Helga Kristín Gunnlaugsdóttir og Kristján Helgi Olsen Ævarsson hafa verið ráðin nýir vörumerkjastjórar hjá Ölgerðinni, eins og kemur fram í fréttatilkynningu.
Helga Kristín Gunnlaugsdóttir kemur til Ölgerðarinnar frá auglýsingaskrifstofunni Kontor, þar sem hún starfaði sem viðskiptastjóri og sinnti markaðsráðgjöf fyrir mörg þekkt íslensk vörumerki. Hún er með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Helga mun stýra vörumerkjum Carlsberg Group og Guinness.
„Það er spennandi áskorun að fá að vinna með Carlsberg Group, einu stærsta brugghúsi heims, að frekari uppbyggingu merkja þeirra. Vörumerkin hafa jú um árabil verið fyrirferðamikil í íslenskri viðburðamenningu, til dæmis sem helsti kostandi Þjóðhátíðar í Eyjum og margra stærstu samkoma landsins. Þá styttist í jólabjóravertíðina þar sem Tuborg hefur mikla og sterka nærveru og er langsöluhæsti jólabjórinn. Ég hlakka líka til að fylgja eftir gríðarlegum uppgangi Guinness hér á landi, en það er óhætt að segja að hálfgert „Guinness æði“ hafi ríkt,“ segir Helga, sem segist virkilega spennt að ganga til liðs við Ölgerðina.
Kristján Helgi Olsen Ævarsson mun stýra verkefnum á borð við Borg Brugghús, Brennivín og Öglu Gosgerð ásamt fleiru.
Kristján Helgi starfaði áður hjá Fríhöfninni og Samkaupum þar sem hann vann að verkefnum tengdum innkaupum, birgðastýringu og vöruflokkastjórnun auk þess að sjá um samningagerð og samskipti við birgja. Hann er með B.A. í lögfræði frá H.Í.
„Það er virkilega ánægjulegt að taka við þessu hlutverki, enda þekki ég, eins og aðrir landsmenn, þessi vörumerki vel og hef á þeim dálæti. Brennivín fagnar einmitt 90 ára afmæli á þessu ári og það hefur líklega aldrei verið sterkara en einmitt nú. Ég hef fylgst með Borg Brugghúsi leiða íslenska bjórmenningu til betri vegar undanfarin ár og hlakka til að fylgja þeirri vinnu vel eftir. Nú verður gaman,“ segir Kristján Helgi.
Bergsveinn Guðmundsson, markaðsstjóri áfengra drykkja hjá Ölgerðinni segir þetta öflugar ráðningar.
„Við erum ákaflega ánægð með að fá þau Helgu Kristínu og Kristján Helga til liðs við okkar öfluga teymi vörumerkjastjóra Ölgerðarinnar. Grunnurinn að öflugu og faglegu markaðsstarfi er fólkið okkar og við bindum miklar vonir við að metnaður þeirra og kraftur styðji við vöxt og framþróun vörumerkjanna,“ segir Bergsveinn.