fbpx
Laugardagur 25.maí 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Atli Þór gerir upp eineltið: Misþyrmt reglulega í Háteigsskóla – Fann huggun í tónlist Queen

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 25. nóvember 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fyrir skömmu hélt Háteigsskóli upp á 50 ára afmæli sitt. Ég gat ekki hugsað mér að mæta þangað vegna slæmra minninga tengdum skólanum. Ég sá að þau birtu þakkarmyndband frá afmælinu og þar var spilað undir lagið We Are the Champions með Queen. Það þótti mér merkilegt því að á sínum tíma voru krakkarnir alltaf að rakka mig niður fyrir að halda upp á Queen vegna þess að Freddy Mercury væri hommi,“ segir Atli Þór Matthíasson sem varð fyrir miklu einelti og ofbeldi á skólaárum sínum í Háteigsskóla.

Atli Þór er 37 ára og var í skólanum frá því seint á níunda áratugnum og fram til 1998. Eineltið hófst strax í sex ára bekk en ágerðist mjög á unglingsárum. Það kom fram í stöðugri áreitni og líkamlegu ofbeldi, en einnig útilokun, því þeir sem níddust á honum breiddu út um hann óhróður og unnu gegn því að aðrir nemendur vinguðust við hann. Það tóku þó alls ekki allir krakkarnir þátt í eineltinu og Atli eignaðist vini. En hjarðhugsunin var engu að síður sterk og Atli minnist þess að vinur hans sveik hann og gekk í lið með óvinunum. Kom til uppgjörs milli þeirra út af því.

Neitaði að fylgja tískustraumum

Atli segir að ein af ástæðunum fyrir því að hann var lagður í einelti hafi verið sú að hann synti gegn straumnum, til dæmis hvað varðaði klæðaburð og tónlistarsmekk. „Hip hop tónlistin var mjög ráðandi og klæðnaður á borð við þessar undarlegu gallabuxur sem voru dregnar niður á miðjan rass. Ég sniðgekk þessa tísku og ég hlustaði á Queen en ekki hip hop. Þessar gaurar sögðu að Freddy Mercury, söngvari Queen, væri „helvítis hommi“. Ég velti því fyrir mér hvort þessi gömlu skólafélagar séu enn hommahatarar í dag.“

Gróft líkamlegt ofbeldi og hættuleg örvænting

„Þegar ég var 10 ára gamall kom ég að eldri strák sem var með áreita bróður minn, ég sagði honum að hætta því. Hann hefndi sín með því að reyna að hrinda mér þegar ég var á hjóli stuttu síðar. Auk þess kýldi hann mig alltaf mjög fast í magann í hvert sinn sem hann sá mig eftir þetta. Ég var orðinn svo lamaður af skelfingu út af þessu að mamma þurfti um tíma alltaf að fylgja mér í skólann.

Einu sinni kom strákur að mér á skólaganginum og barði mig ofboðslega fast með priki í punginn. Svo hló hann rosalega.

Atli Þór minnist þess líka að tvíburar héldu honum upp við vegg og börðu hann margsinnis í magann.

„Ég man líka eftir einum sem sparkaði svo fast í fótinn á mér að við lá að ég fótbrotnaði þó að það yrði ekki. Ég spurði hann hvers vegna í ósköpunum hann hefði gert þetta og hann svaraði: „Bara til að gera eitthvað fyndið.““

Þetta er aðeins brotabrot af ofbeldinu sem hann varð fyrir. Ofbeldið fyllti hann gífurlegri örvæntingu en þar kom að hann greip til varna. „Sá strákur sem byrjaði eineltið gegn mér og var mest í því öll árin, hann henti einu sinni blýanti framan í mig í tíma. Ég réðst á hann og ætlaði að ganga þar frá honum og var alveg brjálaður. Skólastjórinn þurfti að ganga á milli og stöðva slagsmálin.“

Aðspurður um hvernig Atla Þór hafi liðið með að grípa svona til varna þá segir hann að líklega hafi honum liðið betur við það. „Þá fannst mér ég ekki vera algjör aumingi. Það er búið að brjóta svo sjálfsmyndina, maður var svo vanmáttugur og niðurbrotinn, það var ákveðinn léttir að finna að ég gæti barið frá mér. En ég er friðarsinni að eðlisfari og ég veit að ofbeldi leysir engan vanda.“

Gekk um með hníf á sér – Stórhættulegt

Atli Þór veltir fyrir sér örvæntingu eineltisþolenda og hvert hún geti leitt þá. „Ég veit að besti vinur vinar míns tók eigið líf vegna þess að hann hafði verið lagður í einelti. Ég hugsa líka með mér þegar ég les um skotárásir í skólum í Bandaríkjunum hvort þar séu stundum að verki þolendur eineltis. Það var nefnilega komið þannig fyrir mér að einu sinni stal ég svissneskum vasahníf sem bróðir minn átti og gekk með hann á mér í skólanum. Örvæntingin var orðin svo ofboðsleg. Sem betur fer kom aldrei til þess að ég notaði hnífinn.“

Kennararnir elskulegir – en slæmar undantekningar

Atli Þór segir að kennararnir í Háteigsskóla hafi yfirleitt verið gott fólk og sumir haft jákvæð og róandi áhrif á hann með elskulegri nærveru. „Mér þótti til dæmis mjög vænt um umsjónarkennarann minn og enskukennarinn var líka mjög góður. Því miður vissu þau lítið sem ekkert um eineltið því það fór yfirleitt fram á skólagöngunum og á þessum tíma var þar ekkert starfsfólk. Ég fékk mikinn stuðning frá foreldrum mínum en því miður var þeim ekki trúað þegar þau leituðu til skólayfirvalda og sögðu að ég væri lagður í einelti.“ Telur Atli Þór að eineltisvarnir hafi lítið verið þekktar í skólum á þessum tíma.

„Það sem situr einna mest í mér frá þessum tíma var að ég, sem var og hef alltaf verið mjög mikill tónlistaráhugamaður, átti að fá að taka við DJ-búrinu, þ.e. verða plötusnúður á skólaskemmtunum. Ég hlakkaði ofboðslega til en svo var allt í einu ákveðið að ég fengi þetta ekki. Það virtist vera geðþóttaákvörðun hjá skólastjóranum og það var settur í þetta strákur sem hafði ekki endilega mikinn áhuga á því að verða plötusnúður. Þetta fór ofboðslega illa í mig, þetta voru svo mikil svik, og ég mér fannst eins og allur skólinn væri á móti mér.“

Sýna enga iðrun en samt er eins og þeir skammist sín

Á næstunni verður haldið 20 ára árgangamót hjá gamla árganginum hans Atla Þórs en hann segist ekki geta hugsað sér að mæta. Minningarnar séu of nöturlegar og enginn hafi sýnt iðrun. „Ég mætti á 10 ára árgangamótið árið 2008 og mér fannst það vera vond upplifun. Þá kom þarna einn sem hafði verið sérstaklega vondur við mig og hann horfði mjög skringilega á mig. Svo sá ég hópmynd af okkur þar sem ég er með eitthvert gervibros á andlitinu og samt á svipinn eins og mér líði illa. Þarna á myndinni er líka þessi sem barði mig með prikinu í punginn og hann var voðalega gleiður á myndinni og gaf fokkmerki. Mér fannst ömurlegt að horfa á þessa mynd.“

„Ég hef líka hitt þessa gaura á almannafæri. Þeir láta eins og þeim sé alveg sama. Ég hitti til dæmis einn í strætó einu sinni og hann sagði: „Ég var mjög harður við þig í gamla daga,“ svona eins og hann væri stoltur af því. Mér leið ömurlega af að heyra þetta og velti fyrir mér hvort þessi maður væri siðblindur.“

„Einn þeirra hitti ég á skemmtun í Hörpu í vor. Þennan sem sparkaði svo fast í fótinn á mér. Hann heilsaði mér en hann gat samt ekki horfst í augu við mig.“

Töfrandi stund með Brian May: Stjarnan komst við

Atli Þór sótti sér alltaf mikla huggun í tónlistina, hún var hans athvarf frá ofbeldinu. Hann er mikil fróðleiksnáma um tónlist og er annað slagið með þætti á Rás 2. Um tíma var hann með vikuleg innslög um hljómsveitina Queen í morgunútvarpinu.

Atli Þór hefur ávallt dáð og dýrkað Queen og hann flýði inn í tónheim þessarar bresku súpergrúppu á æskuárum. Einu sinni var Atli Þór svo heppinn að ná tali af Brian May, gítarleikara hljómsveitarinnar. Atli var þá í stuttri ferð í London og komst að því að Brian May var að árita bókina Queen in 3D í bókabúð.

„Ég varð svo stressaður að ég æfði í huganum það sem ég ætlaði að segja við hann. Var hræddur um að frjósa og koma ekki upp orði. Þetta var mjög hjartnæmt og eftirminnilegt. Ég þakkaði honum fyrir tónlistina og sagði honum að hún hefði hjálpað mér í gegnum erfiða tíma. Hann var mjög snortinn yfir því og þetta augnablik var ótrúleg upplifun fyrir mig.“

Tónlist Queen og mikill stuðningur fjölskyldu, foreldra og systkina var meðal þess sem hélt Atla Þór gangandi í gegnum erfiða tíma.

Þarf að gera upp þessi mál

Aðspurður hvort hann myndi fyrirgefa kvölurum sínum ef þeir bæðust afsökunar þá segist Atli Þór hreinlega ekki vita það. Það hafi hins vegar enginn sýnt slíka tilburði ennþá.

„Ég þarf að fara að vinna í þessu og fyrsta skrefið er að opna sig um þetta. Eineltið hefur fylgt mér alla ævi og haft mjög slæm áhrif á mig. Ég er til dæmis skelfingu lostinn við að vera skilinn eftir útundan því það var hlutskiptið í gamla daga, að vera aldrei boðinn í afmæli eða partý.“

„Þetta eyðilagði líka fyrir mér nám, var helsta ástæðan fyrir námserfiðleikum og magnaði upp athyglisbrest. Það er erfitt að einbeita sér að námi með þetta helvíti yfir sér.“

Atli Þór er engu að síður búinn að opna stuðningssíðu á Facebook fyrir þolendur eineltis og hvetur alla sem láta sér annt um góð samskipti og mannréttindi að slást þar í hópinn og taka þátt í umræðu. Sjá hér

Atli Þór er með mikilvæg skilaboð til bæði þolenda og gerenda í einelti. Við þolendur vill hann segja: „Verið óhrædd við að segja frá. Þá er meiri von til þess að hægt sé að stöðva eineltið.“

Við gerendur vill hann segja þetta: „Þetta er ákaflega ljótur verknaður. Einelti er ofbeldi. Gerið þið ykkur grein fyrir því að þið getið verið að eyðileggja líf manneskju? Viljið þið hafa slíkt á samviskunni í gegnum ykkar líf?“

„Langbest er ef við öll tökum okkur saman og stoppum þetta fyrir fullt og allt. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að einelti er dauðans alvara og umræðunni um það verður að halda lifandi. Stjórnvöld verða líka að sýna meiri lit, koma inn með aðgerðir, og við verðum öll að vera vakandi fyrir þessum bölvaldi sem einelti er.“

#stoppumeinelti

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Sextán ára að gefa út tónlist: „Fólk veit ekkert hvernig ég er í alvörunni“

Sextán ára að gefa út tónlist: „Fólk veit ekkert hvernig ég er í alvörunni“
Fókus
Í gær

DV leikur sér að heitasta filternum á Snapchat – Sjáið myndirnar

DV leikur sér að heitasta filternum á Snapchat – Sjáið myndirnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Skandall skekur Eurovision-heiminn – Alvarleg mistök dómnefndar gætu dregið dilk á eftir sér

Skandall skekur Eurovision-heiminn – Alvarleg mistök dómnefndar gætu dregið dilk á eftir sér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýtt lag frá Eiríki – Lýsir mér leið

Nýtt lag frá Eiríki – Lýsir mér leið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Blaðamaður Jerusalem Post gerir stólpagrín að Hatara: „Ísland hefði átt að vinna Eurovision [Háðsádeila]“

Blaðamaður Jerusalem Post gerir stólpagrín að Hatara: „Ísland hefði átt að vinna Eurovision [Háðsádeila]“
Fókus
Fyrir 3 dögum

22 smáatriði sem þú tókst pottþétt ekki eftir í lokaþætti Game of Thrones

22 smáatriði sem þú tókst pottþétt ekki eftir í lokaþætti Game of Thrones