Það er ekki björgulegt útlitið hjá Framsóknarflokknum um þessar mundir. Í þingkosningunum á síðasta ári þurrkaðist flokkurinn út á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt skoðanakönnunum eru horfur á að flokkurinn þurrkist út úr borgarstjórn næsta vor og yrðu þingkosningar núna næði flokkurinn tveimur kjördæmakjörnum þingmönnum í Norðaustur- og Suðurkjördæmum en félli undir fimm prósenta lágmarkið til að fá jöfnunarsæti.
Orðið á götunni er að óánægja með Sigurð Inga Jóhannsson, formann flokksins, magnist nú óðfluga. Hann er kallinn í brúnni og ekki er hann að fiska. Almenn óánægja er með þátttöku þingmanna flokksins í málþófinu gegn leiðréttingu veiðigjalda og skoðanakannanir sýna að Sigurður Ingi mislas með öllu vilja kjósenda í því máli.
Orðið á götunni er að dagar Sigurðar Inga á formannsstóli séu senn taldir. Samkvæmt lögum flokksins á næsta flokksþing að fara fram á fyrri hluta næsta árs, en flokksþing eru á tveggja ára fresti. Þó er hugsanlegt að flokksþingi verði flýtt en í lögum flokksins segir að ef meirihluti kjördæmisþinga flokksins óskar eftir því sé skylt að boða flokksþing.
Orðið á götunni er að það sem helst hafi komið í veg fyrir að kjördæmaþingin óski eftir flokksþingi til að kjósa nýja formann sé að enginn augljós arftaki sé í sjónmáli. Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, Willum Þór Þórsson og Ásmundur Einar Daðason, sem öll voru ráðherrar á síðasta kjörtímabili, féllu öll af þingi í kosningunum í nóvember en fram til þess höfðu þau öll þótt vænlegir arftakar Sigurðar Inga á formannsstóli. Willum og Ásmundur Einar eru hættir afskiptum af stjórnmálum en vitað er að Lilja hefur hug á að berjast áfram og horfir til formennsku í flokknum. Það háir henni þó að eiga ekki sæti á Alþingi.
Orðið á götunni er að æ fleiri Framsóknarmenn ráði nú sín á milli að í þingflokki Framsóknar sé að finna vænlegan framtíðarformann. Ekki eru þó allir á einu máli um það. Halla Hrund Logadóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, hefur óneitanlega skapað sér sérstöðu innan þingflokksins með því að gagnrýna málþófið gegn leiðréttingu veiðigjaldanna. Einnig hefur hún í mjög mörgum málum greitt atkvæði með ríkisstjórninni en ekki stjórnarandstöðunni.
Margir telja henni þetta til foráttu og telja hana á útleið úr flokknum en þeim fjölgar sem telja þessi afstaða Höllu Hrundar geti einmitt verið leiðarljósið fyrir Framsókn út úr þeim ógöngum sem flokkurinn hefur komið sér í undir forystu Sigurðar Inga.
Orðið á götunni er að nær öruggt sé að bæði Halla Hrund og Lilja muni gefa kost á sér til formennsku á næsta flokksþingi hvenær sem það verður haldið. Slagurinn verði harður og þarna verði m.a. tekist á um uppgjörið við síðustu ríkisstjórn og formannstíð Sigurðar Inga. Lilja er þar reynslumikill fulltrúi þess sem Framsókn hefur staðið fyrir á undanförnum árum, en frá 2013 hefur flokkurinn hallað sér mjög til hægri að Sjálfstæðisflokknum. Skiptar skoðanir eru um ágæti þess og margir Framsóknarmenn telja þessa hægri slagsíðu megin orsökina fyrir því að flokkurinn er núna kominn í útrýmingarhættu.
Orðið á götunni er að innan Framsóknar þyki mörgum sem Halla Hrund líkist einum gömlum foringja flokksins, Steingrími Hermannssyni, að því leytinu að hún geti hallað sér hvort sem er til hægri eða vinstri. Bent er á að í gegnum tíðina hafi sá eiginleiki að geta unnið bæði til hægri og vinstri verið það grunngildi Framsóknarflokksins sem hefur tryggt honum ríkisstjórnarþátttöku hvernig sem viðrar í íslenskri pólitík, jafnvel þótt á köflum hafi flokkurinn ekki haft mikið fylgi.
Orðið á götunni er að mörgum Framsóknarmanninum svíði mjög sú staða sem kom upp eftir síðustu kosningar, þegar flokkurinn tapaði svo illa að hann átti enga leið í ríkisstjórn. Mikilvægt sé að senda kjósendum skýr skilaboð um breytta tíma og nýja forystu í flokknum vel í tæka tíð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor eigi ekki illa að fara.
Orðið á götunni er að fram undan sé mikill slagur milli Lilju og Höllu Hrundar. Halla Hrund nýtur þess að eiga sæti á Alþingi og þykja auk þess bera með sér ferska strauma inn í flokk sem mjög hafi verið orðinn staðnaður. Á móti nýtur Lilja þess að vera gríðarlega vel kynnt og vel tengd innan flokksins. Mögulega geti það vegið upp á móti þeirri staðreynd að hún situr ekki á þingi.
Hvað sem öllu líður er orðið á götunni að slagurinn verði harður. Stuðningsmenn beggja eru á einu máli um að tekist sé á um framtíð Framsóknarflokksins, þ.e. hvort hann eigi sér framtíð. Fjöregg flokksins sé í húfi.