Edda María Birgisdóttir hefur verið ráðin til að leiða nýja, stafræna markaðsþjónustu vefstofunnar Vettvangs. Fyrirtækið býður upp á þjónustu eins og vef- og appþróun, viðmótshönnun, hýsingu og bætir nú stafrænni markaðsþjónustu við þjónustuframboð sitt. Meðal þekktra verkefna á vegum Vettvangs má nefna vefi og öpp fyrir Lyfju og Domino’s, og vefi fyrir leiðandi aðila eins og Eimskip, Innnes, LSR, HS Orku, Heima og Netgíró.
Hún starfaði áður hjá frá Ístex hf. sem viðskiptastjóri og sá um markaðsmál og dótturfyrirtækið, Lopidraumur. Hún hefur einnig verið í sjálfstæðum rekstri að byggja upp vefverslanir. Samhliða nýja starfinu þjálfar hún í Hreyfingu og Ultraform.
Edda María er með B.A gráðu í sálfræði, M.Sc. í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Ísland og stundar nú nám við M.M. í Stjórnun með áherslu á fjármál. Edda María spilaði knattspyrnu með Stjörnunni og varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu.
„Ég er mjög spennt að takast á þetta spennandi og krefjandi verkefni hjá öflugu fyrirtæki sem Vettvangur er. Fyrirtækið er vottaður samstarfsaðili Klaviyo og Algolia. Klaviyo er öflug lausn sem sameinar markaðssetningu og gagnagreiningu. Klaviyo sendir markpósta í sjálfvirku flæði með aðstoð innbyggðrar gervigreindar byggt á hegðun viðskiptavinar allan sólarhringinn. Algolia er öflug leitarvél sem skilar niðurstöðum á augabragði og bætir notendaupplifun. Notendur eiga auðveldara með að finna það sem þeir leita að, sjálfvirk leiðrétting og rauntímaleit styrkir frammistöðu veflausna. Algolia hefur mörg snjöll tól innanborðs sem geta meðal annars hækkað meðalkörfu, með krosssölu eða tengdum vörum og persónusniðnu viðmóti sem stórbætir upplifun. Við viljum auka þjónustu við okkar viðskiptavini og bjóða upp á þjónustu sem styður samstarfsaðila okkar alla leið, á sama tíma veljum við lausnir sem virka,“ segir Edda María.