Frá því að ég las bókina Sapiens eftir Yuval Noah Harari hef ég oft velt fyrir mér pælingu hans um tækniframfarir. Hann bendir á að uppfinningar á borð við þvottavélina, ryksuguna, farsímann, veraldarvefinn og tölvupóstinn hafi átt að einfalda lífið og gefa okkur meiri tíma til að njóta.
En varð það reyndin? Erum við úthvíldari og njótum aukinnar samveru? Harari bendir á hið gagnstæða. Tíminn sem sparaðist fylltist þess í stað af nýjum verkefnum, hraða og væntingum. Þvottavélin varð til þess að við eignumst fleiri flíkur sem þarf að þvo oftar. Internetið og dásamlegt aðgengi þess að umheiminum skapaði um leið stöðuga kröfu um að vera sítengd og til staðar allan sólarhringinn. Áður fyrr bjóst fólk ekki endilega við svari við bréfi fyrr en að einhverjum vikum liðnum. Í dag er talinn dónaskapur að svara ekki innan sólarhrings. Og blessaði „seen“ hnappurinn og ruglið sem í honum felst. Það er efni í annan pistil.
Við sitjum því föst í kapphlaupi við tímann. Í stað þess að hægja á og njóta, búum við til nýjar kröfur og aukum hraðann. Það á ekki bara við um heimilistækin heldur hefur þetta einnig smitast yfir á samskipti okkar og samfélagið sjálft.
Við lifum í heimi bergmálshella þar sem samfélagsmiðlar magna upp skoðanir sem falla okkur í geð en kæfa aðrar. Rýmið fyrir gagnrýna hugsun hverfur. Það er gríðarlega mikilvægur eiginleiki í mannlegri tilveru að geta sett sig í spor annarra, mætt ólíkum sjónarmiðum og rökrætt, jafnvel þó við séum ósammála.
Áður fyrr komst enginn hjá því að mæta fjölbreyttum skoðunum, enda úrval af afþreyingu í formi línulegrar sjónvarpsdagskrár og dagblaða takmarkað. Í dag getum við einfaldlega valið þá rödd sem syngur í okkar takt og sniðgengið annað. Við þurfum ekki lengur að sýna þolinmæði. Við þurfum ekki lengur að þola sjónvarpsefni sem okkur finnst leiðinlegt eða hlusta á tónlist sem okkur líkar ekki. Við höldum að við séum við stjórn – en erum við það í raun?
Það sem veldur mér miklum áhyggjum er að staðreyndir virðast einnig vera hættar að skipta máli. Maður hefði haldið að töluleg gögn og vísindi væru traustur grunnur til að byggja á. En samt sem áður er stöðugt verið að þrátta um slíkar staðreyndir. Mín staðreynd og þín. Byggð á tilfinningu eða upplifun.
Auðvitað á að rökræða og takast á. En of oft grípum við til úthrópana og stimpla. Merkjum fólk út frá stjórnmálaskoðun, uppruna eða öðrum ytri þáttum og gleymum að hlusta á innihaldið. Og þegar einföldustu staðreyndir verða að bitbeini í deilum, er þá ekki hætt við að við missum jarðsambandið?
Nýlega heyrði ég ágætan mann segja að Íslendingar væru skautarar en ekki kafarar. Við rennum á yfirborðinu, nýtum hraðann og flæðið – en förum sjaldan á dýptina. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé rétt lýsing. Er tempóið orðið svo hratt að við gefum okkur ekki tíma til að kafa ofan í mál? Látum við bara fyrirsagnirnar duga? Og skoðanir annarra?
Ef svo er, þá má kannski segja að við séum fórnarlömb eigin tækni. Föst á yfirborðinu með djúsí smellum, stuttum setningum, hröðum og tilfinningaríkum viðbrögðum. Hvernig á fólk þá að mynda sér raunverulegar skoðanir á málum þegar upplýsingaóreiðan verður svona mikil og allt dregið í sitthvora áttina á sem ýktastan hátt?
Kannski er stóra spurningin þessi: Hvað er frelsi í raun? Er það að geta sent tölvupóst hvar sem er, hvenær sem er? Að tjá skoðanir sínar óhindrað á samfélagsmiðlum? Eða er það frekar að hafa næði, frið og tóm til að hugsa sjálfstætt. Og ekki síður að geta hlustað?
Tæknin er ekki hlutlaus hún mótar líf okkar og samskipti. Hún einfaldar vissulega margt. En við getum ekki bara límt símann við lófann og falið gervigreindinni stjórnina yfir ákvörðunum daglegs lífs og hætt að hugsa.
Frelsið sem er okkur svo dýrmætt en er svo fallvalt, krefst þess að við hægjum á og gefum okkur tíma til að kafa – ekki bara skauta.