að krakkar myndu sitja eftir. Það er verið að minnka allt speis í stórborgum, þannig að náttúran er ekki þarna til að leika sér í kringum,“ segir Magnús og heldur áfram:

„Þá fór ég að hugsa: „Hvernig get ég mótiverað krakka í að lifa heilbrigðu lífi? Og ef við höldum áfram að dæla þessum viðbjóðslega mat ofan í börnin þá gætu þau dáið á undan foreldrum sínum.“

Svo tókst mér að selja sjónvarpsþætti til rúmlega 170 landa á fimm hundruð milljón heimili. En ég hef aldrei sagt barni að það megi ekki borða hamborgara eða nammi, en þegar Íþróttaálfurinn borðar sykur, þá líður yfir hann, það er að vísu annað mál. Ég vildi bara hvetja krakka til að þau myndu sjálf átta sig á þessu. Það var greinilegur munur á þeim krökkum sem horfðu á Latabæ, og vissu ýmislegt um heilbrigði, heldur en þeim sem horfðu ekki á Latabæ.“

Að sögn Magnúsar jókst sala á grænmeti og ávöxtum um 22% á Íslandi þegar Latibær var í sýningum.

Vinsælli en Spider-Man og Batman

Magnús segir Latabæ hafa verið á brúninni að „meika það“, en það hafi ekki orðið að veruleika. Hann segir barnaefni oft vera framleitt til þess að selja óhollustu, frekar en að samningar séu seinna gerðir við sjónvarpsefni sem er þegar í framleiðslu. Magnús segir að stórrisarnir hjá McDonald‘s hafi boðið Latabæ samstarf en þá var hann ekki lengi að hafna því, þrátt fyrir að slík höfnun hafi verið slæm ákvörðun fyrir fjárfestana hans, samkvæmt honum.

Hefði einnig munað talsvert miklu fyrir vinsældir þáttanna ef Latibær hefði tekið þátt í aukinni framleiðslu á leikföngum, sem Magnús var ekki tilbúinn í. Það hvarflaði aldrei að honum að selja fleiri leikföng en búningar voru aftur á móti betri viðskiptaákvörðun. Þá fullyrðir Magnús að Íþróttaálfabúningar hafi selst í miklu meira magni á Íslandi heldur en Spider-Man- og Batman-búningar.

„Þegar þú ferð inn í þetta maskínubatterí, sem eru stóru aðilarnir; Disney, Nickelodeon, Turner og allt svoleiðis – allt barnaefni í heiminum er að selja drasl, hvort sem það er plastdrasl eða einhvern mat sem er það lélegur að þú þurfir fígúru á hann til að selja það. Verslunin er heldur ekkert til í að moka út hollum mat. Þær græða meira á draslfæðunni.“

Segir Magnús að Latibær hafi verið á undan sinni samtíð, að nú sé komin meiri vitundarvakning fyrir heilbrigðari lífsstíl, plastnotkun og þykir umhverfisspilling vera líklegri til að verða gagnrýnd nú en áður. Magnús hefur þó enga eftirsjá og er stoltur af því að hafa aldrei gefið eftir.

„Ég vann aldrei í Latabæ fyrir peninga, ég gerði þetta allt fyrir ástríðuna. Ég hefði getað fengið milljón dollara fyrir McDonald‘s-dílinn, en þá hefði Latibær bara dáið.

Ég held að þessi nýja kynslóð sem nú er að koma upp eigi eftir að hugsa um allt aðra hluti. Hún mun ekki vilja margnýta jörðina svona, þetta er bara rugl. Við þurfum aðeins að spá í það hvernig við misnotum jörðina og erum alltaf að stækka og stækka, en jörðin stækkar ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd dagsins: Þetta blasti við þegar hann ætlaði til vinnu á Akureyri í morgun

Mynd dagsins: Þetta blasti við þegar hann ætlaði til vinnu á Akureyri í morgun
Fókus
Fyrir 2 dögum

Alma Geirdal og Guðmundur trúlofuð

Alma Geirdal og Guðmundur trúlofuð
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hjörtur Sævar: „Ekki fara fullur á Facebook“

Hjörtur Sævar: „Ekki fara fullur á Facebook“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Office-stjarnan Rainn Wilson gerir lítið úr Stjörnu-Sævari – „Whatever dude“

Office-stjarnan Rainn Wilson gerir lítið úr Stjörnu-Sævari – „Whatever dude“