Við Jóhanna kona mín erum á árlegu ferðalagi okkar um landið. Við leigjum venjulega sumarbústað læknafélaganna þar sem við höfum bækistöð í eina viku. Á daginn keyrum við um næsta nágrenni, förum í sund, hneykslumst á erlendum ökumönnum, etum vondar pylsur og förum á slóðir Sturlunga. Ég felli tár yfir grimmum afdrifum frænda minna á 13. öld en Jóhanna lætur sér fátt um finnast og segist vera dauðþreytt á þessu væli. Á dögunum fórum við í Borgarnes á slóðir afa minna Egils Skallagrímssonar og Snorra Sturlusonar. Ég grét smáskvettu yfir örlögum Kjartans frænda míns Ólafssonar sem jarðaður er að Borg en síðan skelltum við okkur í sund. Í pottunum var mikill fjöldi af eldri borgurum saman kominn.
Ég heilsaði glaðlega og reyndi að fitja upp á þjóðlegu samtali um hjónaband og skilnað Snorra Sturlusonar við Herdísi konu sína sem ættuð var úr plássinu. Enginn hafði áhuga á svo gamalli skilnaðarsögu heldur fóru að ræða utanlandsferðir. Hópurinn skiptist fljótlega í þá sem ætluðu um jólin til Kanaríeyja og hina sem ætluðu í golfferð á framandi slóðir í vetur. Nokkrir voru að skipuleggja ferð með snekkju um Eyjahafið eftir áramótin. Síðan ræddu menn hótel og allan aðbúnað á þessum stöðum af innlifun og kunnáttu.
Lífskjör aldraðra í Borgarfirði virtust lítið hafa breyst frá því að Egill afi minn svamlaði í þessum potti endur fyrir löngu. Hann átti nóga peninga sem honum tókst að koma í lóg og gera þannig börn sín arflaus. Mér þótti vænt um að andi Egils skuli enn svífa yfir æskustöðvum hans. Allir í pottinum virtust eins og Egill vera viðþolslausir af útþrá og vildu helst spóka sig á sundskýlu fjarri heimahögunum. Verðmiðinn skipti engu máli frekar en hjá Agli. Það er ánægjulegt að sjá heimafólk fylgja í fótspor afa míns mörgum öldum eftir dauða hans. Hann er víða gleymdur en lifir góðu lífi í sundlaugarpottunum í Borgarnesi.