Bráðum koma blessuð jólin, veskin fara að kenna til. Þau eru ekki ókeypis þessi blessuð jól, og eru oft mikill álagstími hjá fólki sem sér fram á gífurleg útgjöld og mikið álag. Til að fá grófa heildarsýn yfir aukin útgjöld vegna jólanna þá kynnir DV hér til sögunnar meðalfjölskylduna okkar. Tveir foreldrar sem reka saman heimili og eiga tvö börn á framfæri. Hér er á ferðinni meðalfjölskylda, með meðaltekjur og meðalvæntingar.
Jólagjafir
Erfitt er að segja til um slíka upphæð með vissu, enda misjafnt hvað fjölskyldur og einstaklingar gefa margar gjafir. Margir hafa í gegnum tíðina unnið með ákveðnar viðmiðunarreglur og mun blaðamaður hér styðjast við eftirfarandi:
Börn : 15–20 þúsund
Maki: 15–20 þúsund
Aðrir: 3–5 þúsund
Aðrir hjá viðmiðunarfjölskyldunni okkar, systkin, foreldrar, vinir, frænkur og frændur, eru alls tólf talsins. Kostnaður við gjafir væri því á bilinu 96.000–140.000.
*Hér hefði meðalfjölskyldan þó getað sparað með því að gefa heimatilbúnar jólagjafir. Fallega skreyttar krukkur með heimatilbúnum jólabakstri eða annað sniðugt og þar hefði aðeins þurft að greiða fyrir hráefniskostnað, skreytipenna og krukkur og kostnaðurinn því numið um 20 þúsund krónum í heildina.
Jólamaturinn
Meðalfjölskyldan okkar heldur jólin heima og borðar hinn klassíska íslenska jólarétt, hamborgarhrygginn, með helsta meðlæti og að sjálfsögðu Quality street-konfekt, og malt og appelsín.
Þrjú kíló af hamborgarhrygg á beini kosta rúmlega 5 þúsund krónur. Með hryggnum þarf að kaupa meðlæti; kartöflur, sósu, salat, drykki og eftirrétt og væri heildarkostnaður við jólamatinn því um 15 þúsund krónur, gróflega áætlað. Fjölskyldan okkar vill að sjálfsögðu einnig eiga til gott kaffi og konfekt til að bjóða gestum upp á og verður því heilarkostnaður, vegna matarinnkaupa fyrir aðfangadag eingöngu 20 þúsund krónur.
*Hér hefði meðalfjölskyldan okkar getað sparað sér töluverðar fjárhæðir með því að þiggja boð í jólamat hjá vandamönnum, jafnvel þótt hún tæki að sér að koma með eftirrétt sem þakklætisvott.
Jólatré
Í dag er orðið nokkuð algengt að gamla góða grenitréð hafi vikið fyrir sígrænu gervijólatré. Meðalfjölskyldan okkar hefur ekki farið þá leið, enda kann hún vel við jólalegu grenilyktina sem fylgir ekta jólatré.
Fjölskyldan okkar fékk sér meðalstórt jólatré og borgaði fyrir það 7.000 krónur.
*Hér hefði fjölskyldan mögulega getað sparað sér pening með því að kaupa gervijólatré. Jafnvel þótt sparnaðurinn væri lítill fyrstu jólinn þá myndi upphaflegur kostnaður borga sig til baka á þeim fjölda ára sem hægt væri að brúka sama tréð.
Jólaföt
Enginn vill fara í jólaköttinn, svo fjölskyldan fær öll ný föt fyrir jólin. Fjölskyldan miðar við 10 þúsund krónur í föt á börnin og 20 þúsund í föt á fullorðna fólkið.
Heildarkostnaður: 60.000 krónur.
*Nú eru komnir markaðir á borð við Extraloppuna og Barnaloppuna þar sem hægt er að kaupa notuð föt á hagkvæmu verði. Oft sér varla á þessum fatnaði og því þarf engum að finnast miður að kaupa notuð jólaföt, enda er það bæði hagkvæmt og umhverfisvænt. Og varla þarf að nefna að það er engin heilög skylda að kaupa ný föt fyrir jólin. Þeir sem óttast jólaköttinn geta keypt sér nýtt sokkapar og svo hringt stoltir inn jólin í þeim fötum sem þeim líður best í.
Jólaskraut og pappír
Meðalfjölskyldan okkar er ein af þeim sem komast ekki í gegnum hátíðarnar án þess að kaupa smávegis af nýju glingri, enda breytist jólaskrauttískan á milli ára. Hins vegar kaupa þau ekki allt nýtt og endurnýta skraut frá fyrri árum. Þetta árið sjá þau fram á að þurfa að endurnýja jólakúlur á jólatréð þar sem jólakötturinn á heimilinu olli töluverðri rýrnun á síðasta ári, en auk þess þurfti að kaupa nýjar seríur í IKEA þar sem nokkrar seríur höfðu gefið upp öndina á milli ára, auk þess sem að annað foreldrið á heimilinu tók ekki í mál að seríurnar væru ekki allar í stíl, sem hitt foreldrið samþykkti með miklum fögnuði til að þurfa ekki að glíma við hina ógurlegur seríusnúruflækju, líkt hefur fallið í hlut þess síðustu árin.
Heildarkostnaður: 6.000 krónur.
*Fréttablaðið, ónýtar bækur, gamlar teikningar sem þú gerðir í skóla og foreldrar þínir hafa „skilað“ þér til baka 30 árum síðar, geta fengið nýtt líf sem jólapappír. Þetta má svo binda saman með fallegu snæri.
Jólaklipping
Meðalfjölskyldan fór öll í klippingu fyrir jólin og annað foreldrið lét setja strípur í rót. Kostnaður vegna þess á hárgreiðslustofu með miðlungs verðlagi, fór í 30 þúsund krónur fyrir þau öll fjögur.
*Hér hefði fjölskyldan mátt eiga notalega stund við sjónvarpið og klippt hvert annað í leiðinni. Afraksturinn hefði líklega verið grátbroslegur, sem hefði veitt gott tækifæri til að taka skemmtilega fjölskyldumynd á símana og senda út sem jólakveðju. DV mælir gegn því að börn yngri en 10 ára fái að vera eftirlitslaus í kringum hár og skæri. Síðan er að sjálfsögðu engin skylda að fara í klippingu fyrir jólin. Jafnvel ágætt að leyfa hárinu að vaxa til að halda hita á kollinum yfir köldustu mánuði ársins.
Framkvæmdasjóður jólasveina
Fjölskyldur með börn þurfa flestar að greiða frjáls framlög í framkvæmdasjóð jólasveinanna, til að tryggja að börn þeirra fái örugglega í skóinn. Þessir jólasveinar eru ekki menntaðir í viðskiptafræði og treysta því á frjáls framlög til að halda sér réttum megin við núllið í bókhaldinu. Meðalfjölskyldan okkar miðar við 500 krónur á hvern jólasvein, nema Stekkjastaur, sem fær 2.000 krónur. Heildarkostnaður: 8.000 krónur.
Jólaeldsneyti
Meðalfjölskyldan á og rekur einn bíl. Í kringum jólin aukast ferðir á einkabílnum töluvert. Það þarf að keyra á milli búða, keyra á milli ættingja, keyra gjafir á milli, aka á milli jólaboða og þvíumlíkt.
Aukinn eldsneytiskostnaður fjölskyldunnar í desember nemur um hálfum tanki, eða 7.000 krónum á litla bensíndrifna fólksbílnum hennar.
*Hér er áberandi hægt að spara með því að hjóla, ganga eða nýta sér almenningssamgöngur.
Niðurstaða: Jólin kosta 234.000–278.000 krónur.
Þessi kostnaður er töluverður, ef öll útgjöldin falla á sama mánuðinn. En svona eru jólin, ekki satt?