fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

„Hvern andskotans djöfulinn eruð þið að þvælast…“ Af Gústa guðsmanni

Ritstjórn DV
Mánudaginn 9. desember 2019 20:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Gústi – alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn, eftir Sigurð Ægisson, guð- og þjóðfræðing. Eins og titillinn ber með sér er þar á ferðinni ævisaga Gústa guðsmanns, sem Gylfi Ægisson gerði ódauðlegan í samnefndu lagi sem kom út sumarið 1985.

Gústi var fæddur í Dýrafirði 29. ágúst árið 1897 og hét fullu nafni Guðmundar Ágúst Gíslason. Hann er að líkindum nafntogaðasti íslenski sjómaður 20. aldar, að öðrum ólöstuðum, eins og segir á bókarkápu, „var orðinn hálfgerð þjóðsagnapersóna meðan hann enn lifði, hvað þá eftir að hann lést. Hann þekkti hafið eins og fingurna á sér, var klár á öllu veðri og notaði segl ef hægt var. Það var sama hversu tryllt náttúruöflin gerðust, alltaf náði þessi járnkarl landi. Og ótti var ekki til í honum. Af því að hann, að eigin sögn, var aldrei einn. Guð var þar líka.

Gústi var kjarnyrtur, bölvaði út í eitt og ragnaði en betra hjarta var ekki til. Hann studdi fátæk börn úti í heimi til náms og gaf til þess nánast allt sem hann aflaði á litlu trillunni sinni, frá 1949 og þar til hún var búin á því, um 30 árum síðar.

Á einum stað í bókinni er eftirfarandi texta að finna:

Fleyið hans Gústa var ekki stórt en hafið nánast óendanlegt á að líta, þegar út fyrir Siglunesið var komið. Og hann úti í alls kyns veðrum. Því mátti lítið út af bregða. Þetta vissu menn og höfðu vakandi auga með kristniboðanum, jafnt meðvitað og ómeðvitað, sem var ekki par ánægður með það.

            Skafti Stefánsson á Nöf (f. 1894, d. 1979), útgerðarmaður og síldarsaltandi, og þá jafnframt formaður Björgunarsveitarinnar Stráka, fór einhverju sinni í kolbrjáluðu veðri með nokkrum öðrum á Mjölni EA 537 til leitar, sennilega þegar árið 1949. Þeir voru komnir töluvert út fyrir Neskrók en sjá ekki neitt vegna hríðarkófs. Þeir eru við það að gefast upp og snúa við, þegar einhver hljóð taka að berast þeim til eyrna. Við nánari eftirgrennslan er verið að syngja „Hærra, minn Guð, til þín.“ Þeir stíma á lagið og hitta þar fyrir kristniboðann, sem liggur hinn rólegasti aftur í skut.

            Ári síðar eða tveimur fara menn aftur til leitar, þegar ekkert bólar á karli á leið til hafnar. Þar er til frásagnar Guðni Gestsson (f. 1928). Hann segir:

            Faðir minn hét Gestur Guðjónsson, skipstjóri, og hann átti 47 tonna bát sem hét Grótta EA 364. Einn eftirmiðdag hringir hafnarvörðurinn á Siglufirði og spyr föður minn hvort báturinn sé gangfær og hvort það sé hægt að fara út á sjó. „Já, já.“ Svo að hann segir föður mínum að þeir séu allir komnir að, bátarnir sem hafa róið þennan daginn til fiskjar, nema Gústi guðsmaður. Og hafnarstjórinn spyr pabba hvort að hann myndi vilja fara og athuga um Gústa. Og það var sjálfsagt að gera það. Og faðir minn bað mig að koma með, Friðfinn Níelsson líka, sem var þá vélstjórinn og meðeigandi hans í þessum bát, og Valda Rögnvalds sem var maður sem var hér á Siglufirði. Og við förum. Það var mjög þungbúið veður, þrjú, fjögur vindstig en skýjað og þoka. Og þegar við erum komnir langleiðina út að Siglunesi, þá heyrum við einhvern …, eins og söng, og það er siglt á hljóðið og þar sjáum við að Gústi guðsmaður er á sínum báti á leiðinni inn fjörðinn og allt virtist vera í góðu lagi hjá honum. En hann söng hástöfum sálma þegar við komum að honum. Þegar við nálgumst hann meira, þá var siglt þannig að hann var á hléborða við okkur svo að hvorki sjór eða vindur hafði áhrif á hans bát. En þá segir hann við okkur, þegar við erum komnir þarna nálægt honum: „Drengir, hvern andskotans djöfulinn eruð þið að þvæla út á sjó í svona brjáluðu veðri?“ Og það tóku því allir náttúrulega mjög vel og svo var bara báturinn hans, Sigurvin, tekinn í slef og við fórum til baka, til Siglufjarðar.

 

Sigurður vann að gerð þessarar sjöundu og nýjustu ritsmíðar sinnar í næstum 20 ár og leitaði víða fanga, skrifaðist m.a. á við fjölda manns erlendis.

Bókin, sem er um 480 blaðsíður að stærð, er byggð á rúmlega 550 heimildum, jafnt munnlegum sem rituðum/prentuðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma
Fókus
Fyrir 3 dögum

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“