
Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins tilkynnti nú rétt í þessu að hún bjóði sig fram til formennsku í flokknum á flokksþingi í næsta mánuði en Sigurður Ingi Jóhannsson hafði áður tilkynnt að hann myndi láta af formennskunni. Hefur verið leitt að því líkum að Ingibjörg myndi taka slaginn ekki síst eftir að Willum Þór Þórsson fyrrum þingmaður og ráðherra flokksins mun að sögn hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram en hann hafði verið orðaður við formannsframboð í nokkurn tíma.
Í tilkynningu Ingibjargar segir að flokkurinn standi á tímamótum og það geri íslenskt samfélag líka:
„Undanfarið hefur kastljósið beinst í auknu mæli að bágri stöðu barna og ungmenna, ekki eingöngu í menntakerfinu heldur víðar. Verkefnið er ærið, handtökin mörg og það er mín einlæga trú að samvinnuhugsjónin sem er undirstaða Framsóknarstefnunnar sé sú nálgun sem muni skila mestum árangri til framtíðar fyrir börnin okkar.“
„Auk þeirra mála sem ég nefndi í upphafi, er margt um að vera á hinu alþjóðlega sviði. Þróun síðustu vikna og mánaða sýnir vel hversu hverfull heimurinn er. Á óvissutímum er mikilvægt að tala af yfirvegun og skynsemi. Þannig öxlum við ábyrgð.“
Ingibjörg segist hafa trú á að hægt sé að endurheimta fylgi Framsóknarflokksins
„Við í Framsókn förum ekki fram með háværar yfirlýsingar. Traust ávinnst ekki með því að hafa uppi gífuryrði, heldur með verkum okkar. Það er mín einlæga trú að ef við tölum skýrt og umbúðalaust, lofum engum skýjaborgum en stöndum við það sem við segjum, að þá muni fólk fylkja sér að baki okkur að nýju.“
Hún minnir á stjórnmálaferil sinn:
„Ég settist fyrst á þing árið 2021 og hef gengið í gegnum tvennar alþingiskosningar síðan og verið þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast á þeirri leið Framsóknarfólki víða um land. Áður sat ég í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og svo í bæjarstjórn Akureyrar frá árinu 2014, og starfaði lengst af sem kennari og framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunar.“
Ingibjörg segi tækifæri framundan fyrir flokkinn í sveitarstjórnarkosningum um allt land. Framsókn sé sterk á sveitarstjórnarstiginu en betur megi ef duga skal. Þar skipti öflug grasrót flokksins sköpum. Sjaldan eða aldrei, hefur henni fundist rödd Framsóknar skipta meira máli og erindi flokksins jafnt brýnt. Hún segir stöðu flokksins kallar á breytingar og verkefnin framundan ærin:
„Nú tekur við vinnan við að ávinna okkur traust landsmanna, tala skýrt og sækja fram.Ég lofa ykkur því að njóti ég stuðnings ykkar til formanns mun ég leggja mig alla fram um að vinna í þágu ykkar fólksins, jafnt í höfuðborginni sem og á landsbyggðinni. Ég treysti mér í verkin og er reiðubúin að bretta upp ermar.“