

Þýska fjölmiðakonan Dorothea Schupelius gerir aðventuna að umtalsefni í pistli sem birtist á Welt fyrradag, sér í lagi jólamarkaði sem notið hafa mikilla vinsælda í þýskum og austurrískum borgum og bæjum undanfarna áratugi en hafa síðustu misserin orðið skotmark íslamskra öfgamanna. Nú er svo komið að jólamarkaðirnir eru farnir að minna á stríðssvæði vegna gríðarmikilla umferðartálma og annarra öryggisráðstafana sem menn telja þörf á vegna ítrekaðra mannskæðra hermdarverka. Jafnvel er gengið svo langt að þungvopnaðir verðir eru látnir standa þar vörð og leitað er á gestum. Nýverið var greint frá því að kostnaður borgaryfirvalda í Bremen vegna öryggisráðstafana við jólamarkaðinn næmi 3,2 milljónum evra, það slagar upp í hálfan milljarð íslenskra króna. Viðbúnaðurinn er eðlilega sumum bæjum um megn svo orðið hefur að blása markaðina af.
Jólaandi læstur innan víggirðingar
Blessunarlega hafa ekki borist fregnir af mannskæðum árásum við jólamarkaðina þetta árið en á dögunum trufluðu stuðningsmenn Palestínuaraba jólamarkað í Vín með skrílslátum og grímuklæddir Palestínuarabar réðust inn á markaðinn í Brussel, veifuðu fánum sínum og köstuðu reyksprengjum í miðju mannhafinu svo almenningur þusti á brott dauðans ofboði. Í Weimar dró 29 ára marokkóskur karlmaður upp dálk á skautasvelli við jólamarkað og hafði í hótunum við fólk.
Schupelius segir enga tilviljun að öfgasinnaðir Múhameðstrúarmenn ráðist að jólamörkuðum því þeir séu táknmynd evrópskrar lífsgleði. Ofstækismönnunum þyki jólahátíðin sjálf — boðskapur jólanna — vera bein ögrun við sig. Íslamistar líti á baráttu sína gegn vestrænum gildum sem heilagt stríð en viðbrögð margra á Vesturlöndum felist í því að heiðra skálkinn — friða öfgamanninn með því að þröngva jólaandanum bakvið víggirðingar. En það að gefa eftir gagnvart ofstækisöflunum grafi undan því frelsi sem vestræn þjóðfélög hafa búið sér. Sagan af fæðingu frelsarans sem fæddist í fjárhúsi, í fátækt, berskjaldaður en samt elskaður skilyrðislaust móti skilning okkar á mannlegri reisn. Í kristinni vestrænni menningu hafi einstaklingurinn gildi í sjálfu sér. En á sama tíma standi menn fram fyrir óleysanlegri þraut: hvernig megi sýna þeim umburðarlyndi sem vilji tortíma þér og þinni menningu?
Schupelius segir svarið blasa við, þessar andstæður verði ekki sættar og okkur beri að standa með barninu í jötunni — óháð trú hvers og eins. Samt þegi kirkjunnar menn, blaðamenn sveigi frá grundvallarreglum sínum til að forðast eldfima umræðu og stjórnmálamenn lofi öryggisráðstafanirnar án þess að minnast einu orði á ástæður þeirra.
Skilnings- og skeytingarleysi
Í kvikmyndinni Brazil, framúrstefnulegri hryllingsmynd leikstjórans Terry Gilliam frá árinu 1985 eru í sífellu framdar óútskýrðar hermdarverkaárásir. Handahófskenndar sprengingar og dauðsföll verða svo daglegt brauð að matargestir veita því ekki athygli er veggur veitingahússins sem þeir sitja á er sprengdur í tætlur — þetta er bara enn ein árásin. Almenningur hugsar sem svo að stjórnvöld hljóti að vera að vinna að lausn vandans og því ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Enginn spyr hverjir hermdarverkamennirnir séu og ofbeldið er orðið svo hversdagslegt að menn eru ættir að kippa sér upp við það.
Veruleikinn hér á Vesturlöndum er farinn að minna um margt á sögusvið hinnar fjörutíu ára gömlu hryllingsmyndar. Við höfum alloft lesið í fréttum að „bifreið sé ekið inn í jólamarkað“ en gerandinn er vitaskuld ekki bifreið. Hvort sem litið er til mannskæðra árása í Lundúnum, Berlín, Barcelona, París og víðar eru gerendurnir karlmenn, einkum frá löndum Múhameðstrúarmanna uppfullir af hatri í garð Vesturlanda. Stjórnvöld segja gjarnan að morðæðið sé „tilgangslaust“ en það er aðeins tilgangslaust vegna þess að þeir neita að skilja það, eins og andófskonan Ayaan Hirsi Ali orðar það. Líkt og í áðurnefndri kvikmynd halda stjórnmálaleiðtogar á Vesturlöndum því fram að umrædd fólskuverk séu sprottin af jaðarhugmyndafræði og ef til vill sé hinn morðóði veikur á geði. Stjórnmálamenn tönnlast á því að „íslam séu friðsamleg trúarbrögð“ og ekki megi tengja gjörðir íslamskra hermdarverkamanna við menningu innflytjenda frá löndum Múhameðstrúarmanna almennt. Hirsi Ali bendir á að Múhameðstrúarmenn séu ekki ofbeldisfyllri en fólk almennt en á Vesturlöndum hafi orðið til friðsamleg samfélög þar sem ofbeldi er fyrirlitið. Nú streymi aftur á móti til Vesturlanda tugmilljónir manna frá menningarheimum sem viðurkenna beitingu ofbeldis.
Þar sem hún ólst upp í Sómalíu læri hvert mannsbarn frá unga aldri að leiðin til að fá sínu framgengt sé að beita náungann ofbeldi. Hún hafi veitt því athygli þegar hún kom fyrst til Evrópu árið 1992 þegar lítið barn sló annað var það ekki slegið til baka af móðurinni heldur kraup hún niður, horfði í augu þess og mælti blíðlega en ákveðið að svona mætti aldrei gera. Hún kynntist því líka að foreldrar á Vesturlöndum litu ekki aðeins á líkamlegar refsingar sem villimannslegar heldur einnig árangurslausar. Með því að bregðast við ofbeldi með ofbeldi væri grafið undan þeim lærdómi sem börnin skyldu öðlast: að ofbeldi væri ekki rétta leiðin til að fá sínu framgengt.
Síendurteknar mannskæðar hermdarverkaárásir á Vesturlöndum eru afleiðingar ákvarðana stjórnmálamanna um fjöldainnflutning fólks frá ofbeldisfullum samfélögum. Ein afleiðing þessa er að þrengt er að jólahaldi á opinberum vettvangi, enn alvarlegri birtingarmynd er þegar friðsamt fólk sem undirbýr fæðingarhátíð frelsara síns er myrt með köldu blóði. Sú morðalda verður ekki upprætt nema menn horfist í augu við raunverulegar orsakir hennar.