Handboltakappinn, og nú fisksalinn, Sigfús Sigurðsson hefur marga fjöruna sopið. Eftir ágætan feril í handboltanum á Íslandi hélt hann út til Spánar í atvinnumennsku með Caja Santander árið 1998. Þó vegnaði vel í handboltanum var lífið utan vallar dapurlegt.
„Á Spáni var ég með mikið milli handanna en áfengi og allt annað var mjög ódýrt,“ segir Sigfús í viðtali við Fréttablaðið, en á þessum tíma glímdi hann við mikla áfengis- og fíkniefnaneyslu.
„Samningnum mínum var rift í lok desember og ég sendur heim. 11. janúar var ég kominn í meðferð. Eftir meðferðina spilaði ég tvo eða þrjá leiki en svo ekkert í tvö ár. Ég var brotinn líkamlega og andlega og þurfti tíma til að vinna í að halda mér edrú. Það var ekki fyrr en ég fór í prógrammið, kom hausnum á mér í lag og fór að geta hjálpað öðrum að ég gat farið að æfa aftur.“
Í dag er hann búinn að vera edrú í tuttugu ár, rekur fiskbúðina Fúsa og lífið leikur við hann. Hann er einstæður, tveggja barna faðir og hefur haldið góðu sambandi við dóttur sína, sem er sex ára, og son, sem er 24 ára. Sigfús segir fyrstu skrefin í átt að edrúmennsku hafi verið erfiðust.
„Á þrjóskunni hætti ég að að drekka og nota fíkniefni en ég vildi ekki vinna prógrammið þó að ég mætti á fundina. Ég var eins og hungraður maður sem kom með steik úr búðinni en gerði ekkert nema stara á hana. En á endanum beit ég, fór að gera upp fortíðina og hreinsa til í lífinu. Loksins fór ég að skilja að heimurinn skuldaði mér ekkert en ég skuldaði heiminum.“
Það var ekki aðeins vímuefnin sem ollu vandræðum í lífi Sigfúsar heldur glímdi hann einnig við fjárhagsvandræði. Hann opnaði sig um þau vandræði í viðtali við DV þegar hann seldi silfurmedalíuna sína frá Ólympíuleikunum í Peking árið 2013.
„Þegar maður kemur sér í svona hluti sjálfur þýðir ekki að vera grenja neitt,“ segir Sigfús. „Lífið leggur ekki meira á mig en ég þoli,“ bætir hann við, en það gekk erfiðlega fyrir hann að fóta sig eftir að hann seldi medlíuna.
„Vegna medalíumálsins voru fáir sem vildu ráða mig og ég fann fyrir miklum fordómum. En þá kynntist ég Fiskikónginum, Kristjáni Berg. Hann bauð mér í atvinnuviðtal og við ræddum saman í næstum þrjá klukkutíma. Ég lagði spilin á borðið og daginn eftir hóf ég störf hjá honum,“ segir Sigfús.
Í dag er létt yfir þessum þjóðþekkta Íslendingi.
„Lífið hefur sett fyrir mig mörg verkefni, sum æðisleg og skemmtileg en önnur mjög erfið. Það er aðeins spurning um hvernig maður tekst á við þau. Hvað á maður að gera ef eitthvað erfitt kemur upp? Leggjast í kör og fara að grenja? Gefast upp?“ segir hann. „Ég kann það ekki og nenni því ekki. Ef ég fæ erfitt verkefni upp í hendurnar tekst ég á við það og ef ég ræð ekki við það leita ég eftir aðstoð. Blessunarlega á ég stóra og samheldna fjölskyldu og góða vini sem ég get reitt mig á og hef gert. Ég er ákaflega þakklátur fyrir þetta fólk, því án þess væri ég kominn undir græna torfu.“