fbpx
Þriðjudagur 29.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Ágúst Borgþór skrifar: Grínverjinn og skautunin

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 9. júní 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var að vaxa úr grasi á áttunda áratug síðustu aldar kippti sér enginn upp við dónaskap í garð feitra eða þeldökkra og það þótti nánast göfugmannlegt að tjá hatur í garð samkynhneigðra. Núna er öldin önnur, sem betur fer. Börnin mín, 25 og 30 ára, fyllast óviðráðanlegri vanlíðan ef ég reyni að tala ensku við þau með kóreskum framburði og þó að þau hafi gaman af mörgu sem Laddi hefur fært þjóðinni er lagið Grínverjinn klárlega þar ekki á meðal.

Aukin samkennd og samúð með minnihlutahópum er jákvæð breyting á tíðarandanum en samt eru fjölmargir sem halda því fram að sú þróun sé samsæri marxískra háskólamanna um að ná ógnarvaldi á hugsun og tjáningu almennings. Slíkar tröllasögur eru samt ekki tilefnislausar. Samhliða vaxandi fylgi mannúðarstefnu undanfarna áratugi hafa ofsóknir á hendur fólki fyrir óvarlega orðræðu færst í aukana. Hinir réttsýnu benda gjarnan á að það sé ekki andstætt tjáningarfrelsi að fólk beri ábyrgð á skoðunum sínum og þeim sé mótmælt. Ef hinir réttsýnu eru þá spurðir hvers vegna þeir séu að krefjast atvinnubanns á hendur hinum ranglátu þá benda þeir á að það séu forréttindi en ekki sjálfsögð mannréttindi að fá að standa uppi á sviði og syngja, eða leigja skrifstofu í opinberri byggingu. Semsagt hundalógík.

Okkur er tíðrætt um skautun í umræðunni og ekki að ástæðulausu. Öfgafyllstu pólar leiða umræðu á samfélagsmiðlum á meðan þorri fólks er ofstækislaus en veigrar sér við að blanda sér í umræðuna af ótta við að vera stimplaður rasisti eða vókisti.

Það tók sig upp gamalt bros í gömlum, margsprungnum vörum þegar ég las á dögunum um hvaða tveir hópar stóðu fyrir átakafundi um útlendingamál á Austurvelli. Annars vegar virðist þar hafa verið baráttuhópur uppfullur af fólki sem þarf að taka fram að það sé ekki rasistar um leið og það viðhefur alls konar rangfærslur um útlendinga, alhæfingar og samblöndun. Hins vegar var þarna baráttuhópurinn No borders, sem viðurkennir hvorki þjóðmenningu né landamæri. Flestir eiga heima í hvorugum hópnum.

Já, ég gat ekki annað en brosað. Gott ef ég hló ekki upphátt. Þarna var skautunin lifandi mætt, að segja mér að þjóðfélagsumræðan væri bara fyrir öfgafólk, ekki fyrir hófsaman meðaljóninn.

Útlendingamál eru margbrotinn og flókinn málaflokkur sem kallar á margvíslega umræðu, sem helst þyrfti að vera leidd af sérfræðingum, skýrmæltum og óhagsmunatengdum, en með kjark til að segja sannleikann eins og hann horfir við þeim. Þetta er einn af þeim mörgu mikilvægu málaflokkum sem þarfnast uppreisnar gegn skautuninni. Fyrsta skrefið í átt að vitrænni og upplýstri þjóðfélagsumræðu er að hrifsa umræðuna úr höndum nettrölla og skotgrafarhermanna. Við þurfum á eins konar uppreisn hinna hófsömu að halda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Högg í maga United
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir
EyjanFastir pennar
25.06.2025

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar
EyjanFastir pennar
25.06.2025

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!