Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra tókst á við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í þættinum Torgið á RÚV í gærkvöldi. Þátturinn var tekinn upp í samkomuhúsi Grundarfjarðar og umræðuefnið voru veiðigjöldin. Ekki voru allir sáttir með þessa nálgun ríkismiðilsins. Mörgum þótti undarlegt að ráðherrann ætti að sitja þarna einn til að tala máli ríkisstjórnarinnar sem og meirihluta þjóðarinnar sem sagðist hlynntur hækkun veiðigjalda í skoðanakönnunum. Eins hafi þáttastjórnendur ekki gefið Daða Má mikið færi á að svara fyrir sig á meðan Heiðrún Lind fékk orðið svo gott sem frjálst. Sumir veltu fyrir sér hvers vegna valið var að taka þáttinn upp á Grundarfirði og hvort mögulegt væri að hér væri um keypt dagskrárefni að ræða.
Óvísindaleg greining Eyjunnar á umræðunni á Facebook bendir, þegar þessi orð eru skrifuð, ekki til þess að þátturinn hafi sannfært nokkurn af eða á. Þeir sem eru á móti hækkun veiðigjalda eru það enn og þeir sem eru hlynntir henni eru enn á sama máli. Þeim sem eru hlynntir þótti flestum Daði Már standa sig vel á meðan þeir sem eru á móti töldu Heiðrúnu Lind hafa komið betur út. Það verður þó fróðlegt að sjá næstu skoðanakönnun um afstöðu þjóðarinnar. Hér verður stiklað á stóru um umræðuna á Facebook í kjölfar þáttarins, en hvað efnistök Torgsins varðar er fólki bent á þáttinn sjálfan sem má nálgast hér.
Áhorfendur í samkomuhúsinu komu frá Snæfellsnesi en upptökustjóri Torgsins og bæjarstjóri Grundarfjarðabæjar auglýstur eftir gestum í sal.
Rithöfundurinn Illugi Jökulsson furðar sig á ummælum Heiðrúnar í gær um að sjávarútveginn hafi skort talsmenn í gegnum tíðina sem skýri hvers vegna þjóðin styður frumvarp um hækkun veiðigjalda.
„Sko. Frá árinu 2013 hafa sægreifarnir og stjórnmáladeildir þeirra ráðið ferðinni algjörlega í umræðu í sjávarútvegsmálum. Þannig að það er vægast sagt sérkennilegt að heyra Heiðrúnu Lind gefa í skyn að ástæðan fyrir því að stór meirihluti þjóðarinnar styðji veiðigjaldafrumvarpið nú sé að sjávarútveginn hafi skort talsmenn,“ skrifaði rithöfundurinn á Facebook í gær.
Fyrrverandi ráðherrann Össur Skarphéðinsson tekur undir með illuga í athugasemd og kallar þáttinn í gær: „Djókur aldarinnar“. Einhverjir furðuðu sig á staðsetningu útsendingarinnar sem hafi leitt til þess að spurningar úr sal voru einhliða. Stefán Benediktsson, fyrrum þingmaður, telur þó að staðsetningin hafi bara hjálpað ráðherranum. „Staðsetningin var fullkomin fyrir Daða. Að koma vel út úr samræðum í þessu samkvæmti er pólitískt afrek.“
Fleiri tjáðu sig undir færslu Illuga og sökuðu Heiðrúnu Lind um útúrsnúninga og væl fyrir hönd sægreifa.
Fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM), Guðmundur Ragnarsson, skrifaði líka færslu: „Ég er mjög hugsi yfir frammistöðu og rökum Daða Más í þættinum Torginu á RÚV í kvöld“. Þar mætti Össur aftur í athugasemdakerfið og skrifaði: „Pottþéttur málflutningur“. Annar fyrrum ráðherra, Björn Bjarnason, var þó á öðru máli og skrifaði: „Var ekki lykilorð ráðherrans færanleiki og að sjávarútvegsbæir yrðu bara að sætta sig við það en þeir fengju kannski betri vegi í staðinn?“
Fyrrverandi varaborgarfulltrúinn Hallur Magnússon kallaði Daða besta fjármálaráðherra landsins í langan tíma.
Þórólfur Júlían Dagsson, fyrrverandi oddviti Pírata í Reykjanesbæ, skrifaði færslu inn á hópinn Strandveiði og ufsa veiði spjallið. „Það var ótrúlegt að fylgjast með Daða Má Kristóferssyni í gær, hann var rökfastur og málefnalegur.“
Úlfar Hauksson, stjórnmálafræðingur og skútuskipstjóri, skrifaði færslu þar sem hann bar veiðigjöld saman við útvarpsgjaldið.
„Í spjallþætti RÚV „Torgið“ kom fram að „ef vel árar er veiðigjaldið hátt“… Veiðigjald hefur í gegnum tíðina verið svipað – eða heldur lægra – en útvarpsgjaldið sem sauðsvartur almenningur greiðir.“
Dæmi um fleiri ummæli sem hafa fallið eftir sýningu þáttarins:
„Þessi þáttur var skandall.“
„Alveg magnað að halda þennan fund í Grundarfirði. Að Daði þurfi að sitja undir þessu væli er með ólíkindum. Þessi þáttur er grín.“
„Fáránleg framsetning hjá RÚV. Hvað gekk þeim til?“
„Daði Már var einn á móti öllum, þar með talið þáttastjórnendum. Heiðrún Lind fékk að tala út í eitt, fékk að grípa fram í og fékk líka að stoppa Daða þegar hann greip fram í fyrir henni. Í lokin var tíminn þrotinn að sögn þáttarstjórnenda, en svo fékk Heiðrún Lind leiðandi spurningu eftir það sem hún fékk að svara átölulaust. Lágkúra dauðans.“
„Hann er flottur bílaflotinn við samkomuhús Grundarfjarðar núna þegar Torgið er í beinni á RÚV.“
„Torgið núna. GRÁTKÓR ELÍTUNNAR að reyna að réttlæta sjálftöku Sægreifanna, umræðan um veiðigjaldið“
Ein skrifaði langa færslu sem lauk með eftirfarandi greiningu á þættinum:
„Hverjum datt í hug að hafa þennan Torg-þátt í útgerðarplássi sem er undir hæl stórútgerðarinnar? Hvað skilur þessi þáttur eftir. Skýrir hann eitthvað betur fyrir almenningi hvað hækkun veiðigjalda snýst um? Þetta lið sem heimtar samtal er ekki samræðuhæft. Svo er þvaðrað stanslaust um greiningu. Greiningin er að þið auðfólk í útgerð eruð siðblindir fíklar. Ekki tilviljun að þið réðuð leikara sem léku sams konar fólk í norsku þáttunum EXIT til leika í auglýsingunum ykkar.“