fbpx
Fimmtudagur 02.júlí 2020
Fókus

Orkudrykkjafaraldurinn – Ungmenni á Akureyri eiga met í orkudrykkjaneyslu

Íris Hauksdóttir
Miðvikudaginn 20. nóvember 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Neysla orkudrykkja meðal unglinga hefur aukist til muna á undanförnum árum. Álfgeir Logi Kristinsson, dósent við West Virginia University, segir yfir 80 prósent fólks reglulega koffeinneytendur og það sé áhyggjuefni hversu hátt hlutfall neytenda þeirra sé á unglingsaldri hér á landi.

„Koffein er ávanabindandi efni sem virkar á miðtaugakerfið. Þegar neyslu er hætt má búast við fráhvarfseinkennum sem kalla í kjölfarið á frekari notkun. Að meðaltali tekur það koffein fimm klukkustundir að hreinsast úr líkamanum en tilfinningin sem fólk fær við fyrsta kaffibollann er í raun skilaboð til heilans um að hann sé laus frá fráhvarfseinkennum. Stóra áhyggjuefnið er hve mikill hluti neytenda á Íslandi er á unglingsaldri.“

Amfetamín í sama flokki lyfja

Og þá á Álfgeir ekki við klassíska kaffidrykki heldur drykki almennt sem kenndir eru við orku.

„Það er alls ekki rétt að kenna þessa drykki við orku því margir af þessum koffeindrykkjum eru gjörsneyddir allri orku. Að mínu mati þurfum við til að byrja með að endurskilgreina alveg hugtakið „orka“. Ef þú talar við næringarfræðinga þá myndu þeir væntanlega segja þér að orka sé brennsluefni fyrir líkamann. Eitthvað sem hann getur gengið á, rétt eins og hefðbundin fæða. Koffein er að þessu leyti ekki orka. Koffein er kemískt efni með virkni við dópamínkerfi heilans og lætur okkur því finnast við hressari tímabundið. Amfetamín er í sama flokki lyfja. Við myndum tæplega halda því fram að amfetamín væri orka jafnvel þó að neytandanum finnist hann orkumeiri eftir notkun. Í einfölduðu máli þá virkar koffein eins – bara vægar. Með ofneyslu á koffeini erum við auðvitað að stórauka líkur á eitrun, sem og harkalegri fráhvarfseinkennum.“

Álfgeir segir sérstaklega varhugavert að markaðssetja koffeindrykki fyrir börn og ólögráða unglinga, einkum og sér í lagi sem heilsuvöru, enda sé það með öllu kolröng staðreynd. „Það er fyrst og fremst slæmt að markaðssetja drykki sem þessa til ungmenna. Meginástæðan er sú að mikil neysla á stuttum tíma, sérstaklega hjá léttum einstaklingum, eins og börnum og unglingum, eykur mikið líkur á bæði harkalegri fráhvarfseinkennum og eitrun. Eins og staðan er í dag er stór hluti nemenda í efstu bekkjum grunnskóla og sérstaklega í framhaldsskólum, að fara í gegnum fráhvarfseinkenni á skólatíma. Það kallar aðeins á eitt, meira koffein, og þannig er vítahringur koffeinfíknar hafinn.“

Blaðamaður og ljósmyndari lögðu leið sína í Fjölbrautaskólann í Garðabæ og tóku tali nokkra nemendur við skólann. Athygli vakti að þeir reyndust mjög meðvitaðir um skaðsemi orkudrykkja.

Hræðist skjálftann sem fylgir

Mynd: Eyþór Árnason

„Ég persónulega drekk ekki gos og hef aldrei gert. Það er kolsýra í orkudrykkjum og ég drekk þá þegar ég þarf að vakna eða halda mér vakandi. Ég veit ekki hvort það sé koffínið sem vekur mig eða ískaldur drykkurinn með gosi sem ég er ekki vön að drekka. Mér finnst aðeins örfáir orkudrykkir góðir þar sem flestir eru alltof sykraðir og með ógeðslegu gervibragði. Ég veit að þeir eru ekki góðir fyrir mann og þess vegna drekk ég þá aðeins þegar þörf er á. Þegar ég drekk orkudrykk, hvort sem hann vekur mig eða gosið og kuldinn, þá finnst mér ég vakna og verða spenntari. Eitt sem hræðir mig hins vegar er að stundum skjálfa á mér hendurnar.“

Salný Kaja Sigurgeirsdóttir.

 

Hætti að hugsa um þreytuna

Mynd: Eyþór Árnason

„Mér finnst orkudrykkir ekki góðir, hvorki á bragðið né fyrir heilsuna. Ég sjálf drekk ekki orkudrykki nema það sé eitthvert sérstakt tilefni því ég veit að þeir hafa áhrif á svefninn nóttina eftir að ég drekk þá. Ég veit að orkudrykkir innihalda mikið koffín sem er ekki gott fyrir nýrun. Til þess að halda mér gangandi, eins og margir segja að orkudrykkirnir geri, legg ég áherslu á að ná góðum svefni og hugsa ekki um þreytuna því þá yfirleitt hættirðu að finna fyrir henni.“

Elísabet Þórdís Hauksdóttir.

 

Drakk bara af því að allir hinir gerðu það

Mynd: Eyþór Árnason

„Fyrir ári, þegar ég byrjaði í menntaskóla, drakk ég minnsta kosti einn á dag. Þetta var í tísku og áttaði mig ekki á hvernig áhrif þetta hafði á mig. Ég varð bara þreyttari og leið verr við að drekka orkudrykki. Það tók mig nokkra mánuði að átta mig á að orkudrykkirnir væru ástæðan, en fattaði það ekki vegna þess að allir voru að drekka þetta í kring um mig.“

Anna Sóley Stefánsdóttir.

 

Nemendur almennt meðvitaðir um heilsu sína

Mynd: Eyþór Árnason

Dagný Broddadóttir, náms- og starfsráðgjafi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, tekur í sama streng en hún segir markmið skólans að vera heilsueflandi og innan hans séu ekki seldir orkudrykkir.

„Mér finnst orkudrykkjaneysla hafa aukist mjög mikið undanfarið og kannski ekki síst vegna þess að þessir drykkir eru markaðssettir sem heilsuvara. Margir trúa því að þeir hafi bætandi áhrif á íþróttaiðkun og heilsu en átta sig kannski ekki á skaðseminni sem og því mikla magni af koffíni sem er iðulega í þessum drykkjum. Þó að sjálfsögðu sé hægt að velja koffínminni orkudrykki. Ég held að nemendur okkar séu almennt meðvitaðir um heilsu sína og næringuna sem þeir láta ofan í sig en í hraða nútímasamfélagsins eru þeir sem og við fullorðna fólkið oft að leita að skyndilausnum og orkudrykkirnir virka vel til að ná sér í orku ef úthaldið er lítið og svefni jafnvel ábótavant. Svo er bara spurning um orsökina og afleiðinguna.“

 

Vatn og kaffi duga í dagsins amstri

Orkudrykkir eru víða áberandi meðan áhrifavalda sem birta þá í fjölbreyttu ljósi undir myllumerkinu samstarf. Enginn þeirra vildi þó tjá sig í tengslum við þessa umfjöllun. Elísabet Gunnarsdóttir, eigandi Trendnet, tilkynnti þó á sínum miðli að hún hefði aldrei bragðað á orkudrykk enda sé kaffi, sódavatn og vín hennar val þegar kemur að drykkjartegundum.

„Já, það er rétt, ég hef aldrei smakkað orkudrykki,“ segir Elísabet þegar hún er spurð hvort hún finni til samfélagslegrar ábyrgðar gagnvart sínum fylgjendum. „Ástæðan er einfaldlega sú að mig hefur ekki langað til þess, þessir drykkir heilla mig ekki. Það er ekki meðvituð ákvörðun af því að ég finni til ábyrgðar, en ég held að það sé örugglega ágætt að einhver sé, alveg óvart, með rödd sem talar fyrir því að vatn og kaffi dugi sem orka inn í amstrið. Ég tala alls ekkert á móti orkudrykkjum þótt þeir henti mér ekki. Er ekki bara allt gott í hófi?“

HLIÐAREFNI

Vafasamt met á Akureyri

Orkudrykkjaneysla framhaldsskólanema jókst mikið á árunum 2016 til 2018 samkvæmt rannsókn á vegum Rannsóknar og greiningar við Háskólann í Reykjavík. Hlutfall þeirra sem neyta orkudrykkja daglega fór úr 22 prósentum árið 2016 í 55 prósent árið 2018. Árið 2016 seldust tæplega 5,2 milljónir af 330 millilítra dósum af orkudrykkjum og má því áætla að salan hafi tvöfaldast, jafnvel þrefaldast nú. Samkvæmt fyrrnefndri rannsókn eru það ungmenni á Akureyri sem eiga metið í neyslu orkudrykkja. Þrjátíu prósent ungmenna á Akureyri drekka orkudrykk daglega, en landsmeðaltalið er um tíu prósent. Um 48 prósent þeirra unglinga sem fæddir eru 2001 og búa á Akureyri segjast drekka einn eða fleiri orkudrykki á dag. Landsmeðaltalið meðal jafnaldra þeirra er fjórtán prósent.

HLIÐAREFNI

*Tekið af vefnum doktor.is

Hvað gerist í líkamanum þegar við drekkum koffín?

Örvandi áhrif koffíns á líkamann veldur útvíkkun æða, hjartsláttur verður örari og blóðflæði eykst til allra líffæra. Þar að auki hefur koffín áhrif á öndun, örvar meltingu og eykur þvagmyndun. Koffínríkir drykkir eins og kaffi og orkudrykkir eru vinsælir þar sem koffín getur dregið úr einkennum þreytu og virðist geta aukið einbeitingu. Hafa ber í huga að neysla á koffíni í stórum skömmtum getur haft ýmis óæskileg áhrif á líkamann og andlegt ástand, ekki síst hjá börnum og unglingum.

Ef koffíns er neytt í of miklu magni getur það haft ýmis óæskileg áhrif á heilsu og líðan fólks og valdið höfuðverk, svima, skjálfta, svefnleysi, hjartsláttartruflunum og kvíðatilfinningu.
Fólk er misviðkvæmt fyrir áhrifum koffíns. Tiltölulega lítill skammtur af koffíni getur valdið magaverkjum og svefntruflunum hjá einum einstaklingi þó að annar þoli það betur.

Rannsóknir hafa sýnt að neysla koffíns, undir 400mg á dag (u.þ.b. 4 kaffibollar) hjá heilbrigðum einstaklingi sé skaðlaus fyrir heilsuna. Neysla umfram það magn eykur hættuna á skaðsemi.
Dagleg neysla barna og unglinga á koffíni ætti ekki að vera meiri en 2,5 mg/kg líkamsþyngdar. Þetta samsvarar 60mg af koffíni hjá 7 ára barni sem vegur 24 kg. Í hálfum lítra af kóladrykk eru 65 mg af koffíni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Þá byrjar einhver atburðarás sem líkist martröð“

„Þá byrjar einhver atburðarás sem líkist martröð“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lokalag Eurovisionmyndarinnar þykir magnað en hver er íslenski textinn?

Lokalag Eurovisionmyndarinnar þykir magnað en hver er íslenski textinn?
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Íslenskur hundur bræðir hugi og hjörtu netverja

Íslenskur hundur bræðir hugi og hjörtu netverja
Fókus
Fyrir 1 viku

Króli er Tóti tannálfur

Króli er Tóti tannálfur
Fókus
Fyrir 1 viku

Nútíma hönnun mætir fornnorrænum menningararfi á HönnunarMars 2020

Nútíma hönnun mætir fornnorrænum menningararfi á HönnunarMars 2020