fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Gjaldeyriskaup bankanna

Egill Helgason
Miðvikudaginn 19. mars 2008 13:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þetta bréf barst utan úr bæ. Efni þess er mjög athyglisvert. Höfundurinn er í þeirri stöðu að hann vill ekki láta nafns síns getið:

„Að undanförnu hefur mönnum orðið tíðrætt um stöðu krónunnar og framtíðarhorfur.  Mikið hefur verið fjallað um svokölluð krónubréf sem erlendir fjárfestar hafa gefið út í þeirri trú að krónan muni veikjast um minna en sem nemur vaxtamun milli krónunnar og erlendra gjaldmiðla.  Fjárhæð þessara bréfa í dag nemur tæplega 400 miljörðum króna.

Talað er um að Seðlabanki Íslands hafi haldið uppi háu gengi krónunnar með háum stýrivöxtum sem laðað hafa þetta erlenda fjármagn inn í landið.  Því er áhugavert að skoða gengisþróun krónunnar frá því útgáfa þessara bréfa hófst haustið 2005.  Á þeim tíma var gengisvísitala krónunnar u.þ.b. 110 stig.  Í kjölfar þess að útgáfa krónubréfa hófst styrktist gengi krónunar og fór gengisvísitalan niður í u.þ.b. 100 stig.  Á þessum tíma hófu íslenskir bankar, sérstaklega stærsti banki landsins, að kaupa gjaldeyri í stórum stíl, í þeim yfirlýsta tilgangi að verja eiginfjárhlutfall sitt gagnvart falli krónunnar.

Frá þessum tíma hafa bankarnir haldið áfram að kaupa gjaldeyri jafnt og þétt og í dag nemur heildar eign bankanna í gjaldeyri yfir 700 miljörðum króna.  Af þessu sést að bankarnir hafa í raun keypt allan gjaldeyri sem hefur komið inn í landið í formi krónubréfa og næstum aðra eins fjárhæð til viðbótar.  Þessi fjárhæð nemur u.þ.b. 70% af þjóðarframleiðslu og er ekki nokkuð dæmi um önnur eins gjaldeyriskaup innlendra banka á erlendum gjaldeyri hjá nokkurri þjóð.

Það er því kannski ekki skrýtið að gengi krónunnar hefur fallið um yfir 20% á sama tíma og krónubréf og annar gjaldeyrir hefur flætt inn í landið.  Auðvitað spilar viðskiptahallinn þarna inn í en hann hefur verið fjármagnaður að fullu með erlendum lántökum og hefur því ekki valdið veikingu krónunar yfir þetta tímabil, þó hann gæti átt eftir að gera það síðar meir þegar þarf að endurgreiða þessi lán með vöxtum.  Fjárhæðin sem bankarnir hafa keypt af gjaldeyri jafngildir öllum útflutningi Íslands á vörum og þjónustu í rúm 2 ár.

Samkvæmt lögum mega bankar ekki vera með gjaldeyrisjöfnuð sem er hærri en þriðjungur af eigin fé, nema með sérstakri undanþágu frá Seðlabanka Íslands.  Eins og staðan er í dag eru allir stóru viðskiptabankarnir með talsvert hærra hlutfall og sá stærsti er með meira en 100% af eigin fé í erlendum gjaldeyri.  Þessi gífurlegu gjaldeyriskaup bankanna setja þrýsting á gengi krónunnar og mynda þar með verðbólguþrýsting, sem Seðlabankinn er á sama tíma að berjast gegn.  Því væri áhugavert að Seðlabankinn upplýsti um ástæður þess að þessar undanþágur hafi verið veittar.  Telur hann nauðsynlegt að bankarnir eigi gjaldeyrisforða sem er fimm sinnum stærri en gjaldeyrisforði Seðlabankans sjálfs?.

Seðlabanki Íslands hefur verið gagnrýndur mjög fyrir vaxtastefnu sína en hún er í raun nauðsynleg til að laða að erlent fjármagn til að mæta gjaldeyriskaupum bankanna, í það minnsta til að fá þá til að halda þessu fjármagni inni í landinu þar sem bankarnir virðast ekki líklegir til að selja þennan gjaldeyri aftur, þrátt fyrir mikla veikingu krónunnar að undanförnu.

Talað er um að stýrivextir Seðlabankans séu að sliga almenning og fyrirtæki.  Í dag nema heildar skuldir heimila í óverðtryggðum lánum, sem fylgja stýrivöxtum Seðlabankans, u.þ.b. 100 miljörðum.  Ef stýrivextirnir myndu lækka um t.d. 7% myndi það spara heimilum í landinu u.þ.b. 7 miljarða á ári, sem að stórum hluta færi aftur í vasa almennings í formi hærri innlánsvaxta af sparnaðarreikningum.  Slík vaxtalækkun gæti aftur á móti valdið talsverðu gengisfalli, jafnvel 10-15%.  Slíkt gengisfall myndi hækka útgjöld almennings vegna innfluttrar vöru og þjónustu (t.d. ferðalaga erlendis) um tugi miljarða árlega.  Auk þess myndu verðtryggð lán almennings, sem eru margfallt hærri en óverðtryggð lán, hækka um tugi miljarða í kjölfar veikingar krónunnar.  Til viðbótar myndi atvinnuleysi og efnahagslegur óróleiki aukast verulega.  Almenningur myndi því stórtapa ef Seðlabankinn færi út í vaxtalækkanir við skilyrði í dag.  Sama má segja um fyrirtæki, sem eru stórskuldug í erlendri mynt og verðtryggðum lánum en skulda lítið í óverðtryggðum lánum.

Langstærsta “fórnarlamb” vaxtastefnu Seðlabankans eru viðskiptabankarnir, þar sem þeir fjármagna gjaldeyrisjöfnuð sinn með óverðtryggðum útlánum, eða fórna slíkum vöxtum þegar um eigið fé er að ræða.  Því er ekki skrýtið að bankarnir tali hæst um nauðsyn lægri stýrivaxta til að tryggja fjármálastöðuleika.   Aftur á móti á Seðlabankinn ekki að taka mark á slíkum kröfum nema bankarnir selji samhliða verulegan hluta af gjaldeyriseign sinni, til að mæta innlausn erlendra fjárfesta á gjaldeyristöðum með krónunni.  Ef eitthvað er þyrfti Seðlabankinn nú að hækka vexti enn frekar til að laða að erlent fjármagn inn í hagkerfið, eða reyna að knýja íslensku bankana til að selja hluta af sinni gjaldeyriseign, nú þegar erlendir fjárfestar eru tilbúnir til að taka minni áhættu en áður og krónan er að veikjast með tilheyrandi verðbólguáhrifum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus