Það þarf að vanda sig í umræðu um veiðigjöld og auglýsingum um það efni. Ekki má gleyma því að öll umræða um þessi mál stýrist mjög af tilfinningum og tilfinning fólksins í landinu er sú að þar sem verið sé að nýta sameiginlega auðlind okkar sé mikilvægt að afraksturinn dreifist betur en nú er. Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Dilja Mist - 1
Nú hefur auglýsingaherferð frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi vakið mikla athygli. Heldurðu að hún sé að vinna þeim málstað mikið gagn?
„Kannski eitthvað af því. Það snertir nú við taug í brothættari byggðum til dæmis, kannski úti á landsbyggðinni, eitthvað af þessu myndefni og þessum auglýsingum sem hafa verið að birtast. En við ættum ekki að vanmeta það að við erum auðvitað að reyna að ræða þetta mál efnislega. Við erum að reyna að ræða þetta mál út frá fyrirvaranum og tímanum og út frá því að það er auðvitað verið að tvöfalda gjaldheimtu á stuttum tíma og svo framvegis og svo framvegis. Það er verið að ræða málið efnislega,“ segir Diljá Mist.
Hún segir alls ekki mega gleyma því að þetta mál sé mikið tilfinningamál. „Við getum ekki litið fram hjá því. Og við gleymum því stundum, stjórnmálamennirnir, að það eru ekkert allir að hugsa um EBIDTA, eða hvað það er sem við viljum tefla fram og við viljum ræða málin og vera málefnaleg. Einhverjir hafa verið að vísa í gömul orð Þorgerðar Katrínar, sem er núna ráðherra í þessari ríkisstjórn, um það að einhverjar umræður eða tilfinningar snúist bara um öfund eða eitthvað sem fólk sér ofsjónum yfir í samfélaginu. Það er bara ekkert hægt að gera lítið úr því eða vanmeta þau áhrif í svona litlu samfélagi eins og Ísland er þannig að við verðum líka einhvern veginn að ávarpa það. Það eru auðvitað staðreynd að það ríkir ekki nægilega góð sátt um þessa atvinnugrein sem er auðvitað hundfúlt þegar við erum með atvinnugrein sem er einsdæmi á heimsvísu.“
Diljá Mist segir okkur þurfa að ræða okkur niður á sameiginlega niðurstöðu varðandi sjávarútveginn og gjaldtöku þar. „Við þurfum líka að upplýsa betur, við þurfum að gæta okkar á hvaða upplýsingum við erum að dreifa. Þú spyrð um auglýsingaherferð, hvort hún sé gott innlegg í þá umræðu. Við þurfum að vanda okkur en við þurfum líka að fara vel með þessa grunnstoð íslensks atvinnulífs.“
Það hefur bent á að arðsemi í þessari grein er miklu meiri en almennt í atvinnulífinu …
„Nei, það hefur líka verið bent á að svo sé ekki …“
Hagnaðarhlutfallið er 24 prósent en níu prósent almennt í atvinnulífinu þannig að það er nú eitthvað til skiptanna þarna.
„Já, já, það er líka verið að – þetta er eins og með annað mál sem við gætum líka fest okkur í, sem er Evrópusambandið. Fólk er ofboðslega gjarnt á það að velja einhverjar tölur, helst milljarða, það er svo gott að tala um milljarða í einhverju samhengi, arðgreiðslur eða hvað sem er. það var nú nýleg umræða um arðgreiðslur í þessari atvinnugrein, sem eru ekkert meiri en gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum og við gætum tekið dæm um verslun, viðskipti eða hvaðeina sem er og fólk sér ofsjónum yfir í einhverju samhengi.“
Þá er bent á það á móti að þegar horft er til hagnaðarhlutfallsins í greininni þá eru arðgreiðslurnar mjög ríkulegar þrátt fyrir að þær séu lægra hlutfall af hagnaði en í öðrum greinum.
„Ég er nú búin að hringja út í kosningum í áratugi og ræða sjávarútvegskerfið á Íslandi mjög mikið og þegar betur er að gáð er fólk ekkert mikið að ræða sjávarútvegskerfið. Það er miklu meira að ræða, eins og ég var að nefna áðan, bara tilfinningar og tilfinningin er sú að fólkið í landinu eigi sjóinn umhverfis landið og þetta sé sameiginleg auðlind sem er verið að nýta og það sem verður til skiptanna verði að dreifast betur.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.